Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 14:22:50 (6555)

2000-04-13 14:22:50# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að minnast á eitt atriði sem hv. þm. kom inn á, það er Norðurskautsráðið. Kanadamenn voru fyrstir til að leggja það til að þetta ráð yrði stofnað og það er rétt að við tókum það upp á vettvangi Norðurlandaráðs á sínum tíma til að vinna þessu máli fylgi meðal Norðurlandanna og það hefur tekist vel. Stofnuð var fastanefnd í þessum málum innan Norðurlandaráðs sem starfaði ágætlega og við lögðum á það áherslu að fá Bandaríkjamenn þar með og jafnframt Evrópusambandið.

Ég tel að veruleg þróun hafi orðið í þessum málum því að Bandaríkjamenn eru komnir með í þetta samstarf og Finnar hafa nú beitt sér fyrir því að hin norðlæga vídd væri tekin upp á vettvangi Evrópusambandsins og þar með hefur Evrópusambandið mun meiri áhuga fyrir þessu máli en áður var. Ég minnist þess, að þegar ég heimsótti Evrópuþingið á sínum tíma til að tala fyrir þessu máli var fremur takmarkaður áhugi á því, en ég tel að þarna hafi náðst verulegur árangur. Hins vegar hefur þeim áfanga ekki verið náð að þetta ágæta ráð setji upp fasta skrifstofu með starfsfólki sem starfi allt árið um kring að þessum málum.

Við Íslendingar höfum boðið það fram að skrifstofa Norðurskautsráðsins verði á Íslandi. Því miður starfar hér engin alþjóðastofnun og þess vegna væri mjög eðlilegt að slík stofnun ætti sér fast aðsetur á Íslandi. Við erum miðsvæðis milli þessara landa og þegar búið verður að taka upp fastar áætlunarferðir til Rússlands, sem verður áreiðanlega gert í framtíðinni, og fastar ferðir til Finnlands teknar upp aftur, þá verður Ísland í mjög góðum samgöngum við öll þessi lönd. Og þegar komið verður upp sendiráð Kanada hér á landi og Íslands í Kanada hafa öll þessi lönd sendiráð í þessum löndum öllum þannig að árangurinn er mikill.