Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 12:35:21 (6534)

2000-04-13 12:35:21# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[12:35]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Mig langar til þess að byrja á að þakka fyrir þá ágætu yfirlitsskýrslu sem hér er til umræðu, yfirlitsskýrslu hæstv. utanrrh. um alþjóðamál. Hún er góð sem slík, en mér þykir þó nokkur ljóður á skýrslunni, þó hún sé ágætisyfirlit og greinargóð frásögn af stöðu okkar og því sem gert hefur verið á sviði utanrrn. og í samskiptum okkar við önnur lönd á liðnum missirum, að í hana vantar, finnst mér, nokkuð skýrari stefnumótun um framtíðina. Vissulega er tekið á ýmsum málum í því efni. En mér hefði þótt fengur í að fá ögn markvissari frásögn af því hver forgangsröðunin er í þeim málum.

Það er alveg ljóst nú á árinu 2000 að viðfangsefni nýrrar aldar verða um margt önnur en þau sem lýðveldið Ísland hefur fengist við síðustu 50 ár rúmlega. Eitt af því sem ekki er plássfrekt í skýrslu hæstv. utanrrh. er umfjöllun um umhverfismálin. Hún er vissulega til staðar, en hefur ekki það vægi í skýrslunni sem ég hefði talið að hún þyrfti að hafa. Nokkuð er rætt um aðstoð við fátækustu ríki veraldar og það skiptir auðvitað mjög miklu máli í framtíðinni, enda er það málefni okkar allra að jarðarbörn komist af hvar sem þau búa, m.a. með því að aðstoðað sé með niðurfellingu skulda og með öðrum slíkum aðgerðum. Einnig er mjög mikilvægt, og því ber að fagna, að utanrrn. hefur markað skýrari stefnu á undanförnum árum og lagt meiri áherslu á þróunarsamvinnu sem hefur skilað okkur að mínu viti mjög fram á veginn. Seint verður lögð nógu mikil áhersla á mikilvægi þess að markmið þróunarsamvinnunnar sé að bæta stöðu kvenna og barna í fátækari ríkjum þessa heims og það má færa gild rök fyrir því að öll þróunarsamvinna eigi að hafa það eitt að markmiði. Ég er eindregið þeirrar skoðunar. Án þess að fara hér út í langa röksemdafærslu í því efni, tel ég að aðstoð okkar við uppbyggingu heilsugæslu, aðstoð sem lýtur að lestrarkennslu fyrir konur, aðstoð sem lýtur að því að efla bólusetningu barna undir fimm ára aldri, að slík grunnaðstoð við fátækustu ríki heims skipti meginmáli í samskiptum okkar á alþjóðavettvangi á næstu áratugum.

Mig langar í upphafi máls míns að taka undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um viðskiptabannið á Írak og nauðsyn þess að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir niðurfellingu þess. Það er alveg ljóst að það hefur ekki þjónað tilgangi sínum og það er löngu tímabært að taka það til gagngerrar endurskoðunar. Ég ætla einvörðungu að gera hér nokkur atriði að umfjöllunarefni. Fyrst eru það áætlanir um ný sendiráð og sendiskrifstofu í Maputo í Mósambík. Ég tel mjög mikilvægt að Íslendingar hafi sendiráð í öllum álfum heimsins. Þess vegna tel ég einboðið að við opnum sendiráð í Tókíó. Það er vissulega mjög dýr framkvæmd. En þar eigum við mikilla hagsmuna að gæta, viðskiptahagsmuna og annarra, og ég held að að málið sé einfaldlega þannig vaxið að hjá því verði ekki komist að opna sendiráð þar.

Ég vil líka taka undir með þeim sem hér hafa nefnt sendiskrifstofu eða einhvers konar sendiráð í Suður-Ameríku og jafnvel í Eyjaálfu. Vissulega kostar þetta allt þó nokkrar upphæðir. En við vitum vel að alþjóðleg samskipti eru ekki ókeypis. Þau eiga heldur ekki að vera það. Við tryggjum ekki hagsmuni okkar og góð samskipti betur en með því að reka góð og öflug sendiráð sem víðast.

Vegna hugmyndarinnar um sendiskrifstofu í Maputo í Mósambík vil ég líka taka hér fram að ég tel að slík leið sé mjög greiðfær og einmitt sérstaklega í löndum eins og Mósambík þar sem við vitum að það er kannski ekki alveg einfalt mál að setja á stofn sendiráð, m.a. vegna aðstæðna í landinu. Þess vegna hygg ég að það sé góð leið til þess að opna dyrnar að sunnanverðri Afríku að hefja starfsemi í Mósambík og sjá svo til í framhaldinu hvernig það gengur.

Hér eru Evrópumálin sem slík ekki til umræðu og ég mun þess vegna geyma það þangað til skýrsla hæstv. utanrrh. um stöðuna í Evrópu verður tekin til umræðu á hinu háa Alþingi að ræða varnarstoðina sérstaklega og hygg að við munum getað átt hér orðastað um það síðar.

Það ber að þakka sem vel er gert. Forusta Íslands í Evrópuráðinu var farsæl. Það er ekki alltaf einfalt að veita slíkum samtökum forustu. Við höfum séð það á undanförnum vikum að framferði Rússa í Tsjetsjeníu og einnig nýjustu atburðir í Úkraínu hafa náttúrlega sett Evrópuráðið í ákveðinn vanda. Ég hygg hins vegar að Evrópuráðið hafi tekið mjög vel á þeim vanda. Það ber að gera rússneskum yfirvöldum mjög skýra grein fyrir því að stríðsreksturinn í Tsjetsjeníu er, að mínu viti, glæpsamlegur. Hann gengur gegn öllum ákvæðum Genfarsáttmálanna og hann er í engu samræmi við þær yfirlýsingar Rússa um að verið sé að kveða niður hryðjuverkamenn. Þar er einfaldlega búið að flæma fólk á flótta og leggja heilt hérað í rúst. Þessu þarf að mótmæla kröftuglega þar til Rússar láta af þessum stríðsrekstri. Ég hygg að Íslendingar eigi þar að fara framarlega í flokki, bæði innan Evrópuráðsins og á öðrum vettvangi.

Það er tvennt sem ég vil koma hér sérstaklega að og er þá fyrst að nefna Kyoto-ferlið. Í yfirlitsskýrslu hæstv. utanrrh. á bls. 50 segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Samþykkt tillögu Íslands,`` --- sem lögð hefur verið fram í þessu ferli --- ,,eða annars fyrirkomulags sem gerir Íslandi mögulegt að halda áfram nýtingu endurnýjanlegra orkulinda, mundi gera Íslandi kleift að gerast aðili að bókuninni.``

Hér tel ég mjög mikilvæga opnun vera á ferðinni og nokkuð nýtt hljóð komið í strokk stjórnvalda því að hingað til hefur það ekki heyrst frá ríkisstjórn Íslands að í bígerð hafi verið að milda málflutning okkar í Kyoto-ferlinu. En hér hefur greinilega verið opnað á nýja leið og því ber að fagna. Ég tel það benda til þess að stjórnvöld séu búin að gera sér grein fyrir því að sú leið sem valin var í upphafi sé kannski ekki greiðfær og nú sé verið að leita nýrra leiða í Kyoto-ferlinu.

[12:45]

Annað sem ég vildi ræða er Alþjóðaviðskiptastofnunin sem fær svolitla umfjöllun í skýrslu hæstv. utanrrh. Vert er að velta því sér hvaða lærdóma megi draga af uppákomunni í Seattle á fundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í haust. Það var ekki að ástæðulausu að fulltrúar frjálsra félagasamtaka ýmiss konar og umhverfisverndar- og náttúruverndarsamtaka fjölmenntu til Seattle til að láta í ljósi skoðanir sínar eða hafa áhrif á það sem þar fór fram. Ég hygg að það væri ráð að draga rétta lærdóma af þeim uppákomum og tryggja það í framtíðinni að á fundum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sé einhvers konar aðkoma tryggð fyrir frjáls félagasamtök. Ég sé satt að segja ekki, herra forseti, hvernig eigi annars að ná sátt um að tryggja frjáls viðskipti. Alþjóðaviðskiptastofnunin hrærist í veröldinni með öðrum, hún lifir í engri einangrun. Frjáls viðskipti verða ekki tryggð nema í sátt og það þarf að tryggja sátt milli ríkra og fátækra ríkja. Það þarf að ganga þannig í það verk að menn geri sér grein fyrir því að það kostar ríkari þjóðir veraldar að tryggja frjáls viðskipti þannig að aðgangur vöru frá fátækari ríkjum sé tryggður. Það er mjög mikilvægt að við séum samkvæm sjálfum okkur í umræðunni og að við gerum okkur grein fyrir því að ferli til frjálsra viðskipta er ekki endilega sársaukalaust, sérstaklega ekki fyrir fátækustu ríki heims og að við treystum okkur til að ganga í þá vinnu þannig að sem minnstri röskun valdi á högum fátækasta fólks þessa heims. Ég held hins vegar að við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að við sem erum ein af tíu ríkustu þjóðum heims þurfum auðvitað að láta eitthvað á móti okkur í þessu ferli. Það er einfaldlega kominn tími til þess að Íslendingar láti af þeirri grundvallarafstöðu sinni í samskiptum við aðrar þjóðir að fá allt fyrir ekkert. Þessu er svo sem ekkert sérstaklega beint til hæstv. utanrrh., heldur bara er almenn skoðun á því hvernig við höfum haldið fram utanríkismálum okkar á síðustu áratugum því þau vandamál sem við er að glíma í dag verða ekki leyst nema fundin sé raunhæf leið til þess að hífa fátækustu ríki heims upp úr þeirri gríðarlegu fátækt sem þau eiga við að búa. Það er málefni allra að sjá til þess að það takist.

Ég vil einnig benda hv. þm. á að í Morgunblaðinu í dag er ágætisgrein eftir hagfræðinginn Jeffrey Sachs þar sem fjallað er aðallega um starfsemi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta er býsna fróðleg lesning. Ég vona að hv. þm. gefi sér tíma til þess að glugga í greinina og að menn taki til greina þær ábendingar sem hér koma fram. Hér er verið að greina frá því að bandarísk þingnefnd sérfræðinga hefur skilað tillögum um róttækar breytingar á starfsemi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég hygg að reynslan kenni okkur að margt megi betur fara í starfsemi þessara alþjóðastofnana og þar megi setja markmið og viðmið með öðrum hætti en gert hefur verið á undanförnum árum og áratugum. Ég tel það vera verðugt viðfangsefni íslenskrar utanríkisstefnu að taka þátt í því að endurbæta þessar stofnanir.