Flokkun eiturefna

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 15:13:56 (6503)

2000-04-12 15:13:56# 125. lþ. 99.6 fundur 496. mál: #A flokkun eiturefna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en vil benda á að í Bandaríkjunum hefur staðið um það deila um nokkurn tíma hvort ríkisstjórn Bandaríkjanna hafi haft heimild til að láta matvæla- og lyfjaeftirlitsstofnunina hlutast til um sölu tóbaks sem fíkniefnis en fyrir rúmum hálfum mánuði féll dómur í málinu tóbaksframleiðendum í hag. Í reglugerð matvæla- og lyfjaeftirlitsins var nikótín flokkað sem fíkniefni og miklar hömlur settar við sölu tóbaks. Baráttan við hagsmunaaðila tóbaksiðnaðarins heldur áfram á bandaríska þinginu og svo mun verða áfram um allan heim, því hvaða rök mæla með því að leyfa sölu á banvænni vöru en til að draga úr fjölda dauðsfalla og sjúkdóma af völdum vörunnar sé umtalsverðu fjármagni eytt í forvarnir og heilbrigðisþjónustu við tóbaksneytendur? Talið er að nú deyi árlega um 3 millj. manna ótímabærum dauða af völdum tóbaks og spáð er að þessi tala verði 10 millj. árið 2020. Er ekki tímabært að taka af skarið og flokka tóbak undir réttum skilgreiningum sem fíkniefni og eiturefni?

Lög um eiturefni gætu að mínu mati alveg tekið yfir tóbak sem söluvöru, þ.e. ef tóbakið væri flokkað sem eiturefni samkvæmt reglugerðinni. Þegar verið er að miða við magn eiturs átta ég mig ekki alveg á því við hvað þessi prósenta, 0,1%, miðar. Er þar miðað við eina sígarettu, einn pakka eða hvar eru mörkin? Þetta er mér ekki alveg ljóst, herra forseti, hvar mörkin eru en ég dreg ekki í efa að flokkunin sé rétt samkvæmt ákveðinni skilgreiningu.

Varðandi merkingar á tóbaksvörum og tilskipanir EES, þá eru það lágmarkstilskipanir. Það eru þjóðir sem hafa gengið lengra, tekið upp merkingar samsvarandi eða líkar því sem við vorum með á pökkunum áður fyrr þegar það sást að aðvaranir voru á pökkunum, nú sést þetta ekki lengur og ég hvet hæstv. ráðherra vegna áhuga hennar á heilbrigðu líferni og þar með í tóbaksvörnum að taka upp gömlu merkingarnar aftur.