Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 22:25:12 (6410)

2000-04-11 22:25:12# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[22:25]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég hafði gert mér grein fyrir að mikil óánægja væri með þær tillögur sem liggja fyrir um nýja kjördæmaskipan á Íslandi. En sannast sagna hafði ég ekki gert mér grein fyrir að óánægjan væri eins mikil og afgerandi á þetta fyrirkomulag, sem verið er að leggja til, og fram hefur komið í umræðum hér í dag. Ég vissi að óánægja og gagnrýni kraumaði undir, ég vissi það, en að hún væri þetta mikil og afdráttarlaus hafði ég ekki gert mér grein fyrir.

Að vísu þarf maður ekki að fara víða í þjóðfélaginu til að finna þá strauma. Ég tek undir með hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni að maður hittir varla nokkurn mann sem er fylgjandi þeim breytingum sem hér liggja fyrir Alþingi. Enda held ég að sú taugaveiklun sem einkennir málflutning margra þeirra sem tala fyrir þessum tillögum segi sína sögu.

Það segir sína sögu hve uppstökkur jafnágætur og dagfarsprúður maður og hv. þm., núv. hæstv. forseti þingsins, verður þegar kosningalögin og stjórnarskrá ber á góma, og sama á við um hæstv. utanrrh. landsins, formann Framsfl., sem hafði allt á hornum sér í umræðunni fyrr í kvöld.

Það er engu líkara en þessir ágætu menn, þessir ágætu hv. þm. vilji reyna að kæfa niður alla umræðu um þessi mál, loka hana inni í fámennum nefndum og færa síðan þinginu sem niðursuðu upp úr dós. Þetta eru þau vinnubrögð sem þeir virðast vilja viðhafa í málinu. Það gerðist í umræðu um stjórnarskrárbreytingarnar og það er að endurtaka sig nú í umræðu um kosningalögin.

Ég tók þátt í umræðu um stjórnarskrárbreytingarnar á sínum tíma, á báðum þingunum sem fjölluðu um þær, og afstaða mín var mjög skýr. Ég var einn af þeim sem höfðu ekki þungar áhyggjur af misvægi atkvæða. Ég er ekki feiminn við að segja það þótt ég sé fulltrúi héðan af þéttbýlissvæðinu Reykjavík. Ég hafði meiri áhyggjur af aðstöðumun sem Íslendingar búa við í dag. Og ég var tilbúinn að búa við kerfi þar sem veikleiki fámennra byggðarlaga er veginn upp með hlutfallslega fleiri þingmönnum, ég var tilbúinn að búa við slíkt kerfi.

Ég sá ákveðna kosti í þeirri kjördæmaskipan sem við búum við í dag, með ákveðnu misvægi atkvæða, að tiltekin sveit þingmanna hugsaði sérstaklega um tiltekin kjördæmi, mér fannst ákveðin rök fyrir því. Og það var aðal þingmanna Reykjavíkur að styðja þetta og virða. Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum að farið er að innræta það með þingmönnum Reykjavíkur að þeir eigi að hugsa þröngt um hag borgarinnar. Þeir sem búa hér í grennd við stjórnsýsluna hafa á margan hátt sterkari stöðu en hinir sem búa fjarri henni, fjarri miðstöðvum stjórnsýslunnar. Þetta er staðreynd. En menn einblíndu á það að nú skyldi jafna atkvæðin og draga úr misvægi atkvæðanna.

[22:30]

Þá lögðu sum okkar til róttækari breytingar en nú stendur til að gera. Ég var því fylgjandi að stíga skrefið til fulls og gera landið allt að einu kjördæmi jafnframt því sem ráðist yrði í breytingar á stjórnsýslunni til að styrkja einstök byggðarlög. Þetta vildum við mörg hver gera, stíga stærri skref og gera róttækari breytingar.

Það er rangt sem fram kom í máli hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar að hér séu stigin einhver framfaraskref, að þetta sé einhver áfangasigur. Svo er ekki. Ég hef trú á því að þetta muni hægja á framförum og njörva okkur niður í fyrirkomulagi sem við komum til með að búa við í nokkuð langan tíma og torveldi okkur að gera þær breytingar sem nauðsynlegar hefðu verið.

Þetta var afstaða mín til stjórnarskrárbreytinganna á sínum tíma. Ég vildi gera meiri breytingar og róttækari, gera landið að einu kjördæmi en ráðasta jafnframt í breytingar á stjórnsýslunni til styrktar einstökum byggðarlögum.

Nú er þetta liðin tíð, þessi umræða er að baki. Það er búið að breyta stjórnarskránni og nú þurfum við að laga okkur að henni. Þá stöndum við frammi fyrir tillögum sem annars vegar meiri hluti nefndar sem vélað hefur um þessi mál hefur sett fram og hins vegar minni hlutinn. Ég hafna því að það fari eins með þessar tillögur og hinar fyrri um stjórnarskrárbreytingarnar, að umræðan verði kæfð hér í þinginu. Ég vara mjög við því.

Reyndar var ég því mjög mótfallinn á sínum tíma er forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna vildu múlbinda þingmenn innan sinna vébanda á þeirri forsendu að þeir hefðu gert eitthvert samkomulag um málin. Ástæðan fyrir því að aðeins er hægt að gera breytingar á stjórnarskrá Íslands þannig að tvö þing staðfesti þær er sú að menn vildu tryggja að þær væru svo viturlegar að tveimur þingum sýndist hið sama um þær, að meiri hluti þingmanna á tveimur þingum væri á því máli að þær væru hyggilegar. Þetta er ástæðan fyrir því að tvö þing eiga að koma til sögunnar til að samþykkja breytingar á stjórnskrá Íslands. Síðan vitna menn stöðugt í einhver hrossakaup sem þeir séu að gera sín í milli og gagnrýna alla þá sem leyfa sér að hafa á þessu skoðun. Hvers konar skilningur er þetta á lýðræðislegum vinnubrögðum?

Ég hef orðið var við það í umræðu manna á meðal, bæði utan þings og innan, að mönnum þykja þær tillögur sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur sett fram um kjördæmaskipan á grundvelli stjórnarskrárbreytinganna sem við búum við og breytum ekki, miklu skynsamlegri og hyggilegri en þær sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt áherslu á. Þetta heyri ég innan þings sem utan.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson höfðaði til mín hér áðan sem þingmanns Reykjavíkur. Af því tilefni vil ég upplýsa hann um að allflestir þeir sem hafa komið að máli við mig um þessar breytingar eru mjög andvígir því að skipta Reykjavík í tvö kjördæmi, mjög andvígir því. Ef á annað borð á að ráðast í slíka skiptingu þá vildu menn fremur gera það á grundvelli þeirrar skiptingar sem fram kemur í minnihlutaáliti hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar en í þeim tillögum sem liggja fyrir af hálfu meiri hluta nefndarinnar. Ég hvet til þess að menn skoði þessi mál fordómalaust og sem frjálsir menn.

Að lokum, herra forseti, vil ég vekja athygli á því að fyrir þinginu liggur till. til þál. sem ég lagði fram fyrir nokkru síðan en hef ekki fengið tækifæri til að mæla fyrir, um endurskoðun kosningalaganna. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fram fari á vegum Alþingis endurskoðun á kosningalöggjöf með það fyrir augum að tryggja

a. að sjúklingar, aldraðir og öryrkjar geti ávallt nýtt kosningarrétt sinn,

b. að jafnan fjalli óháður aðili um kærumál sem upp kunna að koma í tengslum við framkvæmd kosningalaga.``

Hér segir í greinargerð, með leyfi forseta:

,,Brögð eru að því að sjúklingar, aldrað fólk og öryrkjar geti ekki neytt kosningarréttar síns. Víða hefur tíðkast að láta fara fram atkvæðagreiðslu á sjúkrastofnunum og dvalarheimilum aldraðra. Þó er það ekki algilt og hafa í þessu samhengi risið deilumál og dómsmál. Brýnt er að tryggja jafnræði með þegnunum til kosningarréttar og nauðsynlegt að fram fari athugun á framkvæmd kosningalaganna hvað þetta atriði snertir.``

Ég vildi aðeins vekja athygli á, herra forseti, að þessi þáltill. liggur fyrir. Það hefði verið heppilegt að hún hefði flotið með þessu frv. til laga um kosningar. Nú er tekið á þessum málum í 58. gr. frv. þar sem fjallað er um réttindi sjúklinga til að greiða atkvæði á heilbrigðisstofnunum. Ég hefði talið heppilegt að frv. og þessi þáltill. hefðu fengið að fylgjast að. Það getur vel verið að kostur gefist á því á næstu dögum eða fyrir vikulok að mæla fyrir þessari þáltill. Það væri mjög gott og heppilegt.

Ég vil að lokum hvetja þingmenn til þess og ítreka hve mikilvægt er að við skoðum þessi mál opnum huga og látum ekki nefndarmenn eða nál. meiri hluta eða minni hluta villa okkur sýn, njörva okkur niður, svipta okkur dómgreindinni eða samviskunni.