Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 15:17:49 (6569)

2000-04-13 15:17:49# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, GE
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[15:17]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með yfirgripsmikla yfirlitsskýrslu um alþjóðamál og ágæta og greinargóða ræðu sem hæstv. utanrrh. flutti í upphafi umfjöllunar um þessa skýrslu.

Ekki er að undra þó margir þingmenn taki þátt í þeirri umræðu sem hér fer fram vegna þess að utanríkisþjónusta okkar er ekki lengur neitt smáfyrirtæki eins og sjá má. Í skýrslu þeirri sem hér er lögð fram segir, með leyfi forseta, að starfsmenn utanríkisþjónustunnar séu samtals um 410 manns. Þar af eru launaðir starfsmenn, samkvæmt þessu yfirliti sem ég hef hér, u.þ.b. 180, u.þ.b. 80 eru í utanrrn. í Reykjavík og 105 á sendiskrifstofum erlendis. Það er því mikil ástæða til að fjalla um þá yfirgripsmiklu starfsemi sem fer fram á vegum utanrrn. fyrir hönd Íslands.

Nú eru mikil tímamót. Það eru 60 ár síðan þessi starfsemi okkar hófst og ástæða er fyrir þingmenn að kynna sér þá sýningu sem opnuð var af því tilefni nú fyrir skömmu. Það hefur átt sér þróun, útvíkkun má segja, til allra átta, ekki síst hvað varðar örvun viðskipta og uppsetningu sendiskrifstofa sem stuðla að alls konar viðskiptum.

Ég tel þó að Íslendingar þurfi að breyta sínum háttum verulega varðandi það málefni. Kemur mér þá í hug þessi kunna saga um ferðamennina, Danina og Íslendingana sem eru á ferð víða um veröld með handtöskur, Íslendingarnir til þess að kaupa og Danirnir til að selja. Það vill nú svo til að það er sennilega rétt að miklu fleiri Íslendingar eru á ferð erlendis til að kaupa en til að selja.

Ég vildi gjarnan að hæstv. ríkisstjórn beitti sér fyrir því að sett yrði upp sérstök markaðsdeild í Háskóla Íslands þar sem kennslan beindist sérstaklega að því að auka sölu framleiðsluvara okkar og einnig að við gerðumst umboðsmenn, eins og Danir, fyrir aðrar þjóðir til að selja. Það veit ég að væri mjög jákvætt fyrir viðskiptamálin á Íslandi og ég tala nú ekki um vegna þess viðskiptahalla sem við búum við. Ég beini því til hæstv. utanrrh. að hann beiti sér í þessu máli sem er mér mjög hugstætt.

Mig langar að nefna aðeins samstarfið í öryggis- og varnarmálum. Ég tel að Íslendingar þurfi að athuga sinn gang mjög vel því að mönnum má vera ljóst að samstarfið fer í vaxandi mæli fram á aðildargrunni Evrópusambandsins. Íslensk yfirvöld verða að skoða fyrir hönd þjóðarinnar hvernig eigi að nálgast þessi mál í ljósi staðreynda eða í ljósi þess sem þróunin er að skapa. Ég segi að ef Atlantshafsbandalagið á að vera lykilpunktur varna- og öryggismála, þarf að efla stöðu NATO innan Evrópusambandsins. Það sýnist mér liggja ljóst fyrir miðað við það sem ég hef kynnt mér um þessi mál.

Ég ákvað, meðan ég var að hlusta á þessa umræðu, að reyna að grípa niður á punkta og reyna að sneiða fram hjá því sem aðrir hafa verið að ræða um. Mig langar þó að nefna hér stöðu og hlutverk Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og vil lýsa yfir ánægju með það skref af hálfu Íslands að sækja um setu í öryggisráðinu. Ísland á að mínu mati að sækjast eftir eins miklum áhrifum og völdum á sviði alþjóðasamstarfs og unnt er. Þannig komum við okkar ár vel fyrir borð.

Herra forseti. Mig langar að nefna eitt af því sem ég tel að Ísland eigi að taka þátt í í auknum mæli og það er friðargæsla og alþjóðlegt hjálparstarf. Ég tel að við höfum alla burði til að leggja okkar af mörkum á því sviði. Í því sambandi vil ég beina þeim tilmælum til hæstv. utanrrh. að hann beiti sér fyrir því að tekin verði upp þjálfun slíks liðs, einstaklinga eða hópa, t.d. í björgunarskólanum að Gufuskálum. Ég tel að þar sé kjörinn vettvangur til þess að þjálfa einstaklinga hér heima áður en þeir koma að slíkum verkefnum á erlendri grund. Þetta er eitt atriði sem mig langar til þess að hæstv. utanrrh. skoði. Hann þarf ekki að svara mér í neinum andsvörum. Mér nægir að fá viðbrögð við þessum athugasemdum mínum í lokaræðu.

Mig langar að nefna að ég hef kynnst því að Ísland hefur lagt af mörkum nokkuð í tengslum við þróunarmál. Það eru kannski ekki miklir fjármunir á alþjóðamælikvarða. En ég tel að það skipti mestu máli hvernig þeir fjármunir sem varið er eru notaðir þó að upphæðin sé ekki gífurlega há. Ég hef séð, herra forseti, t.d. hverju hefur verið komið til leiðar. Ég nefni Namibíu, en þar hef ég komið. Ég veit að þar hafa fjármunir nýst mjög vel til að efla heimamenn til sjálfsbjargar auk þess sem íslenskir einstaklingar og fyrirtæki hafa komið á laggirnar starfsemi sem veitt hefur atvinnutækifæri í landinu auk verkþekkingar sem kemur heimamönnum til góða.

Ég nefni lítillega Norðurlandasamstarf. Það hefur um langan tíma verið talið mjög mikilvægt í utanríkisstefnu Íslendinga og segja má að það sé rétt. En við þurfum, eins og ég sagði í upphafi, að líta til allra átta. Það eru svo margar þjóðir sem eru að tengjast okkur samstarfsböndum og viðskiptaböndum og vil ég í því sambandi nefna ræðu hv. þm. Tómasar Inga Olrichs þar sem hann nefndi samskipti okkar við þjóðir eins og Kína, Japan, Malasíu, Tævan og fleiri.

Það er nefnilega þannig með vini okkar og frændur á Norðurlöndum að þeir eru ekkert í samstarfi við okkur endilega af góðsemi, ekki af góðsemi einni saman a.m.k. Ég tel að þau telji sig sterkari með okkur innan borðs. Það er fyrst og fremst ástæðan, að ég tel, fyrir því að þeir vilja eiga við okkur svo mikil samskipti sem þeir gera auk þess að auðvitað finna þeir eins og við til skyldleika. En það nær nú stutt ef ríkir hagsmunir eru í húfi.

Herra forseti. Mig langar aðeins að nefna EFTA því að ég átti þess kost að starfa í þingmannanefnd Alþingis að þeim málum. Ég tel að nú sé ástæða til að velta fyrir okkur stöðu okkar á þessum vettvangi. Við höfum fengið mjög mikið út úr EFTA-samstarfinu og það er ekki síst vegna þess að embættismenn, fulltrúar okkar Íslendinga, hafa unnið mjög gott starf fyrir Íslands hönd og verið vakandi fyrir hagsmunum Íslands í sínu starfi. Þá er rétt að geta þess að þingmennirnir í EFTA-nefndinni, eins og ég hef þekkt það þessi ár sem ég hef verið á Alþingi, hafa unnið mjög heildstætt starf, þverpólitískt, fyrir hönd Íslands í nær öllum, ég segi í nær öllum málum fyrir Íslands hönd á vegum EFTA-samstarfsins. Það að þessir hópar frá ólíkum stjórnmálaflokkum skuli hafa komið fram þverpólitískt hefur orðið til þess að vekja athygli meðal samstarfsþjóða okkar og hefur skilað virkilegum árangri fyrir Íslands hönd svo sem raun ber vitni.

Herra forseti. Um leið og ég endurtek þakkir fyrir greinargott yfirlit og skýrslur um utanríkismál frá hæstv. utanrrh., vil ég segja eftirfandi: Við Íslendingar höfum náð verulegum árangri í erlendum samskiptum á liðnum áratugum. Við þurfum samt ávallt að huga mjög að hverju skrefi sem við stígum í samskiptum við erlendar þjóðir. Að mínu mati tryggjum við best sjálfstæði íslenskrar þjóðar með öflugu samstarfi og kynningu á okkar sjónarmiðum. Og ég vil ítreka það að á viðskiptasviði eigum við að taka upp hætti frænda okkar Dana, þ.e. að viðskiptamenn íslenskir séu í ríkara mæli að selja en ekki að kaupa. Útflutningur er mjög mikilvægur og lífsnauðsyn þrátt fyrir margháttaðar þarfir varðandi innflutning.

Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið og minni á þessa tvo sérstöku punkta sem ég nefndi í máli mínu.