Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 16:17:11 (6580)

2000-04-13 16:17:11# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[16:17]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það vakti alveg sérstaklega athygli mína í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri grænna, að hann skyldi sérstaklega leggja lykkju á leið sína hér í umfjöllun um stjórnmál í Austurríki í ljósi þeirrar staðreyndar að þar er hægri öfgaflokkur kominn til valda með nasískar tilhneigingar, og að hann gerði jafnaðarmönnum í Evrópu upp skoðanir í þessum efnum. Hann lét í veðri vaka og raunar fullyrti að skýringa á andstöðu og kröftugum mótmælum stjórna jafnaðarmanna í fjölmörgum Evrópuríkjum og atbeina þeirra innan Evrópusambandsins væri ekki að leita í lýðræðisást og að jafnaðarmenn hefðu ekki einlægan áhuga á að bregðast við því að þessar öfgafullu tilhneigingar næðu að festa rætur í Mið-Evrópu og jafnvel færast til Austur-Evrópu, heldur væri hitt raunin að einhverjar sérskoðanir þeirra á því að Haider og hans öfgasinnaði flokkur stæði gegn stækkun Evrópusambandsins réðu þar ríkjum. Þetta er ákaflega sérkennileg söguskýring hjá hv. þm. og ég bið hann að skjóta stoðum undir þessar fullyrðingar sínar.

Ég minni á að ég og hv. þm. vorum í ágætri ferð í Þýskalandi í síðustu viku og áttum þar orðræður við fjölmarga þingmenn á þýska sambandsþinginu. Einn þeirra var m.a. varaformaður þingflokks jafnaðarmanna. Hann fékk þessa spurningu einmitt, ekki frá hv. þm. heldur fulltrúa Sjálfstfl. sem hóf þennan söng. Hann svaraði því mjög skýrt að svona kvittur ætti ekki rétt á sér. Þvert á móti varaði hann við því að svona öfgatilhneigingar þyrfti að stöðva í fæðingu og koma þannig í veg fyrir að þeim ykist máttur hugsanlega í nýfrjálsum ríkjum Austur-Evrópu. Það er önnur saga.