Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 16:19:25 (6581)

2000-04-13 16:19:25# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[16:19]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. hljóti að hafa verið á einhverjum öðrum fundi en ég var á því að það kom einmitt þvert á móti fram hjá þessum ágæta varaformanni þingflokks jafnaðarmanna í Bundestag að auðvitað yrðu menn að horfa til þess að hvert einasta ríki innan Evrópusambandsins hefði neitunarvald um stækkunarferlið og um samrunaferlið. Hann hikaði ekkert við --- þetta var að vísu lokaður fundur --- að draga það inn í umfjöllun einmitt um viðbrögðin við öfgastefnu Jörgs Haiders. Það sem hann bar hins vegar harðlega á móti var að þessi viðbrögð hefðu verið pöntuð af jafnaðarmönnum í Austurríki. Ég hygg að hv. þm. hafi ekki fylgst nógu vel með úr því að hann leggur hlutina svona upp.

En það þarf ekkert að vitna til þessa heimildarmanns. Við getum fylgst með umræðunni eins og hún var í Danmörku. Þar hefur orðið hörð umræða um þetta mál. Danir hafa brugðist heldur illa, yfirleitt án tillits til þess hvar í flokki þeir standa, við þessari framgöngu Evrópusambandsins. Og þar hefur þetta að sjálfsögðu aftur og aftur komið upp í umræðunni, eins og ég reyndar sagði nú, að þarna ræður mestu ótti manna við þessar öfgahugmyndir. Ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni að ég gerði ekki lítið úr því. Það er því rangtúlkun hjá hv. þm. að segja að ég hafi sagt annað. En ég fullyrti vissulega að margt benti til þess að fleira héngi á spýtunni og ég skal standa við þau orð. Ég rökstyð þau með þeim upplýsingum sem ég tel mig hafa, m.a. úr okkar Þýskalandsheimsókn, frá því að hafa fylgst með umræðunni um þessi mál í Danmörku og reyndar víðar að því að ég hygg að þetta hafi einnig komið fram í umfjöllun um þessi mál í Frakklandi, þ.e. að auðvitað spilar þarna líka inn í hræðsla manna við afstöðu nýju austurrísku ríkisstjórnarinnar hvað varðar þátttöku í Evrópusamstarfinu því að það er alveg ljóst að þar hafa orðið verulegar breytingar á frá þeirri jákvæðu afstöðu sem fyrri ríkisstjórn hafði. Og vegna neitunarvalds hvers einstaks ríkis þá blandast þessir hlutir saman.