Utandagskrárumræða og fjarvera sjávarútvegsráðherra

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 14:04:21 (6553)

2000-04-13 14:04:21# 125. lþ. 101.91 fundur 455#B utandagskrárumræða og fjarvera sjávarútvegsráðherra# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[14:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég spurði hæstv. forseta hverjar skyldur hæstv. sjútvrh. væru svo ríkar í dag, hafandi haft þann fyrirvara sem hér hefur verið á, að hann megi ekki vera við umræðuna. Ég hygg að um það hafi verið samið á fundi strax á mánudaginn var að umræðan yrði hér um fjögur eða fimmleytið í dag. Mér finnst með ólíkindum að hæstv. sjútvrh. skuli vera svo önnum kafinn, af mikilvægari verkefnum en þeim að ræða um þetta stóra mál við Alþingi allan daginn í dag, að hann fái því ekki við komið að vera hér eins og í eina og hálfa klukkustund. Og ég tek það ekki gilt nema fá einhverjar upplýsingar um að svo sé.

Varðandi það að með því að ráðherra hafi verið tilbúinn til að ræða málið innan við sólarhring eftir að dómur féll, t.d. hér fyrripart dags á föstudag, þá eru það engin rök, herra forseti, í þessu sambandi. Þarna var um að ræða viðamikinn dóm með ítarlegri reifun í stóru máli þannig að af þeim ástæðum var eðlilegt að þingmenn vildu fá einhvern tíma til að skoða niðurstöðuna og fara yfir röksemdafærsluna. Ég veit ekki hvort það var ástæða þess að 18. þm. Reykv. kom ekki við umræðunni eða vildi ekki hafa umræðuna á föstudaginn. En aðalatriði málsins, herra forseti, er að hæstv. sjútvrh. eða aðrir hæstv. ráðherrar hafa hér ekkert neitunarvald. Það er ekki þeirra að ákveða það hvort og hvenær umræður af þessu tagi fara fram á Alþingi.