Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 14:57:27 (6565)

2000-04-13 14:57:27# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það lá fyrir af okkar hálfu sem skipum þingflokk Samfylkingarinnar að við vildum gjarnan fá að taka þátt í þessu starfi. Í það minnsta var það okkar sjónarmið að ef svo færi að utanrmn. ætti aðeins einn fulltrúa, þá væri auðvitað eðlilegt að formaður nefndarinnar kæmi inn í slíkt starf. En það er mjög mikil nauðsyn á breiðri samstöðu um þær ákvarðanir sem teknar eru á sviði utanríkismála á Alþingi Íslendinga.

Við þingmenn eigum að taka þátt í öllu því starfi sem okkur er mögulegt. Það hefur verið rætt töluvert um öryggis- og varnarmál og er litlu við það að bæta af minni hálfu. En ég tel mjög nauðsynlegt að alþingismenn, hvar í flokki sem þeir standa og hvaða sjónarmið sem þeir standa fyrir, taki þátt í samstarfinu til þess að menn hafi þá a.m.k. dýpri skilning á þeim ákvörðunum sem teknar eru hverju sinni og varða utanríkismál okkar Íslendinga. Ég tel að sú leið sem farin hefur verið af hæstv. ráðherra með því að skila inn tveimur skýrslum, þessari yfirlitsskýrslu og síðan skýrslunni um stöðu okkar innan Evrópu ásamt því plaggi sem var skilað fyrir ári síðan, sé til fyrirmyndar og mjög góður grunnur að því starfi sem þingmenn þurfa að fara í. Hér getur enginn verið stikkfrí eða afgreitt einhverja hluti fyrir fram án umræðu. Það er ekki hægt. Það er óábyrg afstaða.