Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 21:21:40 (6401)

2000-04-11 21:21:40# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[21:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti hyggilegt af hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að vera ívið hógværari í andsvari sínu en hann var að meginhluta til í ræðu sinni fyrr í kvöld. Aðeins einar upplýsingar til viðbótar fyrir hv. þm. úr starfi þingflokks Alþb. og óháðra á sumar- og haustdögum 1998. Það er ábyggilega ekkert vandamál að upplýsa það hér og nú að sá þingflokkur fundaði nú ekki mikið eftir júnílok 1998 af held ég augljósum ástæðum. Tíðindi sem urðu á og eftir aukalandsfund Alþb. á þeim dögum gerðu það að verkum að ég held að þáv. formanni þingflokksins hafi ekki þótt það skynsamlegt að halda mönnum mikið til funda í þeirri stofnun eins og þá var komið í stjórnmálunum. Þetta eru ósköp einfaldlega aðstæður og staðreyndir sem allir ættu að skilja og geta virt.

Það er ekki svara vert að með því að hafa aðrar tillögur um útfærslu kosningalaga eða gagnrýni á ákveðna þætti í þeirri stjórnarskárbreytingu sem hér var gerð, þá jafngildi það viljaleysi til að draga úr misvægi atkvæða, eða reyna að leita að góðri niðurstöðu í sambandi við kosningalög, það er ekki svara vert. Það kemur skýrt fram í því séráliti sem ég skilaði forsrh. að við erum ekki að leggjast gegn því að þarna séu gerðar breytingar, það er því miður þannig að sá veruleiki blasir við mönnum að vegna hinnar óhóflegu byggðaröskunar verður væntanlega ekki undan því vikist að fara í einhverjar breytingar. Spurningin er þar af leiðandi ekki hvort. Ég hef engan mann heyrt halda því fram í íslenskum stjórnmálum, sennilega sl. 10 ár, að undan því yrði vikist að fara þarna í breytingar. Spurningin er bara hvernig, enda hefur slíkt starf verið meira og minna við lýði núna í 10 ár. Ég sat í stjórnarskrárnefnd eða kosningalaganefnd svo snemma sem á næstsíðasta kjörtímabili þar sem tekin var bráðabirgðaáfangi í þessum málum, m.a. með flutningi flakkarans hingað suður o.s.frv. Það eru því engar nýjar fréttir.