Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 15:29:53 (6570)

2000-04-13 15:29:53# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[15:29]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna fyrra atriðisins sem hv. þm. nefndi er rétt að geta þess að viðskiptaþjónusta utanrrn. hefur starfað um nokkurra ára skeið. Við höfum reynt að gera okkur far um að taka upp samstarf við sem flesta á þessu sviði og m.a. undirrituðum við formlega fyrir einum tveimur, þremur árum samning við Tækniskóla Íslands um samstarf á sviði útflutningsfræða. Nemendur þar hafa unnið að ákveðnum verkefnum til undirbúnings viðskiptaheimsókna svo að dæmi sé tekið og við höfum tekið tvo nemendur á ári til starfa í sendiráðum erlendis um nokkurra mánaða skeið til þjálfunar. Ég tek því undir það sem hv. þm. sagði í þeim efnum.

Varðandi aðild Íslands að björgunarmálum nefni ég að í sumar verður hér sérstök æfing á vegum Samstarfs í þágu friðar þar sem viðfangsefnið er einmitt björgun í hafsnauð og fyrir þremur árum síðan var önnur björgunaræfing hér á landi að því er varðaði jarðskjálfta og náttúruhamfarir á Íslandi með þátttöku mjög margra þjóða. Við höfum nýlega ásamt dómsmrn. gert formlegan samning við Slysavarnafélagið Landsbjörg um samstarf á þessu sviði þannig að stofnuð hefur verið alþjóðleg björgunarsveit til að senda til annarra landa ef eitthvað kemur upp á. Það má segja að þetta samstarf hafi hafist eftir að við í utanrrn. fórum þess á leit að íslenskir björgunarmenn færu til Tyrklands vegna jarðskjálftanna þar á síðasta ári. Það var mikilvæg reynsla fyrir þetta björgunarfólk og það er mjög mikill áhugi hjá því að halda áfram þessu starfi og við í utanrrn. teljum það afar þýðingarmikið.