Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 12:20:37 (6533)

2000-04-13 12:20:37# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, JónK
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[12:20]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur haldið ítarlega ræðu um skýrslu um alþjóðamál sem hér liggur fyrir. Það hefur komið fram við þessa umræðu að skýrsla um Evrópusambandið og stöðu okkar gagnvart því verður rædd síðar. Ég ætla því ekki að orðlengja um hana. En ég vil nota tækifærið og þakka fyrir þessi miklu plögg sem hér hafa verið lögð fram um alþjóðamál. Þau eru góður grundvöllur fyrir okkur á Alþingi að ræða þessi mál.

Það hefur verið minnst á það að það eru 60 ár síðan utanríkisþjónustan var formlega tekin yfir. Það gerðist með næturfundi hér á Alþingi vegna þess að þeir atburðir höfðu gerst sem okkur þykja ótrúlegir í dag, þ.e. að Þjóðverjar höfðu ráðist á Danmörku og sambandið við Danmörku slitnaði. Það er fróðlegt að lesa um þann dramatíska fund sem hér var og varð til þess að við Íslendingar tókum utanríkisþjónustuna formlega í okkar hendur. Þróunin næstu árin var vissulega til að reyna að koma í veg fyrir að slíkur ófriður sem seinni heimsstyrjöldin var endurtæki sig. Sem betur fer hefur mikið áunnist í því efni, a.m.k. þykja styrjaldir milli þeirra granna sem þá tókust á, ólíklegar í dag.

Þetta starf er unnið í gegnum ýmsar alþjóðastofnanir sem við erum aðilar að. Hér hefur t.d. verið rætt um aðild þingsins að þeim stofnunum sem eru margar og það verður að segja eins og er og ég fagna því að þingið hefur með árunum, þar sem ég þekki til, tekið þátt í starfi þessara stofnana markvissar með ári hverju. Það er nauðsynlegt að sú þróun haldi áfram og Alþingi geri sig gildandi í þessum efnum í þingmannasamstarfi þessara stofnana. Hér er um að ræða stofnanir á borð við Sameinuðu þjóðinar, NATO, ÖSE, Evrópusambandið í gegnum EES-samninginn og EFTA, Evrópuráðið og Norðurlandaráð. Það eru vissulega enn þá deilur, þó þær hafi breyst mjög í áranna rás, um aðildina að NATO. En það er afar mikilvægt að taka fullan þátt í öllum þessum samskiptum. Það kostar auðvitað vinnu og vissulega eru vandkvæði fyrir hið fámenna þinglið hér að sinna öllum þessum samskiptum. En þetta verður að gera. Það er vissulega svo að oft verður maður þess var í viðræðum við þingmenn annarra þjóða að alþjóðasamstarfið er kannski ekki efst á baugi þegar komið út í kjördæmin og þingmenn telja upp afrek sín í kjördæmunum. En það er nú önnur saga. Það er sjálfsagt og nauðsynlegt, ekki síst fyrir Íslendinga sem eru fámenn þjóð og svo háð utanríkisviðskiptum að öllu leyti og samböndum, að sinna þessu verkefni.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram um starfsaðstöðu utanrmn. að það er nauðsynlegt að vinna skynsamlegar tillögur um hvernig starfi hennar verður best fyrir komið. Ég hef kynnst því með setu í henni þennan vetur --- ég hef ekki setið þar áður sem aðalmaður, en sem varamaður áður --- að verkefnin hlaðast þar inn og eru eðli máls samkvæmt flókin.

Ég sagði áðan að alþjóðasamtökin hefðu verið stofnuð til að varðveita frið og öryggi og margir kynnu að halda að þetta verk væri komið vel á veg með því að kalda stríðinu lauk fyrir tíu árum. En það er vissulega ekki svo. Því miður hefur það verið þannig að staðbundin átök hafa farið vaxandi í veröldinni. Ég átti þess nýlega kost að heimsækja bandaríska þingið og rannsóknarstofnun þess sem er mjög merkileg stofnun og sá þar úttekt á íhlutun Bandaríkjamanna í átök erlendis síðustu fjörutíu árin. Það kom í ljós að íhlutun þeirra hafði vaxið um allan helming á síðustu tíu árum. Staðbundin átök í veröldinni --- ég er ekkert að leggja dóm á íhlutun Bandaríkjamanna, sums staðar er það friðargæsla, annars staðar íhlutun í þessi átök --- hafa verið mjög tíð á síðasta áratug. Það er víðs fjarri að öryggi ríki í veröldinni. Þessi átök eru af ýmsum ástæðum. Þetta eru átök þjóðarbrota, þjóðernisminnihluta, átök um auðlindir, átök milli ætta, ættarvelda eða ættbálka, svo eitthvað sé nefnt. Sumir hafa þá kenningu að átök um vatn verði átök 21. aldarinnar. Ekki legg ég dóm á það. Hins vegar er það víðs fjarri að friður sé kominn á.

Ekki þarf að lýsa með mörgum orðum átökunum á Balkanskaga sem eru í nágrenni við okkur. Þar höfum við lagt lóð á vogarskálarnar í þeirri friðargæslu sem þar fer fram og mér finnst nauðsyn að styrkja þá starfsemi og halda henni áfram. Við höfum sent þangað hjúkrunarlið og löggæslumenn sem mikil þörf er fyrir. Það er mikilvægt fyrir okkur að sýna lit að þessu leyti. Þó framlag okkar verði aldrei stórt á mælikvarða stórþjóðanna þá hefur það mikið að segja fyrir andlit okkar út á við að taka þátt í þessu. Hið sama er að segja um þróunaraðstoðina sem er annar þáttur utanríkismála okkar. Þar verðum við vissulega að efla þátttöku okkar. Það hafa verið stigin skref í því en þar vantar enn þá nokkuð upp á.

Við höfum einnig tekið á móti flóttamönnum í vaxandi mæli á síðustu árum og það skiptir miklu máli fyrir þátttöku okkar í alþjóðasamskiptum að við séum þar veitendur en ekki eingöngu þiggjendur.

[12:30]

Síðustu tíu árin hafa orðið miklar breytingar í Evrópu. Evrópusambandið mun stækka á næstu árum. NATO hefur stækkað. Þrjár þjóðir hafa gengið þar inn með fulla aðild og nú eru miklar umræður um að efla hina evrópsku stoð varnarmálanna innan NATO. Ég ætla ekki að hafa langt mál um það en það er vissulega nauðsyn fyrir okkur að marka okkur aðild þar að. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að sá vegur verði nokkuð langur og vandrataður þar til Evrópuþjóðirnar eru búnar að mynda varnarsamtök með fullum þunga. Það er mikið tæknilegt bil á milli Evrópuþjóðanna og Bandaríkjamanna og Evrópuþjóðirnar leggja stórum minna til varnarmála en Bandaríkjamenn. Ég tel því að öryggismálum í Evrópu verði ekki haldið uppi með fullum þunga nema Bandaríkjamenn eigi þar aðild að áfram, enda er ekki ætlunin að skilja þar á milli. En það eru miklar umræður um að efla Evrópustoðina.

Ég vil undirstrika hér að það skiptir miklu máli að halda samskiptum við Rússa þó upp hafi komið hnökrar varðandi Tsjetjseníu. Ég tek undir það sem hefur verið sagt um þau mál. En það skiptir miklu máli að slíta ekki tengslin við Rússa og aðild þeirra t.d. að friðargæslunni á Balkanskaga er afar mikilvæg. Það verður auðvitað að mótmæla styrjaldarrekstri þeirra með fullum þunga. Hins vegar legg ég mikla áherslu á að rækta við þá samskipti. Ég tel að það sé grundvallaratriði fyrir frið og öryggi í Evrópu.

Ég get ekki skilið við þessar hugleiðingar án þess að minnast á mannréttindamálin sem eru æ stærri þáttur í alþjóðasamskiptum, þ.e. að varðveita grundvallaratriði mannréttindamála eins og réttinn til lífs og réttinn til tjáningar, réttinn til mannlegrar reisnar og trúfrelsi svo nokkur lykilatriði séu nefnd, jafnrétti og önnur slík atriði. Ég tel að við eigum að leggja þar lóð á vogarskálarnar þar sem því verður við komið. Evrópuráðið er okkar vettvangur í þessu efni og ég veit að fulltrúarnir þar leggja þessum málum lið og það tel ég afar mikilvægt.

Ég vildi undirstrika nokkur atriði að lokum þar sem ræðutíma mínum er nú að ljúka. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir okkur að taka þátt í alþjóðasamtökunum, ekki síst Alþingi, efla þróunaraðstoð, taka þrátt í friðargæsluverkefnunum áfram, styðja mannréttindabaráttu hvar sem því verður við komið og taka þátt í skynsamlegu samkomulagi um verndun umhverfis og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Ég tel að þetta séu verkefnin sem fram undan eru, auk þess að byggja upp utanríkisþjónustuna í öllum heimsálfum. Þó geri ég mér alveg grein fyrir því að það er mjög dýrt verkefni og það verður ekki allt gert í einu í þeim efnum. En það hafa verið stigin afar mikilvæg skref í þessum efnum á undanförnum árum.