Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 12:53:50 (6537)

2000-04-13 12:53:50# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[12:53]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Allt er þetta spurningin um ákveðna fjármuni jafnframt. Það er alveg ljóst og það kemur fram í skýrslunni að við höfum aukið mjög starf okkar í þróunarmálum. Við höfum sett upp áætlun þar sem gert er ráð fyrir stighækkandi framlögum á næstu árum og við erum að skipuleggja verkefni okkar alllangt inn í framtíðina, við höfum tekið meiri þátt í störfum Alþjóðabankans en nokkru sinni fyrr, við tókum að okkur um tveggja ára skeið forustu fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í þróunarnefnd Alþjóðabankans. Við höfum því sett þessi mál í forgang. Auðvitað getum við gert meira en við komumst ekki hjá því að sinna mikilvægum hagsmunamálum Íslands. Það eru gerðar þær kröfur til utanríkisþjónustunnar að hún sinni þeim og við höfum jafnframt verið virkir þátttakendur á ýmsum sviðum umhverfismála. Ég skil ekki hv. þm. þannig að við eigum að sinna þessum málum fyrst og fremst, við verðum að sýna mikla breidd vegna þess að við erum með mjög litla utanríkisþjónustu þegar við miðum við mörg önnur lönd. Utanríkisþjónusta okkar er í heild sinni jafnvel minni en sendiráð helstu nágranna okkar í Tókíó svo ég nefni dæmi. Ég hygg að utanríkisþjónusta okkar sé töluvert minni en sendiráð Breta í Tókíó þannig að okkur eru vissar takmarkanir settar í þessum efnum. Þó ég taki að sjálfsögðu við ábendingum í þessu sambandi tel ég að við höfum einmitt verið að gera okkar ýtrasta til þess að forgangsraða málum okkar og ekkert síður lagt áherslu á þau mál sem hv. þm. nefndi en ýmis önnur.