Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 15:36:00 (6573)

2000-04-13 15:36:00# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, TIO
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[15:36]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Ég vil einkum víkja að tveimur þáttum í skýrslu hæstv. utanrrh. um alþjóðamál sem ég hafði ekki ráðrúm til að fjalla um í fyrri ræðu minni. Það á sér í lagi við um samstarf okkar innan Atlantshafsbandalagsins og þá ekki síst á þingi NATO. Það markast ekki síst af því að sá sem hér stendur er formaður sendinefndar íslenska þingsins hjá þingi Atlantshafsbandalagsins.

Eins og fram hefur komið er það samdóma álit NATO-þjóðanna allra að nauðsynlegt sé að styrkja svokallaða Evrópustoð Atlantshafsbandalagsins og gera Evrópuþjóðum kleift að taka meiri og virkari þátt í aðgerðum bandalagsins, ekki síst á sviði friðareftirlits og aðgerða til að koma í veg fyrir að neyðarástand skapist og grípa þurfi til vopna síðar meir.

Í þessu sambandi er ljóst að frá upphafi hefur aldrei verið reiknað með því að Evrópustoðin yrði sjálfstæð stoð í varnarmálum. Það hefur alltaf verið reiknað með því að NATO, Atlantshafsbandalagið, stæði vörð um sameiginleg öryggismál Atlantshafsbandalagsþjóðanna. Því er ljóst að takist að þróa þessa Evrópustoð og marka henni sérstök verkefni, sérstaklega til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á að vandræðaástand skapist, þá verður það verkefni aldrei slitið frá Atlantshafsbandalaginu. Á það verður að líta í ljósi þess hverjar skuldbindingar Atlantshafsbandalagið hefur varðandi öryggi meðlimaþjóða NATO.

Þegar þessi hugmynd kom fram var upphaflega gert ráð fyrir að hin sérstaka öryggis- og varnarstefna Evrópusambandsins yrði þróuð innan NATO. Þannig var þetta orðað á fundinum í Washington í apríl 1999. Þá átti að þróa þessa sérstöku stefnu innan NATO og í framhaldi af því var talað um það sem eðlilegan hlut að Evrópusambandið fengi aðgang að búnaði og liðsafla Atlantshafsbandalagsins.

Þegar málið var tekið fyrir í Helsinki af hálfu Evrópusambandsins í desember 1999 þá breyttist málið. Það breyttist að því leyti að þá var rætt um að þessi Evrópustoð og Evrópusamstarfið í varnar- og öryggismálum yrði ekki innan NATO heldur utan þess, þá á vegum Evrópusambandsins. Þetta flækti málin allmikið en var staðfest í Portúgal og er enn í þeim farvegi. Þessi niðurstaða hefur vakið upp spurningar um hver yrði staða þeirra ríkja í Atlantshafsbandalaginu sem ekki eru í Evrópusambandinu. Því miður hefur ekki verið hægt að festa hendur á raunhæfum hugmyndum um hvernig Evrópusambandið ætlar sér að halda á þeim málum. Íslendingar hafa gert sér far um að vekja athygli á þessu vandamáli og hafa bent á að nauðsynlegt sé að leysa þau pólitísku vandamál sem þessi þáttur málsins veldur, ekki síður en hin tæknilegu vandamál. Hingað til hefur gætt tilhneigingar hjá Evrópusambandinu til að ræða fyrst og fremst um tæknilega hluti í þessu sambandi en leiða hjá sér hin pólitísku mál samstarfsins.

Ég er þeirrar skoðunar að málflutningur þeirra sex þjóða, sem standa utan Evrópusambandsins en eru meðlimir í NATO, hafi borið árangur og þar aukist skilningur á að á þessum málum þurfi að taka á jákvæðan hátt. Ég hef hins vegar þá tilfinningu að það muni taka alllangan tíma fyrir Evrópusambandsþjóðirnar að vinna úr Evrópustöðunni. Ástæðan fyrir því er einföld. Til þess að styrkja Evrópustoð Atlantshafsbandalagsins innan Evrópusambandsins þurfa menn að koma sér saman um að nýta fjármagnið betur og hugsanlega eyða meiri fjármunum til varnarmála en nú er gert. Það hefur komið skýrt fram í viðræðum mínum við þingmenn í Evrópusambandslöndum að viljinn til að taka á þessum þætti varnarsamstarfsins er takmarkaður og möguleikarnir takmarkaðir. Á meðan svo er tekur umræðan um Evrópustoðina væntanlega talsvert langan tíma. Það má búast við því að niðurstaða náist ekki í því máli alveg strax.

NATO-þingið hefur tekið þessi mál og almennt samstarf við Evrópuþingið sérstaklega fyrir. Þar er mikill vilji fyrir því að tryggja stöðu ríkjanna sex sem eru utan Evrópusambandsins í NATO. Ég vil einnig geta þess að mikill vilji er fyrir því á NATO-þinginu að efla samstarfið við Evrópuþingið. Sameiginlegir fundir Evrópuþingsins og NATO-þingsins hafa verið haldnir og nú hefur verið ákveðið að fjölga áheyrnarfulltrúum eða gestum Evrópuþingsins á fundum Atlantshafsbandalagsþingsins. Af hálfu forseta NATO-þingsins var lögð fram tillaga um að þessir fulltrúar Evrópuráðsþingsins fengju sömu réttindi og aukaaðilar, þ.e. fengju réttinn til að leggja fram breytingartillögur á fundum NATO-þingsins. Íslenska sendinefndin lagðist gegn þessu og var fallist á málflutning hennar. Aukin sendinefnd Evrópuþingsins á NATO-þinginu mun því ekki hafa þau réttindi, sem hefðu að vissu leyti skekkt valdahlutföllin á þinginu.

Ljóst er að samskipti Rússa við NATO hafa verið í lágmarki síðan loftárásir Atlantshafsbandalagsins á Serbíu hófust. Það hefur verið gerð tilraun til þess af hálfu NATO-þingsins að vekja upp samstarfið sem hefur eiginlega verið í lágmarki. Því sendi forseti NATO-þingsins bréf til forseta dúmunnar og lagði til að fundnar yrðu leiðir til þess að hefja samstarfið aftur. Nú liggur fyrir bréf frá forseta dúmunnar þar sem þessari hugmynd er hafnað og hefur NATO-þingið ákveðið, miðað við tóninn í því bréfi, að ekki verði stigin nein skref af hálfu NATO-þingsins til að nálgast Rússana á meðan þessi viðhorf eru uppi í rússneska þinginu.

Svipað er að sjálfsögðu að segja um sendinefnd Rússa á Evrópuráðsþinginu. Hún sýndi það, þegar Rússar voru þar sviptir atkvæðarétti, að hún vill ekki halda uppi samstarfi við Evrópuráðsþingið við þær aðstæður, sendinefndin gekk öll út. Það andar þess vegna nokkuð köldu frá hinu nýkjörna rússneska þingi í garð NATO-þingsins og í garð Evrópuráðsþingsins. Ég legg hins vegar áherslu á að við ríkjandi aðstæður í samskiptum Rússa við þessi þing þá sé ekki síður mikilvægt að við Íslendingar ræktum sambönd okkar við rússneska þingmenn, reynum að miðla málum og koma þeim sjónarmiðum á framfæri að Rússar hefðu ávinning af því að vinna með okkur á þingi Evrópuráðsins og á þingi NATO. Utanrmn. hefur lagt drög að því að sækja dúmuna heim og mun það tækifæri nýtt til að efla tengsl okkar við hið nýkjörna þing, dúmuna, og reyna að liðka til um þau mál sem þarna eru komin í hnút, bæði að því er varðar Evrópuráðsþingið og þing NATO.

[15:45]

Að sjálfsögðu skapast þessi staða af því að rússnesk stjórnvöld hafa þverbrotið grundvallarreglur Evrópuráðsins, raunar grundvallarreglur ÖSE líka og þau ákvæði í samningnum um hefðbundinn herafla í Evrópu sem þeir höfðu undirgengist.

Hins vegar er ljóst að CFE-samningurinn var gerður í raun og veru áður en sú staða kom upp sem nú er, þ.e. hluti af Varsjárbandalagsríkjunum er nú kominn í NATO. Rússar hafa því gert athugasemdir við það að þessi samningur væri ekki lengur í takt við tímann og hafa viljað endurskoða hann. Ég hefði viljað spyrja hæstv. utanrrh. hvort nokkrum sérstökum árangri hafi verið náð gagnvart Rússum í Istanbúl að því er varðar þennan samning um hefðbundinn herafla, en þar var eitthvað um þessi mál fjallað. Mér er hins vegar ekki alveg ljóst hvort út úr því komu nokkrir nýir fletir á þessu máli sem Rússar sætta sig betur við.

Ég vil að lokum koma inn á tvö atriði í skýrslunni sem ég tel að beri að vekja athygli á. Það fyrsta er á bls. 55. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í framhaldi af samþykkt Alþingis frá 10. mars 1999 þar sem segir ,,að hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land`` kemur vel til greina að Ísland gangi í Alþjóðahvalveiðiráðið að nýju. Næsti fundur ráðsins verður í Ástralíu í byrjun júlí 2000.``

Hér tel ég að um mikilvægt sjónarmið sé að ræða. Ég tel það nauðsynlega forsendu þess að Íslendingar geti hafið hvalveiðar á ný að við göngum í Alþjóðahvalveiðiráðið og það sjónarmið sem kemur fram í skýrslu hæstv. utanrrh. er með þeim hætti að ég styð það eindregið.

Ég vil einnig geta þess að á einum stað í skýrslunni er vikið að Tævan og tekið fram að það sé réttur Íslendinga að hafa sömu afstöðu til Tævans og nágrannar okkar og miða viðskipti sín við Tævan við það. Ég er þessu sammála. Ég vil hins vegar taka fram að samskipti Íslendinga við Tævan hafa verið heldur minni en nágrannaþjóðir okkar hafa haft við það ríki. Segja má að eiginlega allar Evrópuþjóðir hafi viðskiptaskrifstofu í Tævan sem sér þá um viðskiptalega hagsmuni þessara þjóða í Tævan, sem eru yfirleitt mjög miklir. Það er misjafnt hvernig þessar viðskiptaskrifstofur eru byggðar upp. Sumar þeirra eru á vegum atvinnulífsins í þessum löndum. Í öðrum tilfellum eru tengsl við stjórnarráðið og þá ýmist við viðskiptaráðuneyti eða jafnvel við utanríkisráðuneyti, en þessi sambönd eru allmikilvæg fyrir viðskipti við Tævan. Ég tel að við eigum að skoða möguleikana á því að Íslendingar opni viðskiptaskrifstofu á vegum atvinnulífsins í Tævan, miðað við það hversu mikilvægt Tævan er í heimsviðskiptum og hversu mikilvægt er að viðskipti við Tævan fái að þróast áfram og geti verið eðlileg í framtíðinni.

Ég vil nefna það sérstaklega í þessu sambandi hversu alvarlegt það hefur verið þegar Kínverjar hafa farið fram með hótunum við Tævana, sérstaklega þegar þeir gripu til þess að vera með flugskeytaæfingar í sambandi við forsetakosningar í Tævan fyrir nokkrum árum. Þá hafði það strax áhrif á hlutabréfamarkaðinn. Það hafði áhrif á heimsviðskipti og að sjálfsögðu til hins verra.

Sú þróun sem hefur átt sér stað í Tævan, þar sem lýðræði hefur verið að styrkjast, er jákvæð og það er að sjálfsögðu góðs viti að þar er lýðræðisþróun í góðu gengi. Það er mjög athyglisvert og í raun neikvætt að stjórnvöld í Kína skuli hafa tekið svo neikvæða afstöðu til þessarar þróunar. En það er von mín að samskipti Tævan og meginlandsins muni batna og það ekki síst í gegnum viðskipti og það er ákaflega mikilvægt að við sýnum því áhuga að viðskipti bæði við meginland Kína og við Tævan geti þrifist sem best.