Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 14:31:11 (6559)

2000-04-13 14:31:11# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[14:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að einnig sé nauðsynlegt að það komi fram að það er vitað og liggur fyrir að ástæðan fyrir því að ekki er fyrir löngu búið að breyta ákvörðun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að viðhalda viðskiptabanninu á óbreyttum skilmálum er fyrst og fremst andstaða tveggja þjóða, aðallega þó einnar, þ.e. Bandaríkjamanna sem Bretar hafa hins vegar því miður fylgt að málum. Meiri hluti er fyrir því að breyta þessu innan öryggisráðsins en það nær ekki fram að ganga vegna þess að Bandaríkjamenn hindra það.

Það er vaxandi og mikil gagnrýni nánast alls staðar, þar með talið líka innan Bandaríkjanna á þetta ástand. Ég held að það geti ekki verið nema tímaspursmál hvenær það fellur. Mér finnst að Ísland hefði átt að ákveða fyrir löngu að bætast í hóp þeirra þjóða sem leggja til að þetta ástand verði endurskoðað vegna þess að á meðan við gerum það ekki er siðferðileg ábyrgð okkar á þessu ástandi meiri en ella. Við gætum að sjálfsögðu vísað til þess að við hefðum viljað breyta þessu en meðan það næst ekki fram gegnum þann ákvarðanatökufarveg sem þarna þarf að fara á vettvangi Sameinuðu þjóðanna yrðum við auðvitað að sæta því nema við vildum ganga lengra og einhliða bregðast við að þessu leyti. En mér finnst í öllu falli mikilvægt að það komist loksins á hreint hvort Ísland vill fyrir sitt leyti bera lengur ábyrgð á þessu ástandi í þeim skilningi að við séum ekki einu sinni í hópi þeirra sem afdráttarlaust leggja til að nú verði málin endurskoðuð eða ekki. Þá held ég að það hljóti að vera þannig að það sé styrkur fyrir hæstv. utanrrh. að hafa það í veganesti að Alþingi Íslendinga hafi lagt það til og samþykkt það.