Gæsluvarðhaldsvistun barna

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 15:24:18 (6506)

2000-04-12 15:24:18# 125. lþ. 99.9 fundur 435. mál: #A gæsluvarðhaldsvistun barna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[15:24]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Eldra samkomulag milli Barnaverndarstofu og Fangelsismálastofnunar var endurnýjað sl. haust og þar hefur verið bætt við þeim möguleika að vista ungmenni sem úrskurðuð hafa verið í gæsluvarðhald á meðferðarheimilum á vegum Barnaverndarstofu, að höfðu samráði við rannsóknaraðila máls. Sama málsmeðferð skal viðhöfð eins og þegar um dómþola er að ræða, þ.e. Fangelsismálastofnun tilkynnir Barnaverndarstofu um úrskurðinn. Barnaverndarstofa kannar hvort hún telji mögulegt að sakborningur sitji í gæsluvarðhaldi í meðferðarheimili, enda liggi að jafnaði einnig fyrir vilji sakbornings til þess.

Ég hyggst beita mér fyrir byggingu nýs fangelsis á höfuðborgarsvæðinu, en stefnt hefur verið að því um allnokkurt skeið. Ekki er almennt ráðgert að ungmenni yrðu vistuð þar í gæsluvarðhaldi. Þó þarf að hafa í huga greiningu á mismunandi þörfum fanga og til þess gæti komið að þar yrðu vistuð ungmenni. Búa þarf húsnæðið og aðstöðuna þannig úr garði að unnt sé að taka eðlilegt tillit til sérstöðu ungmenna þannig að vistunin valdi sem minnstri röskun og skaða á högum ungmenna.

Ég tel að leggja beri meðferðarstefnu til grundvallar til fullnustu refsinga þar sem ungir afbrotamenn eiga í hlut. Mikilvægt er að missa ekki sjónar á því hver eru markmiðin með refsingu ungs afbrotamanns og að meðferð sé líklegri til að endurhæfa hann heldur en ef beitt væri fullri refsiábyrgð.

Þá ákváðu norrænir dómsmálaráðherrar á árlegum sumarfundi sínum sem haldinn var hér á landi í júní sl. að setja á fót vinnuhóp embættismanna til þess að fjalla um málefni ungra afbrotamanna. Hópnum er meðal annars ætlað að miðla upplýsingum milli landanna um úrræði og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn brotum barna og ungmenna. Þá mun hópurinn fjalla um sérstöðu barna með tilliti til refsinga og huga að því hvort önnur viðurlög geti átt betur við og komið í stað refsinga.

Þá var einnig gert ráð fyrir því að hópurinn kanni hvernig styrkja megi forvarnir gegn afbrotum barna, en í þeim efnum er einnig mikilvægt að huga að vanda tengdum fíkniefnaneyslu.

Brotamenn á aldrinum 15--18 ára eru sakhæfir en engu að síður ósjálfráða. Þeir eru í senn skjólstæðingar refsivörsluyfirvalda, dómstóla, barnaverndaryfirvalda og foreldra sinna. Ef rétt er á málum haldið er það von mín og trú að með samstilltri og góðri samvinnu milli þessara aðila megi ná þeim uppbyggingar- og meðferðarmarkmiðum sem að er stefnt og að jafnframt verði staðinn vörður um réttindi þeirra barna og ungmenna sem eiga í hlut.

Að lokum vil ég ítreka að margt hefur áunnist í málum ungra afbrotamanna á síðustu missirum og stöðugt er hugað að enn frekari umbótum á þessu sviði.