Utandagskrárumræða og fjarvera sjávarútvegsráðherra

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 13:51:01 (6545)

2000-04-13 13:51:01# 125. lþ. 101.91 fundur 455#B utandagskrárumræða og fjarvera sjávarútvegsráðherra# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[13:51]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. formanni þingflokks Frjálslynda flokksins og lýsa yfir að mér finnst mjög óeðlilegt að falla frá því að taka sjávarútvegsmál til umræðu utan dagskrár í kjölfar nýfallins hæstaréttardóms. Mér finnst það í hæsta máta óeðlilegt. Þetta hefur verið vitað alla vikuna. Beiðnin kom fram fyrir síðustu helgi og mér finnast þetta í hæsta máta undarleg vinnubrögð.

Ég spyr sjálfan mig: Er veikleikinn í stjórnarliðinu í þessu máli það mikill að menn þori ekki að taka sjávarútvegsmálin til umfjöllunar á þinginu? Hvað veldur? Hver er hin raunverulega skýring, þegar menn hafa ekki lengur neina afsökun, geta ekki lengur skotið sér á bak við það að Hæstiréttur eigi eftir að kveða upp dóm í þessu máli? Nú er sú afsökun ekki fyrir hendi en þá þora menn ekki að verða við beiðni um að taka málið til umræðu utan dagskrár. Þetta er mjög óeðlilegt, herra forseti, og vekur upp ýmsar spurningar.