Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 14:33:04 (6560)

2000-04-13 14:33:04# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[14:33]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt að í öllum löndum Evrópu og á Norðurlöndunum eru æ háværari raddir út af þessu viðskiptabanni og umræðan hefur orðið miklu meiri í þá veru að þessu eigi að aflétta. Þá vaknar sú spurning að ef það eru Bandaríkin eða Bretland fyrst og fremst sem beita sér svo harkalega fyrir áframhaldandi viðskiptabanni hvort hugsanlegt er að utanrrh. okkar byrji á því að reyna að taka þetta upp á norrænum vettvangi og Norðurlöndin hafi einhverja sameinaða afstöðu. Auðvitað veit ég að það er nokkuð afgerandi fyrir samstöðu hvað varðar Sameinuðu þjóðirnar að sum landanna eru þar í samstarfi innan Evrópusambandsins og ein af röddunum þar en e.t.v. getum við tekið þessi mál upp á Norðurlandavettvangi til að vita hvernig hægt er að halda á þessum málum.

Það er líka alveg ljóst að við erum aftur og aftur að reka okkur á það varðandi Bandaríkin, sem eru auðvitað öflug og mjög áhugavert að kynnast mjög mörgu í því merka ríki, að þau hafa dregið lappirnar á mörgum sviðum í samstarfinu. Ef ég man rétt voru Bandaríkin eitt tveggja landa sem höfðu ekki staðfest t.d. barnasáttmálann og hafa verið með fyrirvara í alþjóðlegum málum sem við höfum verið að taka inn af því að þau vilja fara varlega og undirgangast ekki t.d. varðandi sakadómstólinn, vildu að leyfi yrði að koma heiman að til að hægt væri að lögsækja þá sem væru uppvísir að glæpum. Það er eitthvað sem við eigum sjálf að hafa skoðun á og beita okkur í hvort við eigum að vera með öðrum þjóðarhópum varðandi sterk mannréttindamál.