Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 12:50:15 (6535)

2000-04-13 12:50:15# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[12:50]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði í ræðu sinni að henni þætti skorta á framtíðarsýn og skýrari stefnumótun um framtíðina í þessari skýrslu og þessari umfjöllun. Ekki skal ég neitt draga úr því, aldrei er nægilega mikið talað um framtíðina og alltaf má sjá hana í mismunandi ljósi. Ég get hins vegar ekki tekið undir það að ekki sé leitast við að forgangsraða málum í skýrslunni. Hv. þm. sagði að lítið væri fjallað af okkar hálfu um umhverfismál. Nú er það svo að umhvrn. tekur þátt í veigamiklu alþjóðastarfi á þessu sviði fyrir utan utanrrn. Við höfum hins vegar stofnað sérstaka auðlindadeild í utanrrn. sem hefur tekið þátt í umræðu um þessi mál í miklum mæli, hvort sem við erum að tala um loftslagsmálin þar sem við erum að fjalla um nýtingu endurnýjanlegra orkulinda, mengun hafsins, nýtingu auðlindanna, sérstaklega auðlinda hafsins. Allt eru þetta mikilvæg umhverfismál sem við tökum ríkan þátt í. Við höfum sett upp sérstaka viðskiptaþjónustu, við höfum stóraukið starf okkar að þróunarmálum og þróunarsamvinnu, við höfum sett Evrópumál á oddinn í starfi okkar, auk þess sem við erum að færa út kvíarnar með opnun nýrra sendiráða. Allt tel ég þetta bera vott um framtíðarsýn. Nú má vel vera að við höfum ekki þar réttar áherslur en áherslurnar eru til staðar. Ég vil að lokum geta þess að við erum að auka starf okkar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að ýmsum málum og hyggjumst auka það m.a. með því að gefa kost á okkur til setu í öryggisráðinu en það þýðir að við munum auka þátt okkar í margvíslegum störfum á þeim vettvangi.