Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 21:31:04 (6405)

2000-04-11 21:31:04# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[21:31]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að margar athyglisverðar ábendingar hafi komið fram í máli hv. þm. En þessi atriði hafa flest ef ekki öll verið skoðuð í þeirri nefnd sem vann að frv. Með því að mörk í Reykjavík verða ekki dregin fyrr en fimm vikum fyrir kosningar er í og með verið að undirstrika að þessi mörk eru í raun bara kosningatæknileg lína á blaði og skipta ekki máli í hefðbundinni kjördæmavinnu þingmanna fyrir kjördæmin tvö.

En út af því sem þingmaðurinn velti fyrir sér varðandi uppstillingar og prófkjör þá er það auðvitað mál hvers stjórnmálaflokks. Það er auðvitað verkefni flokkanna að finna út úr því á vettvangi hvers fyrir sig hvernig unnið verði úr þessu viðfangsefni. Ég geri fastlega ráð fyrir því að flokkarnir, flestir eða einhverjir alla vega, séu farnir að huga að því máli. Hver og einn verður að finna þá leið sem hentar honum best í því sambandi en hins vegar er það ekki atriði sem eðlilegt væri að taka á í löggjöf eins og þeirri sem við erum hér að fjalla um.

Ég vildi bara að þetta kæmi fram vegna þess að þetta skiptir máli í þessari umfjöllun.