Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 23:11:54 (6415)

2000-04-11 23:11:54# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[23:11]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo að ég skilaði séráliti í nefndinni og ég held að það verði að segja þá sögu eins og hún er. Þessi útfærsla málsins kom tiltölulega seint fram í tillöguformi í störfum nefndarinnar og ég þekki ekki alveg ættartölu hennar, þ.e. nákvæmlega hvernig hana bar að inn í nefndina eða hvar frá henni var gengið. Hér eru e.t.v. menn sem kunna þá sögu betur en ég.

Ég hafði skilið það svo að um væri að ræða miklu betur kannaðan og afdráttarlausari vilja íbúa Hornafjarðar eða Austur-Skaftafellssýslu en nú er hér upplýst af hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur. Ég verð bara hreinlega að játa að mér voru bornar þessar fréttir þannig að þarna væri um mjög afgerandi og skýra niðurstöðu að ræða. En mér virtist hér koma fram að þetta sé á ótraustari grunni og þarna sé um að ræða hlutfallslega mun minni hluta kjósenda eða íbúa byggðarlagsins en ég hafði haldið. Ég upplýsi það að mér finnast hér vera nýjar upplýsingar á ferð, a.m.k. fyrir mig, sem gefa tilefni til að endurmeta þetta mál.

Ef um hefði verið að ræða og fyrr hefði legið alveg afdráttarlaus og eindreginn vilji, kannaður á þann hátt að hann væri óyggjandi, þá hefði að sjálfsögðu þurft að svara því hvort menn ættu þá ekki að leita leiða til að virða þann vilja íbúanna þó að það gæti haft í för með sér ókosti í sambandi við það jafnvægi í niðurstöðunni sem menn voru að leita að. En ef það er ekki einu sinni óyggjandi þá finnst mér nú vera uppi sú staða í málinu að menn eigi að endurmeta það.