Utandagskrárumræða og fjarvera sjávarútvegsráðherra

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 13:52:45 (6547)

2000-04-13 13:52:45# 125. lþ. 101.91 fundur 455#B utandagskrárumræða og fjarvera sjávarútvegsráðherra# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[13:52]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég tel að þingmenn hafi þingreynslu til að skilja hið talaða orð en það kom mér á óvart eins og öðrum hér að ekki ætti að fara fram umræða utan dagskrár um kvótadóminn. Eftir þeim upplýsingum sem ég hafði fengið frá þeim sem um þessa umræðu báðu átti hæstv. sjútvrh. að koma heim á miðvikudagskvöld og því vera reiðubúinn að taka þessa umræðu nú á síðasta degi þingsins fyrir páskahlé.

Mér finnst miður ef sú staða er að koma upp að ef þingmenn eru ekki tilbúnir að taka utandagskrárumræðu á fyrsta degi eftir stóratburði, eins og þegar kvótadómurinn var felldur, megi ekki ræða málið á þeim degi sem hentar, þegar ráðherra er kominn heim. Ég ætla að benda á að þessi umræða um kvótadóminn verður mjög hjárænuleg þegar liðnar verða þrjár vikur frá því að dómurinn féll. Eftir umræðu í fjölmiðlum og í þjóðfélaginu, þá loksins ætlar Alþingi að taka umræðuna.

Hér voru allir flokkar tilbúnir til að ræða þetta mál þegar upplýst var að hæstv. sjútvrh. ætlaði ekki að vera hér í dag við þessa umræðu. Mér finnst að viðhlítandi skýring hafi ekki komið á því hvers vegna hann gat ekki orðið við þessari ósk. Það má vel vera að sú skýring komi fram nú í umræðunni en mér finnst það miður. Ég tek undir það með málshefjanda. Við héldum öll að orðið hefði verið við beiðni hans.