Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 14:27:10 (6557)

2000-04-13 14:27:10# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[14:27]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Vegna þeirra ummæla sem hv. þm. hafði um viðskiptabannið á Írak og þá staðreynd að það er sett á grundvelli ákvarðana Sameinuðu þjóðanna, þá er rétt og mikilvægt að það komi fram að sú tillaga sem hér liggur fyrir á Alþingi beinist ekki eða snýr ekki að því að við hættum einhliða að framfylgja viðskiptabanninu af okkar hálfu, þó að vissulega væru það ærin rök fyrir að leggja það til. En ég hef flutt þessa tillögu og hún hefur allan tímann verið á þá leið að í henni fælist, að henni samþykktri, að Íslendingar mundu beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að viðskiptabannið yrði tekið til endurskoðunar, að framkvæmdin yrði tekin til endurskoðunar.

Lengra er nú ekki gengið í tillögunni og það er þeim mun merkilegra að jafntorvelt skuli hafa reynst að koma henni áleiðis, af því að ekki er lengra gengið. Mér er alveg ljóst að ef það væri lagt til, eins og hv. þm. nefndi, að við einhliða féllum frá þátttöku, þá hefði það ýmis þjóðréttarleg áhrif í för með sér. En svo er ekki.

Varðandi Norðurskautsráðið sem hér bar einnig á góma ætla ég að sjálfsögðu ekki að fara að svara fyrir utanrrh. og hann gerði grein fyrir því að það hefur ekki komist á enn þá að setja á formlega stofnun. Ég held að það geti varla verið neitt viðkvæmt að láta það koma fram að það er fyrst og fremst vegna andstöðu Bandaríkjamanna við að formbinda og stofnanagera þetta samstarf þannig sem það hefur ekki komist áleiðis.

Hv. þm. kvartaði um skort á upplýsingum til þjóðþinganna eða hingað til Alþingis um það samstarf. En þá er rétt að minna á að sú breyting hefur orðið á að í staðinn fyrir að Norðurlandaráð tilnefni þingmenn af hálfu Norðurlandanna í samstarfið þá gera þjóðþingin það nú sjálf. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich er fulltrúi Alþingis í þingmannasamstarfinu og það vill reyndar svo til að Norðurlandaráð hefur einnig tilnefnt tengilið fyrir sitt leyti og það er sá sem hér talar. Hagur Alþingis á því að vera sæmilegur hvað það snertir að geta átt aðgang að upplýsingum úr þessu samstarfi.