Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 15:52:49 (6575)

2000-04-13 15:52:49# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, SJS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það voru nokkur atriði sem mér gafst lítt eða ekki tími til að ræða í minni fyrri ræðu. Það getur hent bestu menn að ætla sér um of og taka meira fyrir en tíminn leyfir. Ég ætlaði því að nota að einhverju leyti þann tíma sem ég hef í seinni ræðu til að drepa á nokkur atriði.

Ég nefndi aðeins stöðu bandaríska hersins og minnti á tillögu okkar um að ganga til viðræðna um brotthvarf hans úr landinu og hvernig við Íslendingar yfirtökum þá starfsemi sem semja þarf um í því sambandi, samhliða auðvitað aðgerðum til þess að treysta atvinnulíf á þeim svæðum sem verða fyrir áhrifum af brottför hersins. Ég trúi því staðfastlega að sá tími muni upp renna að Ísland verði á nýjan leik herlaust land og bind auðvitað fyrst og fremst vonir við að menn fallist á, eftir því sem friðvænlegar horfir í heiminum, að það eigi að vera okkar framtíðarmarkmið eins og flestra annarra þjóða að vilja helst ekki þurfa að halda erlendan her innan sinna landamæra.

Ég vil nefna í því sambandi til viðbótar þær tillögur tvær sem hér liggja fyrir þingi og báðar tengjast umhverfisáhrifum af völdum umsvifa erlendra herja á Íslandi. Það er málasvið sem ég tel að þurfi að taka fyrir. Það er komin hreyfing á þessi mál mjög víða í nágrannalöndunum og þar sem herir hafa verið umsvifamiklir, haft búðir, hefur komið í ljós að þessari starfsemi, og ekki kannski síst þessari starfsemi, hafa fylgt ýmis váleg áhrif á umhverfið. Víða um heim er því nú verið að reyna að taka til í þeim efnum. Sem dæmi má nefna Kanada þar sem miklum fjármunum er eytt árlega í að hreinsa upp eftir gömlu djúpstöðvarnar, ,,Distant Early Warning``-stöðvarnar, eins og það var víst kallað og var keðja þeirra gegnum norðanvert Kanada. En þar er nú með peningum bæði frá kanadísku alríkisstjórninni og frá Bandaríkjamönnum verið að leggja mikla vinnu í að hreinsa upp. Svipað er að gerast víðar þó á ýmsu gangi með að ná samkomulagi um þá hluti. Má þar sem dæmi nefna Þýskaland, Filippseyjar, Japan og fleiri lönd.

Ég vonast til að þessar tillögur fái umfjöllun og þessi mál verði þar af leiðandi hér áfram á dagskrá.

Í öðru lagi vil ég bæta nokkrum orðum við þá umræðu sem hér hefur orðið um ástand mála í Írak. Ég þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið það mál upp. Fyrir þinginu liggur sömuleiðis tillaga okkar þingmanna þriggja þingflokka um að Ísland taki upp þá stefnu að beita sér fyrir því að endurkoðun fari í gang á framkvæmd þessa viðskiptabanns og í raun á leikreglum í þessu sambandi, þar sem reynt verði að draga þannig mörk að viðskiptatakmörkunum, bönnum eða þvingunum sem tæki í alþjóðastjórnmálum verði reynt að beita þannig að af því hljótist þó aldrei jafnmikil nauð, þjáningar og dauðsföll og nú í Írak. Einhvers staðar verður alþjóðasamfélagið að draga sér mörk í þessum efnum. Ég tek fram að ég er ekki að mæla gegn því að reynt sé að nota viðskiptalegar aðgerðir sem tæki því oft og tíðum er það nærtækara en valdbeiting að sjálfsögðu. En það verður þá að reyna að draga einhvers konar mörk þannig að brýnustu lífsnauðsynjar, matvæli og lyf verði aldrei af svo skornum skammti í þeim löndum sem fyrir því verða að af því hljótist hungursneyð og mannfellir af þeirri stærðargráðu sem þarna hefur orðið og auðvitað helst enginn.

Ég þarf ekki að fara aftur yfir það hvernig ástand mála er þarna. Það er satt best að segja skelfilegt og fer að sjálfsögðu versnandi vegna þess að landinu eru allar bjargir bannaðar. Það fást ekki varahlutir til að gera við veitukerfi. Orkudreifing, vatnsveitur, frárennsli og annað er í rúst að ógleymdu því að áfram eru í gangi loftárásir á landið þannig að í raun og veru ríkir styrjöld sem er á góðri leið með að verða gleymd styrjöld í landinu. Stærstu borgir, í suðurhlutanum einkum, eins og Basra og aðrar slíkar, verða fyrir loftárásum og þannig mætti áfram telja.

Af því að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir minntist hér á þann möguleika að menn tækju þetta mál einnig upp á norrænum vettvangi, þá hefur það verið gert. Ég flutti tillögu um það á vettvangi Norðurlandaráðs fyrir einum þremur árum síðan að Norðurlöndin samræmdu afstöðu sína í þessum efnum og beittu sér á þennan hátt á alþjóðavettvangi. Sú tillaga hlaut yfirleitt mjög jákvæðar umsagnir á öllum Norðurlöndunum. Allar helstu hjálparstofnanir, þróunarsamvinnustofnanir Norðurlandanna og fleiri slíkir aðilar mæltu eindregið með því að Norðurlöndin beittu sér með þessum hætti. En tillagan náði því miður ekki fram að ganga og var það einkum andstaða hægri manna frá Íslandi sem kom í veg fyrir að hún hlyti afgreiðslu eftir að hafa fengið jákvæða umsögn. Hún var reyndar lögð fyrir með tillögu af hálfu forsætisnefndar Norðurlandaráðs um jákvæða afgreiðslu, en stoppaði sökum andstöðu sem upp kom í umræðum á þinginu.

Það er vel til fallið að taka þessa ábendingu til athugunar og hugsanlega endurflytja tillöguna því að ég held að nú séu að verða talsverð veðrabrigði í þessum efnum og að fleiri og fleiri séu nú að gera sér grein fyrir því að ástandið eins og það er er auðvitað ekki verjandi og að við getum ekki endalaust horft fram hjá því sem þarna er að gerast hvað sem öðru líður og hvað sögunni í þessum efnum líður.

Varðandi hafréttarmál þá er á það minnst í skýrslu ráðherra að í kjölfar þess að alþjóðahafréttarsáttmálinn hefur öðlast þjóðréttarlegt gildi, þ.e. að tilskilinn fjöldi ríkja hefur staðfest samninginn, hafa þar orðið breytingar á. Nú markar hann þær vinnureglur sem fara á eftir til að leysa deilumál þjóða, þar á meðal afmörkun landgrunnssvæða utan 200 mílna sérefnahagslögsögu ríkja. Það svæði sem fyrst og fremst á í hlut hvað Ísland snertir og er ófrágengið er Hatton-Rockall svæðið. Það kemur fram að frestur til að skila inn kröfum eða tillögum er til 2004. En það er mikilvægt vegna þess hversu viðamikil og flókin slík mál eru að kröfugerð okkar og tillögur verði undirbúnar.

[16:00] (framhald af ræðu í vinnslu)

[15:52]

Ég ítreka það sem ég nefndi áðan sem möguleika að Íslendingar leiti eftir samstöðu með grönnum sínum, Færeyingum. Mér finnst margt mæla með því, ef hægt er að komast að innbyrðis samstöðu okkar í millum, þá væri það sterkt að tefla fram sameiginlegri kröfugerð. Nú er það að sjálfsögðu ekki sjálfgefið að saman gangi og hugsanlega gætu Íslendingar og Færeyingar eða Danir fyrir þeirra hönd eftir atvikum --- mér er ekki alveg ljóst hvort það er svo enn að í þessu tilviki mundu Danir fara með forsvar fyrir Færeyjum, ég er þó ekki viss um að svo sé vegna þess samkomulags sem dönsk og færeysk stjórnvöld gerðu með sér fyrir um 2--3 árum að Færeyingar yfirtóku forsvar fyrir auðlindamálum sínum og hafa farið með það síðan. Einu gildir að augljóslega væri að mörgu leyti mikill styrkur að því ef þarna gæti fyrst náðst saman milli Íslendinga og Færeyinga og þeir síðan skilað inn samræmdri kröfugerð og það væri miður í ljósi góðra samskipta þessara grannþjóða og frændþjóða í gegnum tíðina á sviði sjávarútvegsmála og hafréttarmála ef við næðum ekki að stilla þarna saman strengi. Enn mun að vísu standa út af í samskiptum okkar ágreiningur um afmörkun landhelginnar á milli Íslands og Færeyja vegna deilna um hvort Hvalbakur skuli teljast grunnlínupunktur. En þarna er greinilega fram undan viðfangsefni sem þarf að sinna af alúð.

Ég fagna því að íslenska ríkisstjórnin tók ákvörðun um að taka þátt í átaki til að fella niður skuldir þróunarríkja eða skuldugustu ríkja og styð heils hugar að það sé gert. Það er að vísu miður að nokkur af auðugustu ríkjum heims hafa enn ekki endanlega gefið sig upp í þeim efnum hvað varðar þátttöku í svonefndum HIPC-sjóði á vegum Alþjóðabankans en Íslendingar hafa ákveðið að leggja þar sitt af mörkum og er það vel.

Varðandi þróunaraðstoð að öðru leyti má sama segja að það er vissulega ánægjulegt þó í litlu sé, að framlög Íslands hafa þar á síðustu árum verið að aukast, en betur má ef duga skal. Við erum enn langt frá því að leggja af mörkum eins og markmið Sameinuðu þjóðanna er, 1% af þjóðarframleiðslu eða 0,7% af þjóðarframleiðslu hvað varðar opinber framlög.

Vegna þess að hér urðu fyrr á fundinum nokkrar umræður um væntanlegt sendiráð Íslands í Vín eða að skrifstofa fastanefndar í Vín verði hækkuð í tign og gerð að sendiráði gagnvart Austurríki, þá endurtek ég það sem ég áður sagði að ég er stuðningsmaður þeirra aðgerða og ég tel að þrátt fyrir leiða atburði í austurrískum stjórnmálum þar sem þjóðernishægriöfgaflokkur komst til valda og áhrifa sem allir hafa að sjálfsögðu skömm á, þá eigum við ekki að blanda því saman í þessu tilviki, enda er um að ræða spurninguna um þátttöku okkar í mikilvægri alþjóðastofnun þar sem er stofnun um öryggi og samvinnu í Evrópu og líka spurning um langtímauppbyggingu utanríkisþjónustu okkar. Ég er líka þeirrar skoðunar þó að það sé kannski af nokkrum öðrum ástæðum en sumir aðrir hafa teflt fram, að e.t.v. sé ekki allt sem sýnist í hörðum viðbrögðum Evrópusambandsríkja gagnvart hinni nýju ríkisstjórn Austurríkis og sérstaklega þá ekki í viðbrögðum sumra jafnaðarmannaflokka á meginlandi Evrópu. Því miður óttast ég að það sé ekki eingöngu hræðslan við þjóðernisofstækishugmyndir og manngæska af þeim toga sem gangi mönnum til, heldur hitt í bland að það er þekkt að flokkur Jörgs Haiders er sá sem langhatramlegast berst í austurískum stjórnmálum gegn stækkun Evrópusambandsins og auknum Evrópusamruna og það er auðvitað eitur í beinum þeirra krataflokka sem voru í forustu fyrir því að áherslur og viðbrögð Evrópusambandsins urðu jafnhörð og raun ber vitni og margir þykjast sjá þar fyrst og fremst fyrirbyggjandi aðgerðir gagnvart því að hin nýja ríkisstjórn Austurríkis verði þröskuldur í vegi stækkunar Evrópusambandsins og frekari Evrópusamruna ekki síður en hitt, sem ég að sjálfsögðu dreg ekki úr að er líka til staðar, að menn hafi áhyggjur af uppgangi stjórnmálahreyfinga með sjónarmið af þessu tagi í farteskinu þó svo menn hafi þar á bæ eitthvað reynt að sverja þau af sér upp á síðkastið. En hvað sem því líður þá held ég að út frá því sem áður hefur verið ákveðið sé rétt að stíga skrefið til fulls og gera fastanefndina í Vín að formlegu sendiráði.

Um afvopnunarmálin verð ég að segja að því miður held ég að mönnum sé að yfirsjást svolítið í sambandi við þróun á því sviði þar sem ekkert síður er um mjög ískyggilega hluti að ræða en jákvæða. Enn er að vísu verið að vinna að ýmsum samningum frá fyrri tíð um takmörkun vígbúnaðar og afvopnun, en líka eru hlutir að gerast sem eru mjög alvarlegs eðlis. Ég bendi þar á áform Bandaríkjamanna um að koma sér upp gagnflaugakerfi eða takmörkuðum eldflaugavörnum. Það er auðvitað mjög ískyggilegt ef þau harðlínuviðhorf verða ofan á í Bandaríkjunum að fara af stað með nýtt vígbúnaðarkerfi mjög í andstöðu við velflesta hygg ég, sem sjá ekki tilefni til þess að í stað stjörnustríðsáætlunarinnar frægu sem einu sinni átti að setja upp komi sérstök gagnflauga- eða eldflaugavarnaáætlun undir því yfirskini að nauðsynlegt sé að bregðast við mögulegum skúrkaríkjaárásum eða hryðjuverkaárásum einhverra manna. Ég vek athygli á því að ríkin sem nefnd eru sem mögulegir sökudólgar í þessum efnum eru ekki beinlínis í því ástandi flest hver að það sé líklegt að menn hafi mikið bolmagn til þess að ógna heimsveldinu sjálfu, Bandaríkjunum. Eða trúir því nokkur maður að hin sorglega leikna og sveltandi Norður-Kórea sé ógnun við öryggi Bandaríkjanna eða þess þá heldur Írak, ríki sem er í rjúkandi rúst, sem búið er að sprengja aftur á nánast á steinaldarstig og þar sem stór hluti almennings sveltur heilu hungri. Ég held að menn verði að horfast í augu við það að hér býr annað á bak við og menn eiga ekki að gera öðru skóna.

Það er einnig mjög ískyggilegt ef litið er á sambærilega hluti að Rússland í sínu hörmulega ástandi skuli verja stórauknum fjármunum á nýjan leik til vígbúnaðar, en það er staðreynd að jafnhörmulega og gengur þar t.d. í efnahagsmálum, þá er engu að síður verið að stórauka fjárveitingar til endurnýjunar vígbúnaðar Rauða hersins. Mjög alvarlegir hlutir eru því líka að gerast í bland sem kalla á það að mínu mati að afvopnunarmál verði aftur tekin fastari tökum á alþjóðavettvangi. Enginn vafi er á því að langbrýnasta verkefnið í kjölfar þeirra samninga sem þegar hafa tekist á undanförnum árum, eins og um bann við tilraunum með kjarnavopn, jarðsprengjusamningurinn og fleiri slíkir, að skriður komist á viðræður um alþjóðasamning um vopnaviðskipti. Það er mat flestra sem þessa hluti grandskoða, t.d. fræðimanna, að þar séu endarnir lausir og þar verði að reyna að koma einhverjum skikk á hlutina. Ég hvet því hæstv. utanrrh. til að beita sér sérstaklega í þeim efnum, þ.e. að farið verði af stað, væntanlega þá undir formerkjum samstarfsins í Genf, um gerð alþjóðasamninga á sviði afvopnunarmála með samningalotu sem miði að því að koma á samningi og leikreglum um vopnaviðskipti.

[16:08]