Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 16:13:06 (6578)

2000-04-13 16:13:06# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það nægir að lesa þingtíðindin í þessu sambandi og hv. þm. og flokksmenn hans hafa iðulega gefið það í skyn á hv. Alþingi að Ísland gæti einhliða rofið þetta viðskiptabann á einhvern hátt sem er náttúrlega algerlega rangt og væri þá það sama og að við segðum okkur úr Sameinuðu þjóðunum. Það hefur ávallt legið fyrir.

Ég fagna því á nýjan leik að nú skuli rætt um þetta á þessum nótum og ég skal ekkert vera að rifja það allt saman upp, hv. þm., en ég býst við að hv. þm. finni það út þegar hann les ræður sínar fyrr á árum um þetta mál og líka ræður hv. þm. Ögmundar Jónassonar og jafnvel frammíköll þeirra skömmu fyrir jól, þá mundu þeir verða annars áskynja.

En það er gott þegar hv. þingmenn ræða þetta mál á þann hátt sem nú er gert og ég fagna því. Það liggur alveg ljóst fyrir eins og hv. þm. hefur núna viðurkennt, að hér er um alþjóðaaðgerð að ræða og við sem aðilar að Sameinuðu þjóðunum höfum okkar skuldbindingar í þeim efnum og verðum að virða þær. Það var allsherjarþingið sem kom þessu banni á en það er aðeins öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sem getur aflétt því.

[16:14]