Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 23:49:48 (6426)

2000-04-11 23:49:48# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[23:49]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er ágæt tilfinning að tilheyra samheldnum þingflokki. Ég tók eftir því í umfjöllun hér á þinginu að einn hv. þm. sagði eitthvað á þá leið að hann hefði varla hitt nokkurn mann sem væri ánægður með þessar breytingar. Sá var hv. þm. Guðjón Guðmundsson. Hann mun vera í Sjálfstfl. Ég hef trú á því að hann umgangist talsvert sjálfstæðismenn og umgangist talsvert þingmenn. Hann hefur varla hitt nokkurn mann sem er ánægður með þessar breytingar. Þetta held ég að sé staðreynd málsins. Menn eru mjög óánægðir með þessar tillögur um breytingar sem fyrir liggja. Ég held að þau sjónarmið sem hafa verið viðruð hér við umræðuna í kvöld séu dæmigerð fyrir afstöðu manna í þinginu og einnig utan þings.

En að lokum, herra forseti. Það er alveg rétt að samkvæmt þingsköpum mun þetta frv. eiga að ganga til allshn. En ég hefði haldið að þinginu væri í sjálfsvald sett að skipa sérstaka nefnd til að fara yfir málið. Tillaga mín er að svo verði gert.