Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 23:09:08 (6413)

2000-04-11 23:09:08# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[23:09]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er sammála í einu og öllu því sem hv. þm. sagði hér um staðsetningu Austur-Skaftafellssýslu í kjördæmi. Ég held að það hafi verið afar fljótræðislegt að rjúka til og leggja til þá breytingu frá upphaflegum hugmyndum eins og þarna var gert, og eins og hv. þm. fór hér yfir, á ekki traustari forsendum þegar upp er staðið en þeim sem þarna voru lagðar til grundvallar, þ.e. vísbendingum úr einni skoðanakönnun. Ef menn hefðu viljað grandskoða vilja íbúanna hefði að mínu mati þurft að gera það á vandaðri hátt en þarna virðist hafa verið gert og það er einnig galli að sveitarstjórn hefur ekki tekið formlega afstöðu í málinu.

Ég held þar af leiðandi að óhjákvæmilegt sé að farið verði betur yfir þetta mál og sérstaklega í ljósi þess að önnur byggðarlög fengu ekki sambærilega meðhöndlun hvað þetta varðar, þar sem vissulega gætu verið álitamál uppi um kjördæmamörk. Spurningin er út á hvaða braut menn gætu lent ef það yrði farið út í þá sálma víðar að kanna hug íbúanna með einhverjum óformlegum hætti og síðan yrði það notað sem röksemdir fyrir jafnafdrifaríkri ákvörðun og út af fyrir sig það er að færa þarna til fjölmenn byggðarlög.

Gallinn er m.a. sá að ef þetta verður niðurstaðan þá verður í raun jafnvægisleysið í íbúafjölda hins væntanlega Norðausturkjördæmis enn tilfinnanlegra en ella. Það hefði í því kjördæmi gefið ákveðið jafnvægi að hafa sterka byggð eins og Hornafjörð í suðurjaðri þess kjördæmis, sem nú verður þá ekki. Menn gætu sagt að hið sama gildi þá á hinn bóginn um Suðurkjördæmið, en ég hygg þó að það sé ekki alveg sambærilegt.

Ég get því ekki annað sagt en að ég tek undir flest það sem hér kom fram í máli hv. þm. hvað þetta varðar og sýnist óhjákvæmilegt að í umfjöllun þingsins um þetta mál verði farið yfir þetta og jafnvel flutt um það brtt. við 2. umr.