Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 14:55:09 (6564)

2000-04-13 14:55:09# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[14:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið skýrt fram í málflutningi okkar í utanrrn. að við teljum afar mikilvægt að auka starf okkar að friðargæslu í heiminum og það kom fram í ræðu minni og þeirri skýrslu sem ég hef lagt hér fram.

Við teljum líka mikilvægt að sú sérþekking sem þar fæst með starfi lögreglumanna okkar, reyndar hjúkrunarfólks líka og ýmissa annarra, nýtist áfram hér á landi. Þetta er mikil reynsla og t.d. hafa þeir lögreglumenn sem þarna hafa komið að starfi fengið mikið hrós fyrir sitt starf. Beðið hefur verið um það í allríkum mæli að fleiri konur komi til þessara starfa. Það er mikil þörf fyrir þeirra störf bæði í Bosníu og Kosovo m.a. vegna þeirra ofbeldisverka sem eru framin á konum á þessu svæði. Það er mikil þörf fyrir konur til þess að taka á þeim málum sem ég veit að hv. þm. skilur og við öll og við viljum gjarnan koma til móts við þetta.

Að því er varðar innra öryggi er sem betur fer farið að ræða þau mál miklu meir, t.d. á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, og ég býst við því að Atlantshafsbandalagið sem slíkt beini athyglinni í meira mæli að þáttum eins og hryðjuverkastarfsemi, glæpastarfsemi og annarri vá sem steðjar að okkur sem þjóð og öðrum þjóðum Atlantshafsbandalagsins. Allt þetta er því til staðar og við munum áfram vinna á þessari braut. En það er mjög mikilvægt að fleiri komi að þessu starfi því að ég finn að það nýtur mikils skilnings, m.a. á hv. Alþingi.