Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 23:14:03 (6417)

2000-04-11 23:14:03# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[23:14]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við umfjöllun um frv. til laga um kosningar til Alþingis kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir sem nýjum þingmanni, kjörnum við síðustu kosningar til þings, það sem komið hefur fram í ræðu hv. þm. sem styðja þetta mál að búið hafi verið að ganga frá samkomulagi um málið fyrir þingkosningar og að menn ætli að standa við það. Ég hélt í einfeldni minni, og er sannfærður um að það er andi stjórnarskrárinnar og laganna, að menn væru að setja ákveðinn varnagla með því að tvö þing kæmu að málinu. Þess vegna er ég algjörlega andvígur þeirri framsetningu hv. þm. sem telja að einhverjir séu bundnir af samkomulagi sem hafi verið gert fyrir kosningar um þessi mál sem hér er fjallað um. Það er andstætt anda stjórnarskrárinnar og það á ekki að standa þannig að málum.

[23:15]

Ég vil við umræðuna gagnrýna harðlega aðkomuna að málinu. Sú hugsun sem svífur yfir vötnunum er hugsunin um jöfnun á vægi atkvæða og ekkert annað. Ég tel að hugsunin um jöfnun á vægi atkvæða hafi yfirskyggt allt annað í þessari vinnu. En frá mínum bæjardyrum séð er málið alls ekki svona einfalt. Ég tel að þingið hefði átt að fjalla um formúlu, hugsanir varðandi þessa vinnu og það hefði verið miklu eðlilegra út frá öllum sjónarhólum séð að kosin hefði verið nefnd leikmanna, lærðra manna, til að gera tillögur á grunni hugmynda frá þinginu á sínum tíma, ekki þingflokka. Ég held að þingflokkarnir hafi verið uppteknir af allt öðrum hugsunum en þeirri heildarmynd sem nauðsynleg er og hugsuninni um stöðu sína en ekki því hvernig viðkomandi breytingar nýttust landinu. Þannig heyrðist frá forsvarsmönnum stjórnmálaflokka að þetta væri allt í lagi því þeir ætluðu að styrkja stöðu sína á höfuðborgarsvæðinu. Þannig var framsetning margra.

Ég tel að eins og málið hefur verið lagt upp byggi það á algjöru skilningsleysi á sérstöðu Íslands. Ég vil taka sérstaklega fram þrjú atriði. Sérstaða landsins er afgerandi vegna þess hversu stórt landið er, 103 þús. km2. Það er viðurkennt alls staðar í heiminum að landstærð skiptir máli varðandi vægi atkvæða og völd í stjórnsýslu. Það skiptir gríðarlegu máli að hér er fátt fólk í stóru landi. Það þarf að hafa að leiðarljósi líka að það er fátt fólk sem byggir landið en það sem er ekki síst mikilvægt í þessu samhengi er að við erum líklega með miðstýrðasta samfélag þeirra samfélaga sem við berum okkur saman við. Það er staða sem verður að skoða í því ljósi þegar verið er að tala um og setja á oddinn drauminn um jöfnun á vægi atkvæða.

Ég er ansi hræddur um að annað hljóð kæmi í strokkinn hjá þeim sem tala ákafast fyrir nauðsyn þess að jafna vægi atkvæða. Sumir hverjir sem tala þessum tungum eru t.d. mjög ákafir í að fara inn í Evrópusamstarf. Þar er t.d. ekki jafnt vægi atkvæða í pólitískum stofnunum. Mjög lítil og fámenn lönd eins og Lúxemborg hafa mjög mikið vægi og lítil lönd eins og Danmörk hafa tiltölulega mjög mikið vægi. Allur þessi málatilbúnaður er að mínu mati stórhættulegur fyrir innanríkismál Íslands.

Það er ekkert land í Evrópu sem við berum okkur saman við sem hefur þá stöðu sem ríkir hér með langstærstan hluta fólksins á höfuðborgarsvæði og nærliggjandi svæði. Þetta er mjög afgerandi fyrir það hvernig við hugsum málin. Því er það að gera tillögur sem slíta í sundur landfræðilega samskiptamöguleika manna á pólitísku sviði á hæsta plani í hæsta máta óeðlilegt.

Ég tek innilega undir málflutning þeirra hv. þingmanna sem hafa gengið lengst í kvöld eins og 1. þm. Vestf., Einars K. Guðfinnssonar, Guðjóns Guðmundssonar og Kristins H. Gunnarssonar, að staða landsbyggðarinnar sé algjörlega vanhugsuð í þessu sambandi. Það er ekki ásættanlegt til lengri tíma litið að nánast eigi að skera á öll tengsl, tengsl við það fólk og þau samfélög sem búa vítt og breitt um landið.

Ég hef ekki búið lengi í höfuðborginni en ég skynja mjög vel hversu langt menn eru frá Akureyri og hversu lítinn skilning og raunar vit menn hafa á því samfélagi sem ég hef þar lifað og hrærst í, bara sem dæmi. Þetta er stórhættulegt upplegg þess vegna að mínu mati. Út frá því sem ég hef skynjað heima í kjördæminu og út frá því sem ég hef skynjað á hinu háa Alþingi, skil ég ekki ákafa manna í að keyra málið í gegn eins og það er lagt upp núna.

Tillögur um breytingar hafa komið fram miðað við stöðuna eins og hún er í dag og hv. þm. formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, hefur lagt fram minnihlutaálit um málamiðlun sem er að mínu mati miklu skaplegri en það sem lagt er upp með núna. Ég skora á þingheim að taka þessi mál og skoða þau í nýju ljósi vegna þess að það upplegg sem er lagt af stað með er þegar orðið liðónýtt að einum eða tveimur kosningum liðnum eins og margir hv. þm. hafa bent á, sérstaklega stöðu Norðvesturkjördæmisins sem verður kannski strax eftir einar, a.m.k. tvennar kosningar, komið niður í átta þingmenn. Það er mjög vond staða í málinu. Ég ætlast til þess og legg upp með það að þetta verði skoðað í því ljósi.

Ef menn ætla að leggja upp með málið eins og það er sett fram núna vil ég taka undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að út frá mínum bæjardyrum séð væri skárri lausn að hafa það form að landið væri allt eitt kjördæmi. Það væri skárri lausn en sú ófreskja sem er í burðarliðnum, það er ekkert vafamál.

Úti í kjördæmunum er mjög mikil óánægja með það hvernig hlutum er stillt upp. Heimabær minn, Akureyri, lendir í útjaðri kjördæmis. Sem nýr þingmaður hefur mér fundist ærið verk að dekka Norðurland eystra eins og það er þar sem þarf að keyra lengst 380 km til þess að fara á fundi. Allir vita að við Norðausturkjördæmið bætast 600--700 km til þess að komast yfir kjördæmið. Miðað við það að við stöndum kannski frammi fyrir því eftir einar til tvennar kosningar að þar er líka komin fram fækkun þá tel ég að allur sá málatilbúnaður sem hér hefur verið hafður í frammi sé raunar hruninn og einskis nýtur.

Þess vegna legg ég til, virðulegi forseti, að málið verði tekið upp og þær tillögur verði skoðaðar til breytinga og bóta sem hafa verið lagðar fram. Ég nefni sérstaklega þá tillögu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, 3. þm. Norðl. e., lagði fram sem umræðugrundvöll.

Ég vil að síðustu, virðulegi forseti, taka undir með þeim sem hafa gagnrýnt harðlega hvernig staðið er að þessum málum. Ég tel að mergurinn málsins og það sem standi upp úr varðandi þau mistök sem verið er að gera sé það að menn hafa verið að horfa á hlutina út frá þröngum flokkshagsmunum. Ég ætla ekki að gerast forsvarsmaður eða talsmaður t.d. Frjálslynda flokksins, en menn verða bara að horfa á það sem blákalda staðreynd að hér eru nýir flokkar inni á þingi, bæði Vinstri hreyfingin -- grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn sem hafa ekki átt nokkra aðkomu að málinu. Hér er um stóralvarlega brotalöm að ræða og full ástæða til að taka málið upp í nýju ljósi.