Gæsluvarðhaldsvistun barna

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 15:20:54 (6505)

2000-04-12 15:20:54# 125. lþ. 99.9 fundur 435. mál: #A gæsluvarðhaldsvistun barna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[15:20]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Í skýrslu sinni og tilmælum um breytingar vekur umboðsmaður barna athygli á stöðu ungra refsivistarfanga sem vistaðir eru með eldri afbrotamönnum í fangelsum landsins. Sérstaklega er þó bent á stöðu ungra gæsluvarðhaldsfanga þar sem hér á landi eru ekki sérstök gæsluvarðhaldsfangelsi heldur afplánunarfangelsi notuð jöfnum höndum fyrir afplánunarfanga og fanga í gæsluvarðhaldsvist. Þetta ætti þó að heyra til undantekninga en ekki vera meginreglan eins og hér er. Um þetta segir í skýrslu umboðsmanns barna, með leyfi forseta:

,,Þeirri hættu sem því fylgir að vista unga gæsluvarðhaldsfanga með eldri föngum er lýst hér að framan. Líklegt er að kynni af hörðnuðum afbrotamönnum við þessar aðstæður festi ungmenni fremur en ella í neti afbrota og fíkniefnaneyslu. Að auki getur þeim yngri beinlínis stafað hætta af þeim eldri, svo sem að þeim sé misþyrmt eða ógnað með öðrum hætti. Alþekkt er að ýmiss konar sálrænir kvillar svo sem þunglyndi aukist, en það getur jafnvel leitt til sjálfsvíga eða tilrauna til þeirra eins og nýleg dæmi sanna.

Með vísun til þessa fer ég fram á að tilhögun á vistun gæsluvarðhaldsfanga verði breytt hið allra fyrsta til þess að fullnægt verði þeirri alþjóðlegu skuldbindingu sem íslensk stjórnvöld hafa tekist á hendur, að menn sem bornir eru sökum og ekki hafa verið dæmdir fyrir brot séu ekki vistaðir með þeim sem afplána refsivist. Sérstaklega tel ég ámælisvert að ungir gæsluvarðhaldsfangar sem ekki sæta einangrun séu vistaðir á almennum deildum afplánunarfangelsa innan um fanga sem sumir hverjir eiga að baki langan brotaferil. Geri ég þá sjálfsögðu kröfu að á þessu verði ráðin bót þegar í stað.``

Í skýrslu dóms- og kirkjumrn., eða nefnd sem vann á vegum hæstv. dómsmrh., og skilað var í maí 1999 segir um sama efni, með leyfi forseta:

,,Þá vekur nefndin athygli á því að börn, sem gert er að sæta gæsluvarðhaldi, eru vistuð í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg eða á Litla-Hrauni. Ekki síður en þegar ungir fangar eiga í hlut telur nefndin mikilvægt að börn sem ekki hafa verið fundin sek og telja ber saklaus uns sekt þeirra er sönnuð fyrir dómi, verði ekki vistuð í fangelsum. Það á sérstaklega við þegar barn í gæsluvarðhaldi sætir ekki einangrun og getur því umgengist aðra. Við þær aðstæður er mjög óæskilegt að barn hafi samneyti við dæmda afbrotamenn. Til að koma í veg fyrir þetta telur nefndin koma til álita að Barnaverndarstofu, í samráði við Fangelsismálastofnun, verði falið að vista börn í gæsluvarðaldi og mælist nefndin til þess að þetta verði athugað nánar.``

Ég beini því eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. dómsmrh.:

Hefur verið gerður samningur milli Fangelsismálastofnunar og Barnaverndarstofu um vistun barna 18 ára og yngri sem úrskurðuð hafa verið í gæsluvarðhald eins og bent er á í skýrslu nefndar sem dómsmálaráðherra skipaði um málefni ungra afbrotamanna?