Starfsgrundvöllur lítilla iðnfyrirtækja á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 15:02:07 (6498)

2000-04-12 15:02:07# 125. lþ. 99.3 fundur 517. mál: #A starfsgrundvöllur lítilla iðnfyrirtækja á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[15:02]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þessi fyrirspurn kallar á viðbrögð, enda er hér hreyft grundvallarspurningu. Ég er sannfærð um að það á eftir að verða árangursríkt að flytja rannsóknir til Háskólans á Akureyri og samstarf vísindamanna þar mun skila nýjum störfum inn í það samfélag. En er gagn að því ef þau eru síðan kölluð hingað suður með annaðhvort útboði sem skekkir stöðu fyrirtækjanna eða með öðrum hætti?

Sífellt er verið að senda tvöföld skilaboð, skilaboð stjórnvalda til landsbyggðar að styðja smáfyrirtæki, fórna þeim síðan á altari kaldrar markaðshyggju, tvöföld skilaboð til kvennafyrirtækis, eins og hér hefur verið lýst, að veita styrk til að fara í nýtt verkefni og hrifsa það svo til baka vegna þess að í útlöndum er hægt að spara 2 milljónir. Þetta er umhugsunarefni fyrir okkur og ég held að fjalla þurfi um þessi mál mjög ítarlega vegna þess að svara verður þeirri grundvallarspurningu sem hér er velt upp.