Starfsgrundvöllur lítilla iðnfyrirtækja á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 14:58:03 (6495)

2000-04-12 14:58:03# 125. lþ. 99.3 fundur 517. mál: #A starfsgrundvöllur lítilla iðnfyrirtækja á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[14:58]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þm. fyrirspyrjanda, Sigríði Jóhannesdóttur, fyrir að flytja þetta mál hingað inn og sérstaklega fyrir gera það eins skýrt og hér hefur komið fram varðandi þessa tilteknu saumastofu á Húsavík.

Þingflokkur Samfylkingarinnar var í heimsókn á Húsavík ekki alls fyrir löngu og fór þar m.a. í heimsókn á þennan ágæta vinnustað. Og það verður að segja alveg eins og er að manni krossbrá þegar forsvarsmenn fyrirtækisins lýstu því hvernig staðið var að svokölluðu ,,útboði`` hjá þessari opinberu stofnun í Reykjavík og hvernig að málum var staðið. Þau voru beðin um að faxa upp eftir tíu mínútur eða svo tilboð í 3.000 sett af starfsmannafötum. Það er út af fyrir sig efni til mikillar umræðu hvernig að þessu var staðið og örugglega voru öll lög og hefðbundnar aðferðir brotnar hvað þetta varðar.

Hitt atriðið er svo það að ríkisvaldið skuli veita styrki til þess að þróa svona, sem er mjög gott, en nokkrum missirum síðar beitir opinber stofnun sér fyrir því að verkið er tekið í burtu og fært til útlanda þar sem það er niðurgreitt eða unnið á láglaunasvæði. Hæstv. forseti. Þetta er byggðastefna þar sem hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri er að gjöra.