Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 20:30:27 (6394)

2000-04-11 20:30:27# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[20:30]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Við fjöllum um frv. það sem til umræðu er eftir þær stjórnarskrárbreytingar sem gerðar voru og samþykktar voru á tveimur þingum. Hér er að sönnu um stórmál að ræða og ekki á hverjum degi sem Alþingi Íslendinga gengur frá jafnviðamiklum breytingum á kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulagi og hér um ræðir og því ástæða til að fara nokkrum orðum um það í upphafi til hvers leikurinn var gerður, til hvers af stað var farið.

Legið hefur fyrir um alllangt skeið að ósætti og eðlilegt ósætti hefur verið um þá staðreynd að misvægi atkvæða hefur farið vaxandi með búsetubreytingum á umliðnum árum og áratugum. Svo var komið að eitt atkvæði á suðvesturhorninu, í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi, jafngilti fjórum í smæstu og mannfæstu kjördæmunum. Þetta var ástand sem ekki var hægt að búa við og stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar höfðu allir sem einn lýst yfir þeim vilja sínum að á þessu vandamáli þyrfti að taka og á síðasta áratug, árunum 1994--1996, var það markmið og yfirlýst stefna Sjálfstfl., Framsfl., Alþfl., Alþb. og Kvennalista að á þessum vanda þyrfti að taka. Sannleikurinn er hins vegar sá, herra forseti, að stór orð og stór áform um að taka á þessum vanda hafa nú ekki reynst eins auðveld og einföld í framkvæmd þegar til kastanna kom og menn vildu vera láta.

Það er engin tilviljun að breytingar á kjördæmaskipan hafa verið fáar og smáar á öldinni sem leið. 1959 var að sönnu gerð mjög stór breyting, önnur smærri og veigaminni 1987, en að öðru leyti hefur stjórnmálaflokkunum ekki tekist að ná víðtæku samkomulagi um nauðsynlegar endurbætur og lagfæringar á þessum mikilvæga grunnþætti lýðræðis í landinu.

Það er þess vegna nauðsynlegt að undirstrika það, herra forseti, þegar menn ræða hér við umræðuna, eins og fram kom í orðaskiptum hæstv. utanrrh. og formanns Framsfl. annars vegar og talsmanns vinstri grænna hins vegar, um ákveðna sáttargjörð í þessu stóra máli þá er hún gerð með það í huga að þrátt fyrir góðan vilja allra flokka og allra stjórnmálamanna um að taka á þessum vanda hefur það ekki tekist árum og áratugum saman vegna þess að flokkarnir hafa ekki náð samkomulagi um það.

Nú hefur það hins vegar tekist. Það á ekkert skylt við einhver meint hrossakaup eða önnur ónefni sem hér hafa verið nefnd til sögunnar. Hins vegar gera menn ekki samkomulag um raunverulegar framfarir á jafnviðamiklu máli og hér um ræðir nema orð standi, nema samkomulagið sé virt þegar til kastanna kemur. Það er nefnilega auðveldast allra hluta hjá stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum að gera aukaatriði að aðalatriði á lokaspretti til þess að vinna meinta hylli kjósenda vegna einhverra algerra aukaatriða í stóru máli. Þess vegna verð ég að segja, herra forseti, að það veldur mér nokkrum vonbrigðum þó það ætti ekki að koma mér á óvart, að menn fái hreinlega nýtt líf í öllu tilliti við það eitt að ganga í nýja stjórnmálaflokka. Þess vegna vil ég halda því mjög ákveðið til haga að í þeirri nefnd, sem sat frá árunum 1997 til ársins 1999 og lagði grundvöll að þeim breytingum sem við erum að lögfesta hér væntanlega á næstu vikum og mánuðum og endurspeglast í þegar gerðum samþykktum á stjórnarskrá lýðveldisins, sátu þingflokksformaður Alþb., núv. ræðismaður í Kanada, Svavar Gestsson, og ég er ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli að í þeirri nefnd var það vinnulag viðhaft að allir fulltrúar í henni frá öllum flokkum sem þá sátu á Alþingi höfðu mjög náið samráð við þingflokkana og báru síðan tíðindi frá þeim inn á nefndarfundi þannig að öllum mátti ljóst vera í þinginu á þeim tíma hvað var á ferðinni.

Að þessu sögðu vil ég segja að Samfylkingin stendur auðvitað að því samkomulagi sem gert var, því samkomulagi sem birtist í stjórnarskrárbreytingunni á vordögum 1999 og í sumarbyrjun eftir kosningar 1999 og hleypur ekki undan því samkomulagi sem þá var gert. Það er ábyrg og traust afstaða. Ég undirstrika, herra forseti, að það er líka ákaflega létt í vasa að gera aukaatriði að aðalatriði og segjast hafa getað betur nú á lokaspretti tínt út einhver einstök atriði sem einhverjir telja að kunni að hitta einhverja kjósendur fyrir einhvers staðar og gera það að aðalatriði málsins. Ég spyr hins vegar hina sömu hvort þeir hefðu ... (Gripið fram í: Hverjir eru þeir?) Nú vil ég gjarnan að formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggi sérstaklega við eyru í því samhengi. Herra forseti. Venju samkvæmt beini ég líka orðum til forseta, en ég vænti þess að þingmenn sem viðstaddir eru leggi við eyru. Hefðu þeir hinir sömu þingmenn viljað standa frammi fyrir þjóð og kjósendum með óbreytt kosningakerfi, með það að ekkert hefði gerst, með það að atkvæðamisvægi í Reykjavík væri eins og það var fyrir síðustu kosningar? Með öðrum orðum, eitt atkvæði á suðvesturhorninu jafngilti fjórum á Vestfjörðum. En það er einmitt það, herra forseti, sem hefði gerst og væri veruleiki dagsins í dag ef ekki hefði náðst víðtækt samkomulag milli flokkanna.

Herra forseti. Sú nefnd sem lagði upp með þetta verkefni fyrir rúmum tveimur árum var með nokkur meginmarkmið: Í fyrsta lagi að gera kosningakerfið einfalt og auðskiljanlegt. Það markmið hefur náðst. Í öðru lagi að draga úr misvægi atkvæða, eins og ég gat um áðan, þannig að hlutfall kjósenda að baki hverjum þingmanni þar sem munurinn er mestur milli kjördæma verði aldrei meiri en tveir, einn á móti tveimur. Í þriðja lagi að þingsætafjöldi í hverju kjördæmi verði sem jafnastur. Og, herra forseti, ég staldra aðeins við það atriði. Það er ekki síst til komið, og það er rétt að taka undir með formanni Framsfl. í því sambandi, að gera öllum stjórnmálaflokkum 10% og stærri kleift að eiga möguleika á kjörnum þingmanni í hverju einasta kjördæmi hringinn í kringum landið. Og það er ekkert launungarmál að Alþfl. og Alþb. lögðu ríka áherslu á það og það kemur mér mjög á óvart þrátt fyrir breytta stöðu í Alþingi Íslendinga, þá er það engu að síður svo að einstaka flokkar falla einmitt undir þá skilgreiningu, að þeir hinir sömu ganga hér harðast fram gegn þessum breytingum. Í fjórða lagi að áfram yrði jöfnuður milli stjórnmálasamtaka á landsvísu, sem þýðir í raun að kjósendur fái yfir sig þingmenn þeirra flokka sem þeir kjósa, ekki aðra. Og í fimmta lagi að þingmenn verði áfram 63 eins og nú er. Öll þessi meginmarkmið nást fram í stjórnarskrárbreytingunni og þeim lögum sem við erum að afgreiða í þessari lotu.

Af hverju staldra menn við það að landið verði eingöngu sex eða sjö kjördæmi? Af hverju fóru menn ekki þá leið að hafa þau fleiri og þingmenn í hverju þeirra færri? Ástæðan er ósköp einföld og er í nokkrum liðum.

Í fyrsta lagi verður kosningakerfið einfaldara en ella vegna þess að þá þarf ekki að beita jafnflóknum aðferðum við úthlutun þingsæta og við höfum búið við, þ.e. lottókerfi kosninganóttanna verður miklu fábreytilegra og minna spennandi en verið hefur.

Í öðru lagi að ef fjöldi kjördæmasæta er nokkurn veginn sá sami í hverju kjördæmi þarf ekki nema níu jöfnunarsæti í heild til þess að tryggja nokkurn veginn algjöran jöfnuð milli stjórnmálasamtaka miðað við kjörfylgi þeirra á landinu öllu. Ef kjördæmin yrðu fleiri með færri þingsætum, eða eitt þeirra miklum mun fámennara en önnur, þyrfti að fjölga jöfnunarsætum eða jafnvel taka upp flóknari úthlutunarreglur en d'Hondt-regluna til að tryggja þann jöfnuð milli stjórnmálasamtaka. Þetta þekkja allir frá því fyrirkomulagi sem við höfum búið við um nokkurra ára skeið.

Í þriðja lagi, sé miðað við hlutfall kjósenda verði nokkurn veginn jafnauðvelt eða jafnerfitt fyrir framboðslista að ná kjördæmasæti hvar sem er á landinu.

Í fjórða lagi, sem er ekki veigaminnst, að síðast en ekki síst verða þingmannahópar kjördæmanna tiltölulega jafnir að stærð sem ætti að tryggja jafnræði milli þeirra á hinu háa Alþingi.

Herra forseti. Ég hef eytt nokkrum tíma í að fara yfir ákveðna grundvallarþætti þessa máls sem hafa kannski að miklu leyti þegar verið afgreiddir við breytingu á stjórnarskrá, en ég held að nauðsynlegt sé að halda til haga þeim meginviðmiðum í málinu og missa sig ekki út í smáatriði, tæknileg útfærsluatriði sem litlu skipta í hinni stóru mynd.

Í raun og sanni er verið að gera sáralitlar breytingar frá því uppleggi sem nefndin sem Friðrik Sophusson, þáv. hæstv. fjmrh. leiddi, og fyrsta valkost þeirrar nefndar. Þeir hafa að sönnu farið í gegnum þær tillögur sem fylgdu með frv. til stjórnarskrárbreytinga og skoðað alla þætti málsins upp á nýtt í þeirri nefnd sem skipuð var á haustdögum og skilaði af sér fyrir viku eða svo. Í raun hafa aðeins tvær breytingar verið gerðar á því uppkasti að kosningalögum sem fylgdu stjórnarskrárbreytingunni á vordögum.

Í annan stað hafa menn lagt til að skipting Reykjavíkur verði ekki í austur/vestur, heldur í norður og suður. Hæstv. fjmrh., formaður nefndarinnar, hefur gert glögga grein fyrir því hvers vegna þetta er. Menn telja að með slíkri skiptingu sé sennilegra að vaxtarbroddar væru í báðum þeim kjördæmum, en að með austur og vestur skiptingunni stækkaði aðeins annar endinn með náttúrulegum hætti og þyrfti því sífellt að breyta kjördæmamörkum til að hafa þessi kjördæmi jafnstór.

Ég vil nota ferðina og fara aðeins aftur orðum um það sem ég gerði raunar hér við umræðuna í sumar og vor hvers vegna menn leggja til skiptingu Reykjavíkur. Það á einmitt við í því samhengi sem ég gat um áðan að sumir einstakir stjórnmálamenn hafa farið mikinn í þessu, ekki síst eru það stjórnmálamenn utan af landi sem telja sig vera að slá einhverjar keilur í því sambandi. Það gefur auðvitað augaleið að með því að hafa Reykjavík í einu kjördæmi með 22 þingmenn mundi hinn náttúrulegi þröskuldur til að fá mann kjörinn í Reykjavíkurkjördæmi vera helmingi lægri en víðast hvar annars staðar. Þykir mönnum mikið réttlæti í þeim efnum? Nei, auðvitað ekki.

Til þess að sú rammaskipan mála og sú tölfræði sem lagt var af stað með gangi í gegn þarf að skipta Reykjavík. Síðan má deila um það hvernig það verður best gert. Einnig má deila um það eins og hugmyndir hafa verið uppi um hvort skynsamlegra hefði verið að skipta höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorninu upp á annan hátt en hér er gert. Það hefði að sönnu verið hægt að láta Seltjarnarnes fylgja vesturhluta Reykjavíkur og Mosfellsbæ jafnvel Vesturlandskjördæmi eða Kópavogi o.s.frv. Það eru ýmis tilbrigði við það. En grundvallaratriðið til að ná því markmiði um jafnfjölmenna kjördæmahópa er að jafnerfitt eða -auðvelt verði að ná mönnum kjörnum í hvaða kjördæmi sem er á landinu, þá er það óhjákvæmilegur hluti í þessu frv. og þessum kosningalögum sem hér eru að skipting Reykjavíkur haldi. Og ég vek athygli á því, herra forseti, að sá maður sem sennilega hefur kveðið hvað fastast að orði í þessum efnum var þáv. þm. Reykv., Svavar Gestsson, þáv. formaður þingflokks Alþb. Hann var mjög áfram um það að sú heildarmynd sem ég hef lýst haldi, að menn séu ekki að brjóta úr henni eftir geðþótta hvers og eins af ástæðum sem ég kann ekki að rekja til hlítar.

[20:45]

Herra forseti. Í annan stað voru gerðar breytingar á suðausturhluta landsins. Það er í raun eini þátturinn þar sem kastaðist í kekki hjá meginhluta nefndarinnar, þ.e. fulltrúa Samfylkingarinnar og Sjálfstfl. Samfylkingin hallaðist að því að varlegra væri að halda óbreyttri kjördæmaskipan í austurkjördæminu. Reglan hefur verið sú að gera sem minnstar breytingar, þ.e. annaðhvort sé kjördæmi skipt í sundur eða tengt öðrum en ekki hvort tveggja, og öðrum breytingum haldið í lágmarki.

Um þetta get ég haft mörg orð. Hornfirðingar sjálfir virðast þverklofnir í málinu, sveitarstjórnarmenn þar sömuleiðis og rökin eru á ýmsa vegu. Ég ætla ekki að nota tímann í að útlista það. Við í Samfylkinguni munum ekki gera þetta atriði, að sumu leyti lítið atriði í hinni stóru mynd, að úrslitaatriði.

Herra forseti. Til viðbótar eru hér gerðar endurbætur og lagfæringar á gildandi kosningalöggjöf sem eru í raun ótengdar þeim breytingum á stjórnarskrá sem gerðar voru á vordögum, afrakstur nefndar sem ég sat í og var skipuð af þáv. dómsmrh. Rétt er að vekja athygli á endurbótum á borð við þær að frestir eru styttir, gerðar eru ákveðnar verklagsbreytingar til bóta og rýmkanir á utankjörstaðaafgreiðslu sem hefur gengið með ýmsu móti. Ég leyni því ekki að í nefndinni sem sendi frá sér álitsgerð á síðasta ári, fyrripart síðasta árs, voru fleiri atriði nefnd til sögunnar. Ég hefði viljað sjá möguleika á póstkosningu, þ.e. að Íslendingum í útlöndum væri gefinn kostur á að fá atkvæðaseðla senda heim. Þeir gætu síðan kosið á sýsluskrifstofum í viðkomandi landi og fengið framkvæmdina nóteraða. Þessi atriði voru hins vegar skilin eftir ásamt öðrum álitamálum eins og hvort heimila ætti stjórnmálaflokkunum viðveru í kjördeildum. Fleiri atriði voru týnd til og er að finna í álitsgerð nefndarinnar sem ekki reyndist unnt að ljúka. Nefnd sem starfaði undir forustu Geirs H. Haardes vannst ekki heldur tími til að vinna sig fullkomlega í gegnum þau. Ég held þó að óhætt sé að fullyrða að það sem er að finna í þessu frv. miði í rétta átt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Það er augljóst að í öllum stjórnmálaflokkum voru og eru uppi þær raddir og viðhorf sem hefðu viljað sjá aðrar niðurstöður en hér eru. Það er ekkert launungarmál að stefna Samfylkingarinnar er og hefur verið, þann stutta tíma sem hún hefur starfað, að gera landið að einu kjördæmi. Það er í samræmi við stefnu Alþfl., Alþb. og Kvennalistans sem standa að Samflylkinguni. Á sama hátt hafa áhersluatriði sjálfstæðismanna verið þau að minnka kjördæmin, jafnvel setja þau niður í einmenningskjördæmi, þannig að þar er langt bil á milli manna. Það lá því algjörlega ljóst fyrir að ef menn ætluðu að komast hænufet, ef menn ætluðu að vinna í að draga úr misvægi atkvæða, þá hlutu þeir að mætast einhvers staðar á miðri leið. Það hefur tekist þótt einstakir hv. þm. hrökkvi fyrir borð á síðustu stundu. Það verður svo að vera.

Í því samhengi fagna ég því að formaður Framsfl. hafi í ræðu hér áðan tekið af öll tvímæli um að þingmenn Framsfl. ætli að standa við það samkomulag sem gert var, við þær tillögur sem hér liggja frammi og greiða þeim atkvæði. Það hefur ekkert með handjárn á stjórnmálaflokka að gera heldur snýst um það eitt hvort stjórnmálaflokkar séu trúverðugir og hægt sé að treysta þeim. Jafnvel yfir kosningar. Samfylkingin vill vera þannig flokkur, hún er þannig flokkur og mun því auðvitað styðja þetta merka frv. sem tryggir að við munum aldrei aftur, herra forseti, sjá það skekkta lýðræði sem m.a. hefur birst okkur í því að eitt atkvæði hér í Reykjavík sé sem fjórðungur eða jafnvel fimmtungur úr atkvæði gagnvart fámennari kjördæmum. Það er fyrirbyggt í breyttri stjórnarskrá. Hér erum við að ljúka við það farsæla verk sem hafið var, sem víðtækt samkomulag náðist um og allir ábyrgir stjórnmálaflokkar ætla að standa við.