Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 11:26:26 (6518)

2000-04-13 11:26:26# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[11:26]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Flestar þær þjóðir sem hafa tekið sterkast til orða í sambandi við þetta mál hafa miklu meiri samskipti við Austurríki en Íslendingar. Austurríki er í Evrópusambandinu og ég þekki ekki til þess að Austurríki hafi á nokkurn hátt verið útilokað frá fundum þar innan dyra og smátt og smátt sé þetta andrúmsloft að breytast.

Það er svo allt annað mál hvað mönnum finnst um Haider og flokk hans. Það er nú svo að það eru starfandi ýmsir flokkar í Evrópu sem ekki eru mjög þóknanlegir flestum lýðræðisflokkum í Evrópu. Ég hef verið þeirrar skoðunar að menn hafi verið með heldur sterkar yfirlýsingar í þessu máli miðað við það sem þeir hafa síðan gert. Ekki er nóg að hrópa hátt á alþjóðavettvangi og síðan hafi menn enga möguleika til þess að koma því í framkvæmd sem þeir eru að segja.

Ríkisstjórn Austurríkis er staðreynd. Hún er mynduð lýðræðislega. Mér er ekki kunnugt um að nein mannréttindabrot hafi átt sér stað í Austurríki síðan þessi ríkisstjórn var mynduð. Mér er ekki kunnugt um að Austurríki ætli sér á nokkurn hátt að beita sér í þeim anda sem Haider hefur boðað á fyrri árum. Þvert á móti hefur hún tekið af öll tvímæli um það að það standi ekki til og Austurríki ætli að starfa í anda lýðræðis og mannréttinda á alþjóðlegum vettvangi.

Þá spyr ég: Hvaða tilgangi þjónar það að við Íslendingar hættum við fyrri áætlanir um að bæta við svona eins og einum eða tveimur starfsmönnum í Vín? Telur hv. þm. Sighvatur Björgvinsson að það sé mjög mikilvægt innlegg í þá umræðu sem þarna á sér stað?