Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 23:30:07 (6421)

2000-04-11 23:30:07# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[23:30]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að of langsótt sé hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að halda því fram eða halda það að stjórnarskrárbreytingin hafi verið eina málið við síðustu kosningar. Ég man ekki til þess að Samfylkingin frekar en aðrir flokkar hafi sett þetta mál sérstaklega á oddinn. En ég vil árétta að við höfum alltaf allir sem einn, öll öfl í flokknum, talað á móti því að þetta yrði gert á þennan hátt. Það eru komnar fram tillögur frá formanni flokksins, eins og menn hafa hlustað á í kvöld, sem eru brtt. við það sem sett er fram hér. Einnig hafa þær tillögur verið settar fram af formanni þingflokksins að ef samþykkja ætti það sem hér er lagt fram væri skömminni skárra að landið yrði gert að einu kjördæmi. Við tölum því alveg skýru máli.

Formaður flokksins hefur sett fram málamiðlun sem við höfum skoðað mjög gaumgæfilega og þingmenn flokksins hafa talað fyrir henni og óskað eftir því að þær tillögur væru sérstaklega skoðaðar. Í því ljósi viljum við fara í þá vinnu vegna þess að það hefur komið fram hjá mörgum hv. þm. hér nauðsyn þess að skoða málið sem greinilega er mistök.