Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 23:51:33 (6427)

2000-04-11 23:51:33# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[23:51]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað geta þeir sem menn hitta á förnum vegi, sem hafa ekki sett sig inn í málið og þekkja það ekki, verið í vafa um þessar breytingar. Þannig er nú með allar breytingar sem gerðar eru. Þess er kannski ekki að vænta að almenningur hafi sett sig inn í smáatriði þessa máls. Ég held hins vegar að þetta muni ekki raska, t.d. í Reykjavík, neinum grundvallaratriðum. Ég er alveg sannfærður um að 22 þingmenn Reykjavíkur muni starfa saman sem einn hópur fyrir þessi tvö Reykjavíkurkjördæmi eins og menn gera í dag, 19 manna hópur. Sama verður úti á landi. Ég held reyndar að það verði öflugri sveitir, tíu manna samhentir hópar, en þeir fimm eða sex manna hópar sem starfa í dag í þingmannahópum í kjördæmunum úti á landi.

Ég er ekki frá því að það geti verið vaskari sveit og einbeittari þegar þarf að beita sér að einhverju ákveðnu máli, að hafa tíu manna sveit í stað fimm manna. Menn mega ekki gera allt of mikið úr þessum breytingum að því leyti. Reykvíkingar munu ekki finna miklar breytingar í þessu. Ég geri ráð fyrir að flokkarnir muni reka kosningabaráttuna eins og um eitt kjördæmi væri að ræða, jafnvel í öllum þremur kjördæmunum, Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og Suðvesturkjördæminu. Í kosningabaráttu á þessu svæði er erfitt að sjá hvar fólk býr eða hvar það kýs þegar farið er á vinnustaði eða haldnir fundir o.s.frv. Ég held að þegar upp verður staðið þá muni sú óánægja sem hv. þm. vitna til leysast upp, þegar menn sjá þetta í framkvæmd. Hitt er svo annað mál að ekkert er óumbreytanlegt undir sólinni og eflaust kemur einhvern tímann að því að endurskoða þurfi þessa kjördæmaskipan í framtíðinni.