Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 23:27:57 (6420)

2000-04-11 23:27:57# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[23:27]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil halda mig við efnið. Við vorum að ræða um hvað var kosið og hvaða ályktanir skuli draga af kosningaúrslitum í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á stjórnarskránni af kjördæmaskipan o.fl. fyrir kosningar og síðan eftir þær. Er hægt að álykta sem svo að í ljósi þess að vinstri grænir sem flokkur barðist einn flokka gegn þeim stjórnskipunarlögum sem samþykkt voru fyrir kosningar að 10% þjóðarinnar séu á móti þessum tillögum en 90% með þeim í ljósi þess að vinstri grænir fengu 10% í kosningunum? Er hægt að álykta sem svo? Það mætti gera það, það er kannski dálítil einföldun, en það mætti gera það.

Á hinn bóginn vil ég kasta því hér fram hvort menn telja að möguleikar flokks með 10% á representasjón hringinn í kringum landið sé betri eða verri í gamla kosningakerfinu en hinu nýja. Ég skal svara því sjálfur, hún er auðvitað miklu betri í hinu nýja. Hin nýja tryggir einmitt að smærri flokkar en þó svona sæmilega settir, 10--12% flokkar, eiga möguleika í öllum kjördæmum á því að fá mann kjörinn. Það skiptir mjög miklu máli, það þekkja þeir auðvitað sem í hafa lent í gegnum tíðina. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Þetta leiðir auðvitað allt að því að menn geta snúið þessari lýðræðislegu spurningu á ýmsa kanta. En ég undirstrika einfaldlega það sem mestu máli skiptir að meginástæða þess að kosningar fara fram milli þess menn afgreiða kjördæmamálið er sú að þjóðin fái tækifæri til þess að kjósa um það mál í kosningum, ekki það að þingmenn séu frjálsari fyrir þær eða eftir.