Notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 14:10:01 (6474)

2000-04-12 14:10:01# 125. lþ. 98.8 fundur 233. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands# þál., KolH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 125. lþ.

[14:10]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja þessa atkvæðaskýringu á því að gera athugasemd við afgreiðslu þessa máls því að eins og kunnugt er var þetta mál á dagskrá um miðjan dag í gær. Umræðan var ekki kláruð og þegar það var tekið út af dagskrá voru a.m.k. fjórir á mælendaskrá. Síðan var málinu kippt á dagskrá, ég vil meina án fyrirvara í nótt eða þegar klukkan var um það bil 3 og ég var ein af þeim sem var á mælendaskrá. Málinu var kippt á dagskrá og það afgreitt um miðja nótt að þeim fjarverandi sem þó voru á mælendaskránni fyrr um daginn.

Ég vil sömuleiðis gera athugasemd við það að þingmannamál af þessu tagi skuli afgreitt úr nefnd með miklum hraða og mikilli harðfylgni hv. varaformanns umhvn. og eftir stendur að Alþingi er að greiða atkvæði um það hvernig Veðurstofu Íslands sé uppálagt að segja veðurfréttir í fjölmiðlum. Ég tel þessa tillögu stangast á við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar þess efnis að auka beri faglegt sjálfstæði stofnana og ég tel hana stangast á við yfirlýsingar hv. flm. í annan tíma um að vinna gegn forræðishyggju. Ég segi, tungunni er borgið þó að þessi tillaga sé felld og segi nei.