Gæsluvarðhaldsvistun barna

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 15:27:41 (6507)

2000-04-12 15:27:41# 125. lþ. 99.9 fundur 435. mál: #A gæsluvarðhaldsvistun barna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[15:27]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Þegar umboðsmaður barna fór hér um, skoðaði fangelsi og aðstæður ungra afbrotamanna í fangelsum landsins og skilaði síðan sinni skýrslu eða yfirliti í júlí 1998 til dómsmrh. sem þá í framhaldinu skipaði nefnd sem skilaði skýrslu 1999, kom í ljós að víða var pottur brotinn hvað varðar úrræði og meðferðarmöguleika sem ungir fangar hafa hér á landi, sérstaklega þegar um er að ræða unga fíkniefnaneytendur sem hafa brotið af sér. Ýmist er um að ræða unga síbrotamenn eða þá sem hafa framið alvarlegri glæpi og þá oftar en ekki undir áhrifum eða í vímu vegna of mikillar neyslu harðra efna og þegar neysla hefur staðið yfir í langan tíma.

Gerðar eru mjög margar athugasemdir í báðum þessum skýrslum. Ég hef nú, virðulegi forseti, komið með fyrirspurnir byggðar á báðum þessum skýrslum. Oftar en ekki finnum við að störfum ráðherra og vekjum athygli á því úr ræðustól ef þar er pottur brotinn. En mig langar til þess að þakka sérstaklega fyrir þau svör sem ég hef fengið við öllum þeim fyrirspurnum sem ég hef beint til hæstv. dómsmrh. og ég vænti mjög mikils af hennar störfum miðað við þau fyrirheit sem hér hafa komið fram í þeim svörum sem hún hefur gefið við þessum fyrirspurnum. Það er mikil nauðsyn á að byggja nýtt fangelsi, gæsluvarðhaldsfangelsi þar sem sérstaklega er tekið tillit til ungra fanga. Það er mikil nauðsyn á því að ungir fangar sem eru í harðri neyslu hafi möguleika á að fara í afvötnun eða í meðferð strax í upphafi refsivistar en ekki í lok hennar eins og hefur verið tíðkað hingað til.

Ég hef hlýtt á svör ráðherra af athygli og einnig málflutning hennar annars staðar að undanförnu hvað varðar málefni ungra fanga og ungra fíkniefnaneytenda sem hafa gerst brotlegir við lög og ég vænti mikils af hennar störfum.