Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 15:51:01 (6574)

2000-04-13 15:51:01# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[15:51]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af ráðstefnunni í Istanbúl. Þó að ég hafi ekki verið þar viðstaddur er mér kunnugt um að þessi samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu var endurnýjaður þar án þess að neinar teljandi breytingar hafi orðið þar á. Hins vegar fóru Rússar fram á það og það var mikið rætt í aðdraganda þessarar ráðstefnu að sýndur yrði skilningur á þeirri aðstöðu sem þeir væru í vegna baráttu við uppreisnarmenn í Tsjetsjeníu.

Ekki var orðið við því og engar breytingar gerðar fyrir Rússa vegna þess. Hins vegar hafa Rússar, eins og kom fram í minni ræðu, orðið fyrir mikilli gagnrýni fyrir að hafa brotið þennan samning vegna átakanna í Tsjetsjeníu. En Rússar héldu því fram að ekki væri hægt að berjast gegn hryðjuverkahópum, eins og þeir orðuðu það, án þess að einhverjar breytingar yrðu þarna á. Af þessum sökum hafa þeir orðið fyrir verulegri gagnrýni vegna þess að því er haldið fram af ÖSE og ÖSE-þjóðunum mörgum hverjum að Rússar hafi ekki virt þennan samning sem var endurnýjaður í Istanbúl.