Eldsneytisafgreiðsla á Egilsstaðaflugvelli

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 15:33:25 (6509)

2000-04-12 15:33:25# 125. lþ. 99.11 fundur 456. mál: #A eldsneytisafgreiðsla á Egilsstaðaflugvelli# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[15:33]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hér er borin upp fyrirspurn sem hv. fyrirspyrjandi hefur gert grein fyrir en áður en fyrirspurninni er svarað beint er rétt að gera í nokkru máli grein fyrir aðstæðum á Egilsstaðaflugveli varðandi eldsneytisafgreiðslu þó að hv. fyrirspyrjandi hafi farið að nokkru yfir það.

Olíufélagið Skeljungur hf. hefur um langt árabil annast eldsneytissölu á Egilsstaðaflugvelli og á þar alla aðstöðu til að geyma og afgreiða flugvélaeldsneyti. Fyrirtækið hafði gert áætlun um að koma upp nýrri aðstöðu á flugvellinum þegar ný flugbraut var byggð í upphafi 10. áratugarins. Hins vegar hætti félagið við þessi áform vegna dvínandi sölu á flugvélaeldsneyti sem ekki var talin réttlæta fjárfestingu í nýrri aðstöðu.

Á síðasta ári voru gerðar nokkrar endurbætur á eldsneytisaðstöðunni á flugvellinum til að koma til móts við athugasemdir yfirvalda vegna mengunarhættu. Eins og málum er nú háttað er rými fyrir 56 þúsund lítra af þotueldsneyti í geymum Skeljungs hf. á Egilsstaðaflugvelli. Eldsneytið er nú flutt landleiðina frá Akureyri til Egilsstaða. Að meðaltali hafa tæplega 100 þúsund lítrar af þessu eldsneyti verið seldir af flugvellinum á ári miðað við sl. fimm ár.

Mest hefur salan orðið um 164 þúsund lítrar á ári á þessu tímabili. Algeng þörf þotu fyrir eldsneyti á Egilsstaðaflugvelli er talin vera á bilinu 10--20 þúsund lítrar. Lítil afköst dælukerfis hefur verið eitt helsta vandamálið við að afgreiða þotur á Egilsstaðaflugvelli. Það getur tekið um 40 mínútur að dæla því eldsneytismagni sem algengt er að þota þurfi til áframhaldandi flugs.

Samkvæmt upplýsingum frá Skeljungi hf. liggur fyrir að þessi afköst verða tvöfölduð í þessum mánuði en búnaður til þessara endurbóta mun vera kominn til landsins. Hér er um að ræða verulegar endurbætur á þjónustunni.

Hvað varðar þá spurningu hvort ráðuneytið muni beita sér fyrir frekari eða öðrum úrbótum á flugvellinum, þá er því til að svara að ekki er gert ráð fyrir því í flugmálaáætlun. Ef um væri að ræða framkvæmdir sem þyrfti að leggja í er um að ræða kostnað upp á tugi millj. kr. og er því ljóst að ekki eru fjármunir í áætlunum til þessara eða þvílíkra framkvæmda og því ekki fyrirliggjandi að af því geti orðið á næstunni, í það minnsta ekki á þessu ári og ekki nema breytingar verði gerðar á flugmálaáætlun í þá átt að uppfylla þær óskir sem þarna er um að ræða.

Hins vegar er á það að líta, vegna þess að í þessu sambandi er rætt um að hefja millilandaflug frá Egilsstaðaflugvelli, að auðvitað er mikilvægt að líta á fleiri hliðar þess máls en eingöngu eldsneytisafgreiðslu og ég geri ekki ráð fyrir að það mundi koma í veg fyrir áform ef af þeim yrði og þyrfti að sjálfsögðu að bregðast við því ef áætlanir liggja fyrir um slíka starfsemi.