Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 13:41:58 (6542)

2000-04-13 13:41:58# 125. lþ. 100.8 fundur 484. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skattleysismörk) frv. 9/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[13:41]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þetta lagafrv. fjallar um skattleysismörk, þ.e. hvernig skattleysismörkin eigi að þróast á komandi árum. Við 1. umr. frv. gerði ég tvennt: Í fyrsta lagi fagnaði ég því að skattleysismörk ættu að taka mið af launaþróun. Menn hafa deilt nokkuð um hvað eigi að leggja til viðmiðunar í launaþróun. Annars vegar hefur því verið haldið fram að skattleysismörkin eigi að fylgja lágmarks umsömdum launatöxtum og hins vegar eru aðrir sem vilja að skattleysismörkin fylgi launavísitölunni. ASÍ og BSRB eru sammála um og hafa lagt á það ríka áherslu að skattleysismörkin eigi að lágmarki að fylgja lágmarks umsömdum launatöxtum. Það er viðurkennt með þessu frv. og það er vel.

Í öðru lagi gagnrýndi ég við 1. umr. málsins að endurskoðunarákvæði vantaði í frv. Vegna þess að í frv. var tekið mið af þeim samningum sem þá höfðu verið gerðir og eru kenndir við Flóabandalagið. Það er einvörðungu um 10% af launamarkaðnum á Íslandi og væri óeðlilegt að binda þá þróun við það sem gerðist hjá svo litlum hluta launamarkaðarins. Og þess vegna lagði ég áherslu á að tekið yrði mið af öðrum samningum sem kynnu að vera gerðir. Þetta var síðan rætt í nefndinni og nú hefur það gerst að Verkamannasamband Íslands hefur gengið frá sínum hluta samninganna og í samræmi við þá samninga hefur ríkisstjórnin síðan brugðist við og fært skattleysismörkin upp síðasta samningsárið. Það er einnig vel og ég styð það og lít svo á að þar með styðji menn það prinsipp að skattleysismörk eigi að lágmarki að fylgja lágmarks umsaminni launaþróun í landinu.

En áður en ég lýk máli mínu vil ég leggja áherslu á eitt, herra forseti, og það eru aldraðir og öryrkjar. Fram hefur komið við umræðuna að á síðustu árum, ef litið er aftur til ársins 1993 og fram undir síðustu áramót, hafa lægstu laun í landinu hækkað um 52% en kjör öryrkja og aldraðra einvörðungu um 30% þegar litið er til grunnlífeyris, tekjutryggingar, heimilisuppbótar og sérstakrar heimilisuppbótar. Þarna er stórt bil á milli. Þetta bil kemur enn til með að aukast ef farið verður að þeim hugmyndum sem ríkisstjórnin hefur kynnt Alþingi og þjóðinni varðandi kjaraþróun hjá öryrkjum á næstu árum. Í þeim samningum sem nú hafa verið gerðir kemur fram að lágmarks umsamin launaþróun á þessu ári verður 3,9% en fyrir lægstu hópana 8,9%. Ríkisstjórnin ætlar að miða kjör öryrkjanna og aldraðra við lægri töluna. Bilið mun því enn aukast á milli öryrkja og aldraðra og launafólks. Mér finnst þetta með öllu óaðgengilegt og ég vil beina því til ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjmrh. að þessi mál verði tekin til gagngerrar endurskoðunar, en að öðru leyti lýsi ég yfir stuðningi við þessar lagabreytingar.