Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 12:10:17 (6527)

2000-04-13 12:10:17# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[12:10]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins víkja nokkru að því sem hv. þm. spurði um og þá fyrst út af sendiráði í Japan.

Við gerum okkur afar vel grein fyrir því og það hefur alltaf legið fyrir að sendiráð í Japan og rekstur þess er kostnaðarsamari en flest sendiráð okkar. Kostnaður getur verið allt að tvöfaldur, eins og hv. þm. tók hér fram, en ekki er talið að það sé skynsamlegt að draga það að opna sendiráð þar af þeim sökum. Ég bendi á að Japanar hafa fallist á það og ákveðið að opna sendiráð hér á landi. Þeir hafa þegar opnað upplýsingaskrifstofu og hafa tilkynnt að sendiráð verði opnað 1. janúar nk. og hafa þegar hafið leit að húsnæði í því skyni.

Við ætlum okkur að opna sendiráð í Japan nokkuð síðar eða seinni hluta vetrar eða á vormánuðum næsta ár. Almennt er talið að húsnæðiskostnaður í Japan sé nú í lágmarki en sé líklegt að hann fari hækkandi á nýjan leik. Ef við kaupum þar húsnæði þá eru vextir afar lágir þannig að að því leytinu til er hagstætt að opna sendiráð núna.

Að því er varðar Mósambík-leiðina, eins og hv. þm. komst að orði, þá er þar um það að ræða að við fáum húsnæði í þeirri sameiginlegu sendiráðsbyggingu sem Danir og Norðmenn eru að byggja og áður höfðu Svíar og Finnar byggt sameiginlega sendiráð við hliðina. Við fáum þarna húsnæði fyrir íslenskan starfsmann sem verður starfsmaður utanríkisþjónustunnar. Hann verður ekki starfsmaður þessara sendiráða og á allan hátt á ábyrgð okkar. En okkur fannst þetta tilvalið fyrst það var verið að byggja þarna fyrir sendiráð allra hinna Norðurlandanna að þetta yrði okkar fyrsta skref inn í Afríku og ég tel að það hafi verið mjög gott að við náðum samkomulagi um það.