Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 16:42:33 (6587)

2000-04-13 16:42:33# 125. lþ. 101.2 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[16:42]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Vandamálið er fólgið í því að við leysum ekki gróðurhúsalofttegundavandann með því að flytja mengunina frá einum stað til annars. Þannig er þetta vandamál í hnotskurn. Ég gat þess í ræðu minni áðan að fyrirsjáanlegt væri að notkun á gasi, olíu og kolum til rafmagnsframleiðslu mundi stóraukast á næstu árum. Danir eru þátttakendur í þessu og Evrópusambandið er þátttakandi í þessu þó að það hafi skuldbundið sig svona mikið.

Það má heldur ekki gleyma því að Danirnir njóta ákveðinna forréttinda vegna dagsetninganna. Við erum í vandræðum vegna dagsetninganna og það er kannski fyrst og fremst þess vegna sem Íslendingar hafa reynt að fá þessu hnikað, vegna dagsetninganna. Við komum þannig að málum að við vorum farnir nota jarðhita til að hita hús okkar að mestu leyti, áður en þessar dagsetningar komu til. Við getum þannig ekki breytt stöðunni okkur í hag með jarðhitanum.

Að lokum langar mig að segja að Danir eru mjög útsjónarsöm þjóð. Þeim tekst eiginlega að selja mönnum hvað sem er. M.a. hefur þeim tekist ágætlega að selja sig sem umhverfisvæna þjóð þó þeir séu dálítið duglegir að menga andrúmsloftið. Hæfileikar þeirra á þessum sviðum hafa ekki síst komið í ljós í þessu.