Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 23:35:52 (6423)

2000-04-11 23:35:52# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[23:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil fá að segja nokkur orð í lokin eftir þá ítarlegu umræðu sem hér hefur átt sér stað í allt kvöld. Ég held að ekki fari fram hjá neinum sem hefur tekið þátt í umræðunni að hér er í rauninni um að ræða lokahnykk á máli sem í grundvallaratriðum var ákveðið á síðasta ári með breytingum á stjórnarskránni. Þegar niðurstaðan fékkst var í rauninni búið að loka stærstu þáttunum í málinu. Og að því komu þeir stjórnmálaflokkar sem þá áttu sæti á Alþingi á síðasta kjörtímabili, annaðhvort eins og þeir gengu til leiks í upphafi kjörtímabils eða litu út við lok þess.

Hins vegar er ekki hægt að gera þá kröfu til manna sem voru andvígir málinu á sínum tíma að þeir skipti um skoðun eða lýsi nú skyndilega yfir stuðningi við málið, það dettur engum í hug. Það er alveg ljóst að ágreiningur var um þetta mál innan flokkanna en samkomulag náðist milli flokka um meginatriði málsins sem hafði meirihlutastuðning í þeim flokkum. Og þannig fór þetta mál hér í gegn þó svo að andstaða væri við það t.d. í mínum flokki og í Framsfl.

Ég vil benda á að auðvitað hefði verið hægt að nálgast þetta öðruvísi, eins og hæstv. utanrrh. sagði í kvöld. Flokkarnir sem höfðu meiri hluta á Alþingi á síðasta kjörtímabili hefðu getað ráðið þessu máli til lykta eins og öðrum. En það var ákveðið að fara ekki þá leið heldur að taka tillit til minni flokkanna og reyna að ná niðurstöðu sem væri sameiginleg með þeim. Það þýddi að gera varð ráð fyrir þeim möguleika í útfærslunni að tiltölulega litlir flokkar ættu kost á því að ná mönnum kjörnum úti á landi.

Ef farin hefði verið sú leið að fækka þingmönnum í öllum kjördæmum, sem vissulega kom til greina, þýddi það líka að minni flokkarnir sem voru á Alþingi á síðasta kjörtímabili hefðu átt miklu minni möguleika á að ná þingmönnum kjörnum í þeim kjördæmum. Og segja má að þetta hafi verið tillitssemi við þá flokka. En það var auðvitað partur í þeirri lýðræðislegu viðleitni að ná breiðri samstöðu um þessi grundvallarlög í landinu, kosningalögin, kjördæmaskipanina og þau stjórnarskrárákvæði sem um það fjalla.

Þetta mál, eins og hér hefur komið fram, hefur margar hliðar. Ein hliðin er náttúrlega sú að landið okkar er óvenjulegt í laginu og það er misjafnlega þéttbýlt eftir svæðum og þess vegna er erfitt að draga skýrar beinar línur og búa til kjördæmi sem líta út eins og kassar. Og svo er landfræðileg, stærðfræðileg og pólitísk hlið á þessu máli og ýmis sjónarmið eins og byggðasjónarmiðin sem hér hafa komið mjög til umræðu. Þess vegna er engin ein lausn til sem er afgerandi best. Allar lausnir, og þær eru margar mögulegar, hafa sína kosti og sína galla. Farið var rækilega yfir þetta í nefndinni sem Friðrik Sophusson stýrði á árunum 1997--1999 og litið á alla mögulega kosti, allt frá því að vera með einmenningskjördæmi, eins og margir í mínum flokki hefðu helst kosið, yfir í það að vera með landið sem eitt kjördæmi sem margir í þáverandi Alþfl. hefðu helst kosið. Sú lausn hefði að mínum dómi hins vegar kallað yfir okkur allsherjarflokksræði í flokkunum, sennilega flestum ef ekki öllum og höggvið á þann naflastreng sem menn hafa hér verið að tala um að verði að vera milli þingmannanna og kjósendanna í kjördæmunum. Þeirri leið var því hafnað af okkur sjálfstæðismönnum.

Eftir stóðu þá mismunandi útgáfur af kjördæmum þar sem útfærslan væri þarna mitt á milli, mörg kjördæmi eða eftir atvikum fá en tiltölulega jafnstór, sem sagt eitthvert afbrigði af því fyrirkomulagi sem skiptir landinu í sex eða átta kjördæmi eða eitthvað slíkt. Farið var rækilega í gegnum þetta allt saman, það þekkja menn frá fyrri umræðu, og þessi niðurstaða fannst. Hún hefur ýmsa galla, það hefur ekkert verið farið neitt í launkofa með það. En hún hefur fleiri kosti en aðrar leiðir sem komu til greina að dómi okkar sem bárum ábyrgð á þessari niðurstöðu og þess vegna varð hún fyrir valinu. Sú leið að fækka um einn mann í hverju kjördæmi hefði auðvitað þjónað hagsmunum Sjálfstfl. betur ef farið hefði verið í þetta mál út frá þeim sjónarhóli og þá hefðum við sjálfstæðismenn ekki staðið hér með svona mismunandi afstöðu til málsins eins og hér hefur komið fram í umræðunum, það er ekki minnsti vafi. Á móti hefði komið upp ágreiningur á milli flokkanna í miklu ríkari mæli en raun ber vitni. Það er því margs að gæta í þessu. En nú er aðalatriðið að klára málið vegna þess að það gengur auðvitað ekki að ekki sé samræmi á milli stjórnarskrár og kosningalaga. Það þarf auðvitað að tryggja að þar sé samræmi.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara mikið út í einstök atriði í þessum umræðum. Það ber að sjálfsögðu að virða sjónarmið manna í þessu efni. Málið fer til meðferðar í allshn. vegna þess að kosningalög heyra að öllum jafnaði undir allshn. vegna þess að þau eru á forræði dómsmrh. þótt hæstv. forsrh. leggi fram þetta frv.

Ég vil aðeins segja út af Hornafirði og því sem hér hefur komið fram varðandi það mál, þá var Hornafjörður með Suðurkjördæminu í upphaflegu tillögunni. Það voru líka aðrar breytingar mögulegar, Norðurlandskjördæmi vestra var skipt þannig að Skagafjarðarsýsla var austan megin. Þetta var til í ýmsum útgáfum. Í sjálfu sér raskar það ekki markmiðum frv. um jöfnuð á milli flokka eða meira jafnvægi milli kjósenda að hafa Hornafjörð sunnan megin, það breytir í rauninni engu út frá því sjónarmiði. Það sem gerðist var að bæjarstjórnin á Hornafirði beitti sér fyrir skoðanakönnun. Ég hef ekki skoðun á því hvort það var vísindaleg skoðanakönnun eða ekki, manni sýnist fljótt á litið að hún sé alveg fullboðleg sem slík, en hún sendi síðan þessa skoðanakönnun til nefndarinnar. Og það má vissulega draga þá ályktun að í því felist ákveðin skilaboð frá bæjarstjórninni um að farið verði eftir þeim vísbendingum sem komu fram í könnuninni.

Það má líka spyrja, eins og gert var í umræðunni: Af hverju voru þá ekki fleiri sem gerðu það? Ja, af hverju gerðu ekki fleiri það? Það voru ekki fleiri sem sendu slík erindi til nefndarinnar. Bæjarstjórnin á Siglufirði mun á sínum tíma hafa ályktað um að eðlilegt væri að norðurlandskjördæmin tvö væru saman en að öðrum kosti væri Siglufjörður austan megin og það er sem sagt niðurstaðan. Ég hef ekki heyrt neinn ágreining um það atriði í sjálfu sér. Ég býst við að ef aðrir hefðu sent slík erindi eða óskir hefði verið reynt að skoða það sérstaklega í hverju tilfelli fyrir sig. En úr því að þetta barst með þessu móti frá bæjarstjórninni á Hornafirði og úr því að það hafði ekki áhrif á heildarmarkmiðin og hin stóru markmið í málinu, töldu menn eðlilegt að verða við þeirri ósk. Líka vegna þess að það eru ýmis önnur rök sem upphaflega voru tínd til sem mæla með þessu eins og það óhagræði að vera með eitt kjördæmi sem næði frá Siglufirði í norðri allt suður í Skaftafell í suðri og samgöngulegir þættir og annað þess háttar sem þarna skipta máli.

Herra forseti. Aðalatriðið nú er að ljúka þessu máli í þokkalegri sátt, og þó að mótatkvæði verði við ákvæðum í frv. eða við frv. öllu verður ekki hjá því komist að klára málið núna á þeim forsendum sem allir þekkja og hér hafa verið svo rækilega kynntar.