Húshitunarkostnaður

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 14:42:03 (6489)

2000-04-12 14:42:03# 125. lþ. 99.2 fundur 513. mál: #A húshitunarkostnaður# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[14:42]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hafa lagt fram þessa fsp. og ráðherra fyrir svörin. Þannig vill til að nefnd sú sem ráðherra hefur skipað á að taka til starfa á morgun. Ég hef verið skipuð í nefndina og það er von mín að nefndin geti starfað fljótt og vel að því að koma með þær tillögur sem þurfa að liggja fyrir til að það fjármagn sem lagt var í niðurgreiðslurnar nýtist. En í III. kafla þál. um stefnu í byggðamálum var þetta lagt til að það yrði aukið við niðurgreiðslur til húshitunar með það að markmiði að hvergi á landinu yrði dýrari húshitunarkostnaður en nú þekkist hjá meðaldýrum hitaveitum.

Í umræðum í fjárln. var jafnframt talað um að leggja niður þetta þak sem við þekkjum núna að er í 30 þús. kwst. Það hlýtur að vera spurning hvort við þurfum endilega að reikna með því að það fólk sem býr úti á landi nýti meiri orku ef verðið lækkar en það sem býr á ódýrari hitaveitusvæðum.