Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 20:52:30 (6396)

2000-04-11 20:52:30# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[20:52]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það var einmitt ræða á borð við þessa sem ég varaði hér við. Því við hefðum getað haldið áfram þessum skoðanaskiptum hér langt fram á næstu öld. Mér er kunnugt um þær skoðanir hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Hann hefur ítrekað lýst því úr þessum ræðustól að hann telji það lýðræðislegt og eðlilegt af hagkvæmnisástæðum að hafa misvægi atkvæða. Gott og vel. Það er hans skoðun en um þetta hafa stjórnmálamenn rifist árum og áratugum saman. Ég er hins vegar því ósammála.

Ítrekað spyr hv. þm. mig --- hann gerði það líka sl. vor --- um Tony Blair og Breta. Ég er algerlega andvígur því kosningakerfi sem íhaldsmenn og Verkamannaflokkurinn í Bretlandi hafa bundist tryggðaböndum, þar sem misvægi í atkvæðum er jafnmikið og hv. þm. lýsti. Á hinn bóginn er hv. þm. illa upplýstur. Tony Blair hefur einmitt áformað að blanda þessum tveimur kerfum saman, þ.e. að bæta hlutfallskerfinu við einmenningskjördæmin. En að öðru leyti er ákaflega innihaldslaus umræða sem við höfum þegar afgreitt.

Hins vegar er athyglisvert að formaður þingflokks Framsfl. skuli sjá sérstaka ástæðu, hér á lokaspretti málsins, til að setja umræðuna niður á þetta stig eins og hann gerði hér áðan. Ég var einmitt að fagna því hér áðan, herra forseti, að Framsfl. sem traustur og ábyrgur flokkur ætlaði að standa við gefnar yfirlýsingar. Það væri hægt að treysta því sem hann segði fyrir kosningar, því hann segði það líka eftir kosningar. Ég fer þó að efast eftir ræðu þingflokksformanns Framsfl.