Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 22:09:32 (6409)

2000-04-11 22:09:32# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[22:09]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Með samþykkt þessa frv. er gjörbreytt þeirri kjördæmaskipan sem við höfum búið við í rúm 40 ár eða allt frá árinu 1959. Þetta frv. byggir á tillögum svokallaðar kjördæmanefndar sem var skipuð í september 1997 með fulltrúum allra þeirra þingflokka sem voru þá á Alþingi. Sú nefnd skilaði af sér ítarlegri skýrslu og tillögu í október 1998. Mér fundust niðurstöður þeirrar nefndar slæmar og lýsti andstöðu við þær þegar þær komu fram og hef gert það allar götur síðan, og þá sérstaklega hvað varðar stærð fyrirhugaðra kjördæma.

Sú nefnd sem hæstv. forsrh. skipaði síðan í október 1999 til að semja það frv. til kosningalaga sem liggur hér fyrir hefur illu heilli, vil ég segja, stuðst við tillögur kjördæmanefndarinnar varðandi kjördæmaskipan og til að mynda ekki nýtt sér þá breytingu sem gerð var við meðferð málsins á Alþingi í aðdraganda stjórnarskrárbreytingarinnar, þ.e. að kjördæmi megi vera sjö en ekki sex eins og kjördæmanefndin lagði til.

Það er skoðun mín að kjördæmin sem lögð eru til séu allt of stór. Það verða einfaldlega allt of stór kjördæmi sem verða til við að skipta landsbyggðinni í þrjú kjördæmi og það mun tvímælalaust koma niður á landsbyggðinni. Í fyrsta lagi tel ég að þetta muni koma mjög illa niður á ýmsu því sem er starfrækt á kjördæmavísu, t.d. samstarfi sveitarfélaga í einstökum kjördæmum sem er margþætt og mjög gott í mörgum kjördæmum. Það er samstarf milli sveitarfélaga á fjölmörgum sviðum í atvinnuþróunarstarfi, um skólamál, samstarf um málefni fatlaðra, um sorpmál o.fl. Ég heyri það á sveitarstjórnarmönnum að þeir óttast að þetta samstarf verði mun erfiðara og þyngra í vöfum þegar kjördæmin verða orðin svo gríðarlega stór eins og lagt er til. Ég hef orðið var við mjög miklar áhyggjur sveitarstjórnarmanna víða um land vegna þessa.

Mér sýnist augljóst að þetta muni bitna mjög á sambandi þingmanna við kjördæmi sín. Ég tel mjög nauðsynlegt fyrir þingmenn á landsbyggðinni að vera í góðu sambandi við kjördæmi sitt, þekkja hjartsláttinn í kjördæminu ef svo má að orði komast. Þingmenn þurfa að þekkja til sveitarfélaga og sveitarstjórnarmanna, þekkja atvinnulífið og stöðu atvinnufyrirtækjanna og yfir höfuð að vera sæmilega kunnugt um hag fólksins í kjördæminu. Þingmenn á landsbyggðinni sinna þessu almennt mjög vel. Þeir ferðast mikið um kjördæmin og reyna að fylgjast með því hvernig vindarnir blása. Þetta verður tvímælalaust miklu erfiðara eftir þessa breytingu en áður.

Ég tek sem dæmi kjördæmi mitt, Vesturland. Þar eru sjö þéttbýlisstaðir og margar víðfeðmar sveitir. Við þingmenn Vesturlands reynum að koma sem oftast á þessa staði og fylgjast með því sem þar er að gerast. Eftir að sú kjördæmabreyting sem lögð er til hefur tekið gildi verða þéttbýlisstaðir í nýja kjördæminu 24, 24 í stað sjö, auk gríðarlega mikilla og stórra sveitahéraða. Vegalengdir í kjördæminu verða margfaldar á við það sem er í hverju kjördæmi í dag, sama hvort miðað er við Vesturlandskjördæmi, Vestfjarðakjördæmi eða Norðurlandskjördæmi vestra. Það verður að mínu áliti nánast ómögulegt fyrir þingmenn nýja kjördæmisins að viðhalda því sambandi, sem ég nefndi áðan að væri nauðsynlegt, eftir þessa breytingu.

Þegar þetta var gagnrýnt á síðasta kjörtímabili komst kjördæmanefndin sáluga að þeirri snilldarniðurstöðu að þetta megi leysa með því að þingmenn fái aðstoðarmenn. Um það sagði í skýrslu kjördæmanefndarinnar sálugu, með leyfi forseta:

,,Verði tillögur nefndarinnar að lögum er ljóst að aðstaða þingmanna til að sinna kjósendum í hinum landfræðilega stærri kjördæmum verður önnur en áður. Með hliðsjón af því hvetur nefndin til að aðstoð við þingmenn úr þessum kjördæmum verði aukin, t.d. þannig að þingmenn fái styrk til að njóta liðsinnis starfsmanns eða til annars konar aðstoðar.``

Þetta hefur svo sem aldrei verið útfært nákvæmlega en ég hef skilið það þannig að hver landsbyggðarþingmaður eigi að fá aðstoðarmann. Sé það meiningin sýnist mér að það muni leiða til kostnaðar fyrir ríkissjóð --- ég vona að hæstv. fjmrh. hlusti --- upp á u.þ.b. 200 millj. kr. ári, 200 milljónir í laun, ferðakostnað, síma, tölvur o.fl. fyrir yfir 30 aðstoðarmenn. Ég hefði haldið að ríkissjóður þyrfti á einhverju öðru að halda. Það væri fróðlegt að heyra túlkun hæstv. fjmrh. á þessu og hvernig þetta er hugsað, það hefur aldrei verið útfært nákvæmlega.

Sumir segja að þetta sjónarmið mitt varðandi samband við kjördæmin sé gamaldags og þingmenn eigi að sinna löggjafarstörfum og vera ekki að stússa í því sem sumir kalla kjördæmapot. En ég held því hins vegar fram að slíkt samband þingmanna við kjördæmi sín sé mjög stór þáttur af starfi þingmannsins, þ.e. aðstoð við lífið og tilveruna í kjördæminu. Ég held að aðstoðarmenn komi ekki í staðinn fyrir þetta samband þingmanna við kjördæmi sín.

Mér finnst þessi mikla stækkun kjördæmanna alveg afleit og finnst höfðatala þingmanna í hverju kjördæmi skipta minna máli. Þess vegna benti ég og reyndar margir fleiri á það í starfi fyrri kjördæmanefndar að halda kjördæmunum óbreyttum en fækka frekar um einn þingmann í hverju kjördæmi. Það hefði leitt til nokkurn veginn sömu niðurstöðu.

[22:15]

Ef við lítum á stöðuna hvað varðar Vesturlandskjördæmi, Vestfjarðakjördæmi, Norðurlandskjördæmi vestra, Norðurlandskjördæmi eystra og Austurlandskjördæmi þá mundu þau fá 21 þingmann samkvæmt þessari tillögu, en í frv. er gert ráð fyrir að kjördæmin sem koma í staðinn, þ.e. Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi fái 20 þingmenn. Mismunurinn er einn þingmaður. Einn þingmaður er mismunurinn á þessum aðferðum. Og ætlum við að mæta því með 20 aðstoðarmönnum? Spyr sá sem ekki veit.

Ég leggst ekki gegn því að dregið sé úr mismun á vægi atkvæða, svo það komi nú skýrt fram. En ég tel að það hefði betur verið gert með þeim hætti sem ég nefndi áðan.

Ég hef orðið var við mjög mikla andstöðu við þá niðurstöðu sem lögð er til í frv. og ég segi alveg eins og er að ég hef varla hitt nokkurn einasta mann sem líst vel á þetta. Landsbyggðarmönnum líst illa á risakjördæmin og Reykvíkingar bölva skiptingu höfuðstaðarins í tvö kjördæmi. Samt á að lemja þetta í gegn. Fróðlegt væri að vita hve margir þingmenn eru í raun sammála þessum tillögum í hjarta sínu og ég fullyrði að þeir eru afskaplega fáir, en samt láta menn þetta yfir sig ganga.

Andstaðan við þessa breytingu er mjög afgerandi í mínu kjördæmi. Kannski byggist það eitthvað á svartsýni en ég held þó að menn séu þar raunsæir. Við höfum fengið ályktanir víða að þar sem landsbyggðarmenn álykta gegn þessu og líst illa á fyrirhugaðar breytingar. Ég gríp hér niður í ályktun héraðsnefndar Snæfellinga sem ályktaði á aðalfundi sínum í fyrra. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Aðalfundur héraðsnefndar Snæfellinga ... mótmælir framkomnum tillögum að breyttri kjördæmaskipan sem settar hafa verið fram af nefnd um endurskoðun kjördæmaskipunar og tilhögun kosninga til Alþingis. Aðalfundurinn telur að landsbyggðarkjördæmin verði of stórar einingar landfræðilega.

Aðalfundur héraðsnefndar Snæfellinga telur að mannréttindi felist í fleiri þáttum en jöfnun atkvæðisréttar. Aðalfundurinn lýsir undrun á þeirri einhæfu áherslu sem nú er lögð á jöfnun atkvæðisréttar og telur að ekki megi líta fram hjá öðrum aðstöðumun sem landsmenn búa við.

Aðalfundur telur að tillögur um jöfnun atkvæðisréttar og breytingu á kjördæmaskipan verði að skoða í ljósi annarra ráðstafana til að styðja og styrkja búsetu á landsbyggðinni. Aðalfundurinn skorar á stjórnvöld að jafna aðra þætti samhliða jöfnun atkvæðisréttar, svo sem aðgengi til náms, kostnað við framhaldsskóla- og háskólanám, samgöngur, húshitunarkostnað, aðgengi að opinberri og almennri þjónustu, flutningskostnað og fleira.

Aðalfundur héraðsnefndar Snæfellinga telur jöfnun á aðstöðumun landsmanna í þessum efnum skilyrði fyrir jöfnun atkvæðisréttar.``

Samþykktir sem þessar höfum við heyrt úr ýmsum áttum. Landsbyggðarmenn óttast þessa breytingu, telja hana byggða á sandi og vilja ekkert hafa með hana að gera. Og eins og ég sagði áðan, þá hittir maður varla einn einasta mann sem líst vel á þetta. Lengi vel voru Reykvíkingar sæmilega sáttir en nú er það liðin tíð því að nú sjá menn fram á að skiptingin á Reykjavík er ein vitleysan til. (Gripið fram í: Hver stendur fyrir þessu?)

Höfundar kjördæmatillögunnar sögðu gjarnan sem svo að menn eigi ekki að setja samasemmerki á milli atkvæðisréttar og búsetuskilyrða. Út af fyrir sig má segja það en fólkið í þessum dreifðu byggðum lítur svo á, eins og fram kemur í þeirri ályktun sem ég las upp frá Snæfellingum og reyndar fleirum sem borist hafa, að réttindi landsmanna snúist ekki bara um kosningarétt. Á þessum fundi héraðsnefndar sem ég vitnaði í kom fram að fólkið í hinum dreifðu byggðum á Snæfellsnesi býr margt við það t.d. að þurfa að senda börn sín til framhaldsnáms 16 ára gömul með ærnum tilkostnaði sem þéttbýlisbúar þurfa ekki. Það býr við gríðarlega háan húshitunarkostnað, einhvern þann hæsta á landinu þó keypt sé af fyrirtækjum í eigu ríkisins, Rarik og með tilstilli Landsvirkjunar. Það býr við mjög háan flutningskostnað sem leiðir til þess að verðlag þar er hærra en á höfuðborgarsvæðinu og dýrara að flytja afurðir frá svæðinu en víðast annars staðar og það byggist m.a. á þungaskatti ríkisins sem að stórum hluta er landsbyggðarskattur. Það er því ekki óeðlilegt að menn setji fram þessi rök þó að auðvitað megi segja sem svo að menn eigi ekki að setja samasemmerki milli atkvæðisréttar og búsetuskilyrða.

Herra forseti. Eitt er það sem hamrað hefur verið á í allri meðferð þessa máls, allt frá því að kosningalaganefndin hóf störf veturinn 1997--1998, en það er að þingmannahópar kjördæmanna skuli vera álíka stórir. Menn hafa lagt gríðarlega mikið upp úr því, bæði í umræðunni þá og núna líka. Ég hef satt að segja aldrei skilið hvers vegna svona mikil áhersla hefur verið lögð á þetta og engar röksemdir fengið fyrir því. Ég hef verið í rúm níu ár í þingmannahópi Vesturlands sem telur fimm þingmenn, en ég hef aldrei, ekki í eitt einasta skipti orðið var við að fjölmennari þingmannahópar hafi borið okkur ofurliði vegna þess hve við erum fáir, aldrei, síður en svo. Þingmenn Reykjavíkur eru 19 og þingmenn Reykjaness eru 12, Suðurlands og Norðurlands eystra sex. Við erum bara fimm. Ég hef aldrei fundið að það skipti nokkru einasta máli og allt samstarf okkar við þessa stóru kjördæmahópa hefur verið með miklum ágætum.

Reyndar fellur forsendan fyrir þessum álíka stóru þingmannahópum um sjálfa sig þegar 9. gr. frv. fer að virka. Það liggur alveg fyrir, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Kristins Gunnarssonar áðan, að strax í kosningunum árið 2007 mun þingmönnum Norðvesturkjördæmisins fækka úr tíu alla vega í níu ef ekki átta, ef ekki verður einhver stórkostleg breyting til batnaðar á búsetu manna frá því sem nú er. Það er alveg ljóst að þeim mun fækka a.m.k. í níu og í átta annaðhvort 2007 eða 2011. Og þá færast þau þingsæti strax frá Norðvesturkjördæminu til einhvers af kjördæmum höfuðborgarsvæðisins. Þá verður stærsti þingmannahópurinn orðinn 12 eða 13 þingmenn en sá minnsti kannski átta. Hvar eru þá þessir álíka stóru þingmanahópar? Sem skipta náttúrlega engu máli og eru hrein gervirök í þessu máli og eiginlega ekki bjóðandi.

Í framsöguræðu hæstv. fjmrh. kom fram að skoðanakönnun sem Hornfirðingar hefðu gert hefði leitt til þess að eina breytingin sem gerð var á kjördæmamörkum frá tillögum kjördæmanefndarinnar sálugu er sú að Hornafjörður er færður í Suðurkjördæmið í staðinn fyrir að vera í Norðausturkjördæminu.

En nú lá það fyrir víða um land, víðar en á Hornafirði, að mikil óánægja var með þetta. Af hverju voru Hornfirðingar þeir einu sem leyft var að ráða hvar þeir lentu? Af hverju voru Siglfirðingar ekki spurðir hvort þeir vildu vera í Norðvestur- eða Norðausturkjördæminu? Af hverju voru Skagfirðingar ekki spurðir hvort þeir vildu vera í Norðvestur- eða Norðausturkjördæminu? Af hverju voru Húnvetningar ekki spurðir að því sama? Af hverju voru ekki íbúar sveitanna og bæjanna sunnan Snæfellsjökuls spurðir hvort þeir vildu fara suður fyrir fjörð með þeim sem þar eru? Af hverju voru Kjósverjar og Mosfellingar ekki spurðir hvort þeir vildu vera með byggðunum norðan við Hvalfjörð? Af hverju bara Hornfirðingar? Þetta er allt á svo skelfilegum brauðfótum að það er ekki boðlegt í umræðum um jafnþýðingarmikið mál.

En ég ætla ekki að teygja lopann lengur, það hefur ekkert upp á sig. Ég hef látið þessar skoðanir koma fram á öllum stigum málsins. Ég er ósammála þessum niðurstöðum, mér finnst þetta vond niðurstaða og óttast að hún muni veikja landsbyggðina. Vonandi verður það ekki svo því að landsbyggðin þarf á allt öðru að halda.

Ég vil aðeins nefna að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sagði að það væri nú ekki gott að einstaka þingmenn væru að hrökkva fyrir borð á síðustu stundu og afstaða manna við atkvæðagreiðslu um þetta mál mundi sýna það eitt hvort stjórnmálamenn væru trúverðugir eða ekki. Ef það er túlkun manna að menn séu trúverðugir ef þeir greiða atkvæði þvert um hug sinn af því að flokkurinn segir þeim að gera það, þá ætla ég að hafa minn trúverðugleika þannig að halda mig við skoðun mína. Mér finnst þetta vitlaus niðurstaða og get ekki stutt hana. Jafnvel þó að einhver félaga minna á þingi telji mig ótrúverðugan, þá verður bara að hafa það.

Hæstv. fjmrh. sagði eitthvað á þá leið að hann vonaði að um þetta tækist breið samstaða hér á þinginu og að allir hv. alþingismenn geti tekið undir þetta frv. en ég verð að hryggja hann með því að ég fylli ekki þann flokk sem getur tekið undir þetta frv.