2000-04-12 00:31:41# 125. lþ. 97.26 fundur 569. mál: #A tilkynningarskylda íslenskra skipa# (undanþágur) frv. 73/2000, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[24:31]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tilkynningarskyldu íslenskra skipa, nr. 40/1977, með síðari breytingum.

Með frv. þessu er lagt til að breytt verði ákvæðum laga um tilkynningarskyldu skipa, nr. 40/1977, en tilgangur þess er að gera nauðsynlegar breytingar á lögunum vegna sjálfvirks tilkynningarkerfis skipa sem áformað er að taka í fulla notkun á næstunni. Það verður raunar tekið formlega í notkun síðar í þessum mánuði.

Aðdragandi þess að koma á fót sjálfvirku tilkynningarkerfi fyrir íslensk skip er langur en handvirk tilkynningarskylda íslenskra skipa hefur verið við lýði í rúm 20 ár. Samkvæmt gildandi lögum skulu öll skip önnur en varðskip tilkynna brottför úr höfn, komu í höfn og staðsetningu a.m.k. einu sinni á sólarhring en Slysavarnafélagið Landsbjörg fer með yfirumsjón tilkynningarskyldunnar og eftirlitsmiðstöðvarinnar í Reykjavík.

Með frv. sem varð að lögum nr. 39/1999, um breytingu á lögum um tilkynningarskyldu íslenskra skipa, nr. 40/1977, með síðari breytingum, voru gerðar breytingar á lögunum vegna sjálfvirks tilkynningarkerfis. Með þeim lögum er kveðið á um hvenær og hve oft skip skuli tilkynna sig í sjálfvirka tilkynningarkerfinu til eftirlitsmiðstöðvar en það ræðst af stærð skipsins og farsviði. Jafnframt var kveðið á um að skipum eða bátum sem stunda takmarkaða sjósókn eða hafa aðeins sumarhaffæri væri heimilt að tilkynna sig eftir öðrum leiðum eftir því sem nánar væri kveðið á um í reglugerð. Áætlað hefur verið að um 150 bátar falli undir þetta ákvæði laganna.

Með frv. þessu er gerð krafa um að hluti þessara 150 báta tilkynni sig í sjálfvirka tilkynningarkerfinu og skuli búinn búnaði til sjálfvirkrar tilkynningarskyldu. Verði tíðni tilkynninga fyrir báta með takmarkaða sjósókn eða sumarhaffæri önnur og minni mundi það minnka öryggið sem sjálfvirk tilkynningarskylda á að veita bátum af minnstu gerð. Þó er enn gert ráð fyrir að samgrh. sé heimilt að ákveða að skip sem hafa veiðileyfi í atvinnuskyni og stunda veiðar nálægt landi þurfi ekki að tilkynna sig gegnum sjálfvirkt tilkynningarkerfi skipa. Í því efni er fyrst og fremst átt við báta þar sem aðstæður um borð eru þannig að ekki er unnt að hafa nauðsynlegan búnað til sjálfvirkrar tilkynningarskyldu. Áætlað er að bátar sem undir þetta falla og stunda veiðar innan 1,5 sjómílna frá landi séu um 20--30 og munu þeir væntanlega hverfa úr rekstri innan nokkurra ára.

Ég vil að lokum lýsa þeirri von minni að þetta frv. fái farsæla afgreiðslu hér á Alþingi. Hér er um að ræða mikið öryggismál fyrir áhafnir á íslenskum skipum og bátum. Sjálfvirkt tilkynningarkerfi íslenskra skipa hefur nú þegar sannað gildi sitt og með því er hægt að staðsetja skip sem er í hættu statt mun fyrr en áður og hefja strax markvissar björgunaraðgerðir.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að hafa fleiri orð um efni frv. og vísa til grg. sem fylgir. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og samgn.