Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 11:54:55 (6526)

2000-04-13 11:54:55# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, SJS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[11:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það háttar svo til um það leyti sem við ræðum þessa skýrslu og tökum hér almenna umræðu um utanríkismál að íslenska utanríkisþjónustan á 60 ára afmæli, dagsett frá þeim tíma sem Danmörk var hernumin og við tókum af þeim ástæðum yfir forsvar okkar utanríkismála.

Það er athyglisvert og rétt að benda á í því sambandi að þetta 60 ára tímabil, eða 50--60 ár sem við höfum með sjálfstæðum hætti farið með okkar utanríkismál, er jafnframt mesta framfaraskeið þjóðarinnar og það verður tæplega dregin önnur ályktun af því en sú að okkur Íslendingum hefur vegnað afar vel sem sjálfstæðri og fullvalda þjóð frá því að við tókum endanlega yfir ábyrgð á okkar málum.

Vegna þess að um Evrópumálin verður hér sérstök umræða og þá miklu skýrslu sem hæstv. utanrrh. hefur skilað í þeim efnum, ætla ég ekki að eyða miklum tíma í þau. En ég fagna þeirri skýrslu. Ég tel að hún sé í öllum aðalatriðum vel og hlutlægt unnin og gott gagn, gott innlegg í umræður um þetta mál, sem reyndar hafa að mínu mati staðið linnulaust síðust tíu, fimmtán ár a.m.k. og er eðlilegt. Skýrslan er fyrst og fremst gagnlegt samsafn upplýsinga og staðreynda eftir því sem þær liggja fyrir um þessi mál án þess að reynt sé að draga af henni miklar pólitískar ályktanir eða niðurstöður og það tel ég skynsamlegt. Það er síðan hlutverk okkar stjórnmálamanna að gera í framhaldinu og öllum stundum.

Ég vil aðeins segja það eitt fyrir mitt leyti í því sambandi að ég tel að skýrslan sé afar mikilvægt svar við einum þætti þessa máls sem oft er hafður uppi og hann er sá að við Íslendingar vitum ekkert hvað það þýðir að ganga í Evrópusambandið nema sækja um og láta, eins og sagt er, á það reyna hvað bjóðist. Ég tel að þessi skýrsla hreki þann málflutning með öllu. Ella hefðu höfundar hennar ekki treyst sér til að fjalla í fjölmörgum köflum um hvað það þýði að gerast aðili að Evrópusambandinu. En það gera þeir og fá niðurstöður sem ég tel að séu á nokkuð traustum grunni byggðar hvað það varðar hvaða áhrif það hefði t.d. á íslenska atvinnuvegi, hvaða kostnaður því yrði samfara o.s.frv.

Ég tel því að um sjálfan sig sé fallinn, og ekki síst með skýrslu þessari, sá málflutningur að við vitum ekki hvað því væri samfara að ganga í Evrópusambandið nema sækja um, enda hefur að mínu mati ævinlega legið fiskur undir steini í þeirri umræðu, sem sagt sá að reyna að lokka menn áleiðis inn í Evrópusambandið út á málflutning af því tagi að fyrr sé ekki hægt að leggja dóm á málið. Ég tel að það sé hægt. Ég tel að stjórnmálaflokkum sé ekkert að vanbúnaði að gera upp hug sinn í því efni hvort aðild að Evrópusambandinu yfir höfuð sé fýsilegur eða æskilegur kostur eða ekki eins og málin liggja nú fyrir og það er vel.

Herra forseti. Um umsvif utanríkisþjónustunnar sem fjallað er um hér í skýrslu hæstv. ráðherra vil ég segja að það er alveg ljóst að hún hefur aukið verulega við sig á síðustu árum og talsvert aukinn kostnaður er því samfara að gæta hagsmuna Íslendinga á erlendri grund á tímum mjög vaxandi alþjóðlegs samstarfs. Ég hef stutt, ég held í öllum tilvikum, þær ákvarðanir sem teknar hafa verið í þessu sambandi, opnun nýrra sendiráða og aukna mönnun Íslendinga á alþjóðavettvangi, vegna þess að ég er þeirrar skoðunar og ég tel að það sé mjög mikilvægt.

Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að opna sendiráð í Kanada og ég tel rétt að gera fastanefnd Íslands í Vín að sendiráði í Austurríki og jafnvel í þeim heimshluta. Það má til sanns vegar færa að það standi óheppilega á að jafnleiðinlegir atburðir hafi gerst í austurrískum stjórnmálum og raun ber vitni, þar sem hægri öfgaflokkur Jörgs Haiders er kominn í ríkisstjórn. En ég deili sjónarmiðum með hæstv. utanrrh. og formanni utanrmn. Ég tel ekki að við eigum að láta það blandast um of inn í það hvernig við með langtímahagsmuni að leiðarljósi gætum okkar hagsmuna í þessum efnum.

Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að við tökum kraftmikinn þátt í ÖSE, stofnuninni um öryggi og samvinnu í Evrópu og ég vil láta það sjónarmið mitt koma hér fram að við eigum að sækjast eftir því svo fljótt sem það getur orðið að taka að okkur forustu í þeirri stofnun. Ég held að formennska Knuts Vollebæks, utanríkisráðherra Noregs, hafi verið með miklum ágætum í formennskutíð Noregs og það væri spennandi framtíðarverkefni fyrir okkur að stefna að því að veita þessari stofnun forustu ekkert síður en að fá sæti í öryggisráðinu.

Ég hef líka verið stuðningsmaður þess að við ættum að hafa sendiráð í Japan. Ég verð þó að segja, miðað við fréttir sem ég hef fengið af þeim gífurlega kostnaði sem mun verða því samfara að stofnsetja sendiráðið í Japan, að það hafa leitað á mig efasemdir. Og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh.: Hafa menn farið yfir það á nýjan leik hvort það sé kannski hyggilegt jafnvel að doka við með það mál, sérstaklega ef ekki verður um gagnkvæmni að ræða, þ.e. ef Japanir opna þá ekki samtímis sendiráð hér?

[12:00]

Mér er tjáð að það geti orðið allt að þrefaldur kostnaður á við venjuleg sendiráð sem því verði samfara vegna gífurlegs húsnæðiskostnaðar og kostnaðar almennt af því að halda sér uppi í Tókíó. Þá fer maður að velta því fyrir sér hvort það sé kannski fulldýru verði keypt. Þrátt fyrir óumdeilt mikilvægi Japans og Japansmarkaðar hafa slíkar efasemdir leitað á mig og ég vildi gjarnan heyra hæstv. utanrrh. fjalla um það.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort mögulegt sé að fara í ríkari mæli það sem við getum kannski kallað Mósambík-leiðina, þ.e. að setja íslenska fulltrúa inn í sendiráð annarra Norðurlandaþjóða þar sem þau eru til staðar eða reyna að semja um slíka hagsmunagæslu fyrir okkar hönd. Auðvitað er augljóst mál að það má spara verulegar fjárhæðir með því að gera slíkt í samstarfi við Norðurlöndin og mér fyndist það mjög æskileg þróun ef Norðurlöndin samstilltu strengi sína í ríkari mæli gagnvart hagsmunagæslu sinni á erlendri grund, samanber hina velheppnuðu opnun sameiginlegs norræns sendiráðakomplex í Berlín.

Ég vil líka segja af þessu tilefni að ég tel að það sé óumflýjanlegt, herra forseti, að Alþingi fari yfir stöðu sína í þessum efnum. Ég tel t.d. tímabært að utanrmn. Alþingis fái fastan starfsmann í fullu starfi til þess að sú nefnd geti betur fylgst með m.a. öllum Evrópugerðum sem hingað eru að að berast. Það mætti jafnvel færa fyrir því rök að Alþingi þyrfti að geta fylgst með á vettvangi, t.d. með einum fulltrúa við sendiráð Íslands í Brussel. Alþingi verður því einnig að fara yfir þessi mál hjá sér. Sú mikla alþjóðaþátttaka sem við þingmenn verðum að manna leggur stórauknar byrðar á herðar Alþingis og verulegar frátafir frá þingstörfum sem væru í sjálfu sér ágæt rök fyrir því að fjölga eitthvað þingmönnum en ég skal ekki fara lengra út í þá sálma.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur mikla áherslu á utanríkismál. Við teljum mjög mikilvægt að Ísland standi skipulega og markvisst að þátttöku sinni í alþjóðasamstarfi. Við leggjum þar fyrst og fremst áherslu á öfluga þátttöku í heildarstofnunum og lýðræðislega uppbyggðum stofnunum eins og stofnunina um öryggi og samvinnu í Evrópu, Evrópuráðinu, Norðurlandaráði og Sameinuðu þjóðunum og þannig mætti áfram telja.

Ég vil nefna þessu til sannindamerkis að fyrir Alþingi liggja eða í utanrmn. ekki færri en sex tillögur og frv. sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, þingflokkur þess eða einstakir þingmenn hafa flutt um utanríkismál. Það er tillaga um stefnu Íslands í alþjóðasamskiptum, það er tillaga um aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo, það er tillaga um viðræður við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar. Það er tillaga um rannsóknir á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu, það er frv. til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Til viðbótar þessu höfum við hreyft fjölmörgum málum í formi fyrirspurna og utandagskrárumræðna. Með þessu höfum við sýnt í verki að við leggjum áherslu á utanríkismál og teljum það mjög mikilvægan og vaxandi málaflokk.

Ég vil svo nota það sem eftir er tíma míns til að ræða nokkuð einstaka efnisþætti eða atburði á sviði utanríkismála. Ég nefni þar fyrst ástandið á Balkanskaga eða í Kosovo. Ég vísa þar til tillögu okkar um að fram þurfi að fara rannsókn á þeim atburðum sem þar urðu sem og stefnumótun því samfara hvernig unnið verði að uppbyggingarstarfi á því svæði og að Alþingi eigi aðild að því máli. Víða um lönd fer fram mikil umræða um þjóðréttarleg og lagaleg álitamál sem tengjast þeim atburðum sem urðu á Balkanskaga og einkum ákvörðunum um loftárásir Atlantshafsbandalagsins þar. Líklega er að leggja af stað fyrir alþjóðlega dómstóla fleiri en eitt og fleiri en tvö dómsmál þar sem látið verður reyna á réttmæti þeirra ákvarðana sem þarna voru teknar.

Enginn vafi er á því að þetta verður á komandi árum viðfangsefni stríðsglæpadómstólsins og þá verða fleiri dregnir fyrir dóm en Serbar einir. Sagan er að leiða í ljós og atburðirnir eftir að átökunum lauk að þarna valda fleiri en einn eins og gjarnan þegar tveir deila.

Ég vil í öðru lagi nefna Tsjetsjeníu og ég vísa þar til þess að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs var fyrstur flokka hér á landi til að taka það mál upp og hvetja til þess að tekin yrði upp hörð afstaða og andstaða við framferði Rússa í Tsjetsjeníu. Ég tel að viðbrögð Vesturlanda hafi lengi framan af verið allt of lin og skýrist e.t.v. af því, því miður, að Rússar duttu niður á það að nota hefðbundnar réttlætingar Vesturlanda eins og baráttu gegn hryðjuverkum, og þeir beittu í grófum dráttum sömu aðferðum, þ.e. gríðarlegum lofthernaði, og Atlantshafsbandalagið gerði í Kosovo.

Þann 9. nóvember samþykkti þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs svohljóðandi ályktun um stöðu mála í Tsjetsjeníu, með leyfi forseta:

,,Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs mótmælir hernaði Rússa í Tsjetsjeníu þó hann sé rekinn í nafni baráttu gegn hryðjuverkum. Þingflokkurinn lýsir þungum áhyggjum af þeim mikla flóttamannavanda sem upp er kominn vegna átakanna og einnig af stjórnmálaástandinu í öllum norðurhluta Kákasussvæðisins. Átökin í Tsjetsjeníu eru enn eitt dæmið um yfirgang stórveldis sem leitast við að tryggja eigin hagsmuni í krafti hernaðarlegra yfirburða án tillits til réttinda óbreyttra borgara af öðru þjóðerni. Í höfuðborginni Grosní hefur flugher Rússa varpað sprengjum á skotmörk sem hafa enga hernaðarlega þýðingu og minnir þetta á nokkuð annað. Þannig hafa íbúðahverfi og almenningsfarartæki orðið fyrir sprengjuregni flughersins.

Þingflokkurinn beinir því til íslenskra stjórnvalda að þau beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að komið verði á vopnahléi í Tsjetsjeníu og stríðandi aðilum gert að leysa deilun með friðsamlegum hætti.``

Við höfum síðan ítrekað fylgt þessu eftir, m.a. með fyrirspurnum og umræðum á Alþingi.

Ég vil inna hæstv. utanrrh. eftir því hvað líði upphafi viðræðna við Bandaríkjamenn um umsvif hersins á komandi árum í kjölfar þess að yfirstandandi bókun fellur úr gildi. Ég fer fram á það og vísa til laga í þeim efnum að utanrmn. Alþingis verði höfð þar í nánu samráði við stjórnvöld. Ég vísa til tillögu okkar um viðræður í því sambandi. Fáist hún ekki afgreidd munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs nýta okkur lögvarinn rétt okkar til þess að eiga aðgang að upplýsingum um þau mál í gegnum utanrmn.

Af hálfu afvopnunarmála sem komið er inn á í skýrslu utanrrh. vil ég leggja sérstaka áherslu á mikilvægi þess að af stað komist viðræður um alþjóðasamning um vopnaviðskipti. Það er að margra dómi það sem helst á skortir til að hægt sé að stemma stigu við uppbyggingu spennu í einstökum heimshlutum að hægt sé að koma böndum á vopnaviðskipti, ekki síst ólögleg vopnaviðskipti inn á átakasvæði og til þess vantar alþjóðlegan samning.

Herra forseti. Ég saknaði þess sárlega í skýrslu hæstv. utanrrh. sem og í ræðu hans að ég fann hvergi orðið ,,Írak``. Ég fann hvergi minnst á, ekki í umfjöllun um Miðausturlönd eða annars staðar, það skelfilega ástand sem þar ríkir. Ég minni á þá tillögu sem hér hefur verið endurflutt líklega sex sinnum um að Alþingi Íslendinga og Íslendingar beiti sér í því máli að fram fari endurskoðun á því ástandi sem þar ríkir og því viðskiptabanni sem er að valda því að heilli þjóð, 30 milljóna manna þjóð er þarna að blæða út. Að mati Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossins og fleiri samtaka um deyja 5 þúsund börn á mánuði í Írak. Allir helstu yfirmenn hjálparstarfs á vegum Sameinuðu þjóðanna í Írak hafa sagt af sér embætti frá og með sir Dennis Halliday að telja, sem og Hans von Sponeck, Jutta Burghard og fleiri mætti þar til nefna.

Segir það mönnum enga sögu að allir þeir menn sem hafa átt að bera ábyrgð af hálfu Sameinuðu þjóðanna á ástandinu innan Íraks, hafa sagt af sér embætti í mótmælaskyni við það ástand sem þarna er? Það er ekki hægt, herra forseti, að búa við það að á Alþingi Íslendinga flytji maður tillögur ár eftir ár og vilji fá afstöðu þingsins fram í máli af þessu tagi og það fáist aldrei til atkvæða. Ég mun leggja harða og þunga áherslu á það að þessi tillaga fái loksins afgreiðslu.

Af sviði hafréttarmála ætlaði ég aðeins að nefna Hatton-Rockall svæðið. Ég spyr hæstv. utanrrh. hvað líði mótun kröfugerðar af hálfu Íslands samkvæmt ákvæðum alþjóðahafréttarsáttmálans þegar landgrunnssvæðinu á Hatton-Rockall verður skipt upp eða það tekið til umfjöllunar í samræmi við ákvæði alþjóðahafréttarsáttmálans. Ég vil einnig spyrja hæstv. utanrrh. í því sambandi: Hefur verið reynt að ná samstöðu með Færeyingum um sameiginlega íslenska kröfugerð hvað varðar Hatton-Rockall svæðið? Ég mæli eindregið með því að sá kostur verði athugaður. Færeyingar hafa yfirtekið forsvar í málefnum eigin landgrunns frá Dönum og geta þar af leiðandi væntanlega sjálfir rætt t.d. við Íslendinga um samflot í þessum efnum. Þar er fram undan mikilvægt verkefni sem við þurfum að sinna vel.

Herra forseti. Nokkur önnur atriði ætlaði ég taka fyrir í mínu máli sem tími gefst ekki til. Ég mun því gera það í síðari ræðu og óska eftir að ég verði settur á mælendaskrá.